c

Pistlar:

9. mars 2015 kl. 23:24

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Gallar okkar og kostir

Að undanförnu hef ég verið að skoða þá lesti sem mest áberandi eru í fari okkar viskamannanna og eins dyggðirnar sem prýða okkur, og eru svo miklu skemmtilegra umfjöllunarefni.

Mér sýnist á öllu að það sé margt sem ég, og líklega við flest eigum eftir að sniðla af okkur. En það þurfum við líklega að gera til að ná fullkomnum friði og sátt við okkur sjálf.

Það er stundum talað um hinar "sjö dauðasyndir" sem Marteinn Lúther taldi vera birtingmyndir lasta okkar, en þær eru að hans mati, hroki, öfund, reiði, leti, ágirnd, ofát og munúðlífi.

En á móti voru "höfðudyggðir mannsins" einnig sjö talsins eða viska, hófstilling, hugrekki, réttlæti, von, trú og kærleikur.

Til gamans má geta að árið 2000 gerði Gallup könnun á því hvað Íslendingum þyki vænst um í eigin fari og annarra. Í Tímariti Máls og menningar (2. tbl. 2000) eru niðurstöður hennar túlkaðar svo að nýju íslensku höfuðdyggðirnar séu: Hreinskilni, dugnaður, heilsa, heiðarleiki, jákvæðni, traust, fjölskyldu- og vináttubönd.

Þegar við sjáum upptalninguna á þessum göllum og kostum, sýnist mér að þeir lestir sem taldir eru upp séu þeir sem varna okkur helst frá góðu og gjöfulu lífi.

Hrokafull manneskja á mjög erfitt í samskiptum og getur í raun aldrei byggt upp falleg samskipti í kringum sig vegna þess að skoðanir og gildi annarra skipta hrokann litlu máli.

Öfundin á erfitt með að samgleðjast velgengni annarra, og étur okkur smá saman upp með gremjunni og reiðinni sem fylgir henni. Það eyðileggur síðan að við getum átt heilbrigð og gjöful samskipti við þá sem við öfundumst útí.

Reiðin étur okkur líka upp, og hatursfull manneskja á hvorki til frið við sjálfa sig né samferðamenn sína, og finnur seint leið fyrirgefningarinnar sem nauðsynleg er til að eiga frið í sálinni.

Letin er afar eyðileggjandi afl og gerir það líklega að verkum að lífsins veraldlegu gæði öðlumst við ekki. En það versta við letina er að við fáum sjaldan að finna fyrir sigurtilfinningunni sem fylgir dugnaðinum og því að sigra áskoranir lífsins. Tap á sjálfsmynd fylgir oft, ásamt sjúkdómum eins og kvíða og þunglyndi.

Ágirndin í fjármuni hefur oft gert menn að öpumn eins og máltækið segir, og ég vil bæta við að hún hefur margsinnis eyðilagt fjölskyldur, samskipti og sálarfrið þess sem haldinn er ágirnd  þessari og öðrum ágirndum.

Öll vitum við hvað ofátið hefur í för með sér, og við pössum bara einfaldlega ekki í kjólinn fyrir jólin :) En alvarlegri birtingamynd ofátsins er léleg heilsa og ótímabær dauði.

Munúðarlífið getur svo víst kostað okkur ýmislegt, og margir hafa þurft að leita sér lækninga og leiða til að koma sér út úr þeim vítahringjum sem fylgt geta líferni af þessu tagi. Það er oft erfitt að rata hinn gullna meðalveg og því ættum við að vera vakandi fyrir því að láta ekkert ná tökum á okkur sem eyðilagt getur gleði og hamingju lífsins.

En tölum núna um kostina, það er svo miklu skemmtilegra...

Viska er orð sem er í algjöru uppáhaldi hjá mér og fátt veit ég skemmtilegra en að leita hennar hvar sem hana er að finna.

Viskan í sinni fegurstu mynd gerir lífið betra, fordómalausara, kærleiksríkara, fyrirgefandi, uppbyggjandi og samhygðarfullt.

Og í raun má segja að allar þær dyggðir sem taldar voru upp hjá Lúther rúmist innan viskuhugtaksins.

Án hófstillingar, hugrekkis, réttlætis, vonar, trúar og kærleika er engin viska.

Þegar viskan er við völd í okkur sjálfum og heiminum erum við nægjusöm og þurfum ekki alla þá hluti sem við höldum stundum í einfeldni okkar að geti fyllt tómarúm hjartna okkar.

Við verðum einnig hugrökk í því að vernda okkur sjálf, lífið og aðra. Viljum heilbrigð samskipti (það krefst oft hugrekkis) og viljum aðeins það besta sem lífið hefur uppá að bjóða í heilbrigði og heiðarleika.

Við verðum einnig jafnréttissinnuð og sjáum alla sem jafningja okkar. Viljum sjá aðra njóta sannmælis, velgengni og gleðjumst með öðrum.

Við verðum full af von til lífsins og trúar á það góða í heiminum, og trúum því að ljósið sigri að lokum myrkrið sem umlykur veröldina. 

Og með því að halda í alla þá visku sem við getum aflað, getum við smá saman sigrað lesti okkar. Getum þannig lifað jákvæðu og sigrandi lífi, okkur sjálfum og öðrum til gagns. Þannig gerum við heiminn að örlítið betri íverustað fyrir okkur öll. 

Ég hvet okkur öll til að finna hvaða lesti við þurfum að takast á við í lífi okkar og vinna að því að losa okkur við þá að miklu eða öllu leiti .

Einnig vil ég hvetja okkur til að efla þá kosti sem við eigum til í hjarta okkar og afla okkur síðan visku varðandi gönguna á vegi lífsins.

Og ég lofa því að við munum uppskera betra og gjöfulla líf ef við gerum þetta.

Stefnum öll á að eiga líf sem sýnir bestu útgáfuna af okkur sjálfum, og blómstrum sem aldrei fyrr! 

Þar til næst elskurnar

Xoxo

Ykkar Linda

---

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira