c

Pistlar:

24. mars 2015 kl. 0:50

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Er öllu lokið eftir 45 ára aldurinn?

konur yfir 50Ég las nú nýverið grein hér á mbl um rannsókn sem gerð var um atvinnumöguleika þeirra sem voru komnir yfir fertugt að mig minnir.

Út úr þeirri rannsókn kom að konur ættu helst að sækja um bætur eftir fjörutíu og fimm ára aldurinn, þar sem þær væru ekki teknar gildar á vinnumarkaðnum. Karlarnir áttu víst aðeins meiri möguleika þar, eða til 55 ára aldurs!

En ég hef ekki nokkra trú á því að við hér á landi séum á sama stað með þetta og nágrannar okkar í UK. (skýrsla þessi var gerð á veg­um eft­ir­launa -og vinnu­mála­deild­ar breska rík­is­ins)

Í skýrslunni kom fram að fjölmiðlar eiga stóran þátt í því að búa til þetta aldurseinelti, og það þykir mér afar leitt að heyra. Ef einhverjir þurfa á fullþroskuðum viskufullum einstaklingum að halda, þá eru það einmitt fjölmiðlar á þessum síðustu og bestu/verstu tímum.  

Ég bara fann hvernig ég gerði uppreisn í huga mér þegar ég las þessa grein, og réttlát reiðin (að mér fannst) tók öll völd.yell

Síðan kom hugsunin, "ekki nema von að allt sé á heljarþröm í heiminum"!

Því að það er fyrst á þessu aldursskeiði sem bæði kynin eru komin með ákveðinn þroska. Þroska og ákveðna þekkingu á hinum ýmsu mannlegu þáttum sem gagnast vel þegar stórar og merkilegar ákvarðanir eru teknar.

Hvatvísi sú og það netta kæruleysi sem einkenndi okkur flest fram að fertugu er á hröðu undanhaldi, og við hefur nú tekið yfirveguð ábyrgðarkennd í flestum tilfellum. 

Eins er fólk yfir fjörutíu og fimm , að ég tali nú ekki yfir fimmtugu, yfirleitt bestu starfskraftarnir. 

Þeir fimmtugu mæta oftast mjög vel til vinnu, börnin ekki fyrirstaða, enda flest farin að heiman. Og svo eru þeir yfirleitt á besta hugsanlega sköpunartímabili lífs síns.

Ég tala nú bara fyrir sjálfa mig þegar ég segi að það var ekki fyrr en eftir að ég varð fimmtug sem ég fór að blómstra.

Hef gert meira á þessum tæpum fimm árum sem síðan hafa liðið en öll fimmtíu árin þar á undan.

Ég veit hver ég er í dag, hvert ég stefni, hvað ég vill í lífinu og veit að lífið er ekki svona alvarlegt eins og ég hélt að það væri. Er nákvæmlega sama hvað fólki finnst um minn lífsstíl, er nokk sama um fræga fólkið, en er forvitin um allt og ekkert sem viðkemur lífinu sjálfu, sköpuninni og dauðanum.

Kynni mér vel málavexti áður en ég felli dóma þegar kjaftsögurnar koma inn á borð til mín (og finnst ég bara mjög sjaldan þurfa að fella dóma, á nóg með mig og mitt líf) Veit að við erum öll hér á okkar eigin ferðalagi og ekkert ferðalag er eins.

Vona svo að þessi heimur verði kannski örlítið betri vegna veru minnar hér, þ.e. ef ég vanda mig vel.innocent

Geri mér samt á sama tíma vel grein fyrir því að ég er bara manneskja sem á eftir að gera helling af misgáfuðum vitleysum. Næ reyndar líklega aldrei að verða fullkomin þrátt fyrir mikinn og einbeittan vilja til þess.

Ég geri mér grein fyrir því að það mikilvægasta í lífinu er að við séum samstíga sem mannkyn á ferðalaginu. Geri mér líka grein fyrir því að við ættum að vinna saman í heilbrigði, kærleika, virðingu, umburðalyndi og góðum samskiptum. Og að við ættum að gera okkar besta hverju sinni svo að enginn skaðist af veru okkar hér.

Og við þurfum að skilja að það sem við gerum okkar minnsta bróður erum við að gera okkur sjálfum.

Erfið ganga, en þó svo létt ef við bara beitum visku okkar inn í aðstæður.

En það er nú þannig með viskuna að hún kemur í allt of fáum tilfellum af miklum krafti fyrr en eftir fertugt, því að viskan er ekkert annað en samansafn af lexíum þeim sem við getum einungis fengið í gegnum reynslu og hita lífsins (kolamolinn verður ekki að demanti nema vegna mikils þrýstings í langan tíma).

Og ég neita að trúa því að atvinnurekendur Íslands séu á sama stað og nágrannar okkar í Bretlandi hvað varðar ráðningu, eða ekki ráðningu á þessu flotta viskumikla fólki. Er alveg viss um að þeir gera sér grein fyrir því að við sem erum komin yfir hálfa öld í aldri, erum yfirleitt viskumiklir topp starfskraftar sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Og í raun ef eitthvað er, bara eins og gott rauðvín...verðum bara betri með hverju reynsluárinu sem líður.

Usss...45 hvað...Lífið er rétt að byrja hér!

Ég ætla bara rétt að vona að ég sé rétt að byrja starfsferilinn minn amk og verði ekki fyrir aldurseinelti því sem viðgengst í Bretlandi!

Stefni bara áfram á að verða komin á toppinn með alla mína starfstengdu drauma uppfyllta þegar eftirlaunaaldurinn skellur á. (eftir svona ca 20 ár) smile

Þannig að ef þú atvinnurekandi góður vilt fá góðan starskraft, sendu mér þá bara línu. Ég skoða vel öll tilboð sem gætu gefið lífi mínu gleði, spennu og nýja skemmtilega hluti til að kljást við, og get bent þér á nokkra hæfileikaríka starfskrafta á mínum aldri sem að þú yrðir ekki svikinn af að fá til liðs við þitt fyrirtæki wink 

    

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda 

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira