c

Pistlar:

29. mars 2015 kl. 12:49

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Sunnudagspæling

IMG_0067Ég sit hér uppi í rúmi og við hlið mér er eitt af mínum yndum, Teddinn minn.

Eitt af þremur barnabörnum sem Guð gaf mér og ég elska hvert og eitt þeirra af öllu hjarta mínu. Kraftaverk eru þau hvert og eitt. Dýrmæt og einstök.

En þar sem ömmustrákurinn minn liggur við hlið mér verður mér hugsað til þess hversu breyttir tímarnir eru í dag. Fjölskylduböndin eru á undanhaldi og lítill tími er til að sinna því sem kannski skiptir mestu máli þegar allt kemur til alls. Ég finn hvernig tárin ætla að brjótast fram þegar ég hugsa um hverju við erum að missa af.

Ömmur og afar dagsins í dag eru oft svo hrikalega upptekin við vinnu, félagslíf og fleira,(þar er ég engin undantekning)  að lítill afgangstími er fyrir fjölskylduna. Börnin oftast farin að heiman, vinahópurinn mikilvægur hjá þeim sem engan maka eiga amk, og helmingi erfiðara er að sjá sér fyrir nauðþurftum en oft áður.

Fjölskylduböndin hafa víða veikst. Minna er um gæðastundir.

Ekki eru foreldrarnir í betri málum en ömmur og afar þessa lands hvað þetta varðar. Þeir eru á fullu alla daga, koma dauðþreyttir hein eftir vinnu og eða nám. Lítill tími til heimsókna, kaffiboða, matarboða, spilakvölda og svo fr. 

Afleiðingin af þessum önnum öllum er sú að það er oftast sest fyrir framan sjónvarpið, tölvuna og eða símana þegar heim er komið. Dottið inn í heim óraunveruleikans, doðans.

En það er svo ótal margt sem við glötum þegar við gleymum að sinna hvert öðru, og það getum við ekki fengið til baka. Þetta lífsmunstur mun ekki veita okkar hamingju þegar til lengri tíma er litið. Miklu frekar að við fyllumst sorg yfir glötuðu tækifærunum til að búa til fallegar og góðar minningar.

Í dag eru mjög margir einmanna, afskiptir og jafnvel svo afskiptir að það uppgötvast ekki fyrr en eftir einhvern tíma ef þeir deyja Drottni sínum.

Sorglegt...

En getum við breytt þessu? Já, að mínu mati er það auðvelt ef við bara viljum hafa það auðvelt. Finnum gömlu göturnar, hendum ekki því gamla og góða fyrir það sem minna máli skiptir.

Í stað þess að kveikja á sjónvarpinu og eða tölvunni þegar við komum heim, tölum þá saman. Spilum, föndrum, eldum saman, hringjum í ættingja okkar eða vini.

Sýnum þeim sem okkur þykir vænt um athygli og umhyggju. Lærum að þekkja hvert annað.

Eigum gæðastundir sem gefa lífinu gleði, samskipti sem sýna að okkur þyki vænt um hvert annað. Og síðast en ekki síst, hlustum á væntingar, vonir og drauma þeirra sem í kærleikshring okkar eru.

Elskum, önnumst, hlustum.

Eigið góðan og fallegan sunnudag í faðmi þeirra sem ykkur þykir vænt um elskurnar.

Þar til næst.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira