c

Pistlar:

2. apríl 2015 kl. 14:40

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Að hafa vitni að lífi sínu.

11118444_10205704953435632_2020475193_nÍ gær fékk ég þær fréttir að æskuvinkona mín sem er mér afar hjartkær hefði greinst með æxli í nýra. Hún fer undir hnífinn á næstu dögum þar sem nýrað verður fjarlægt.

Mér brá hrikalega,fann bara fyrir doða fyrst, en svo helltist sorgartilfinningin yfir mig og tárin læddust niður kinnarnar.

Lífið minnir okkur svo ótal oft á það hversu hverfult og skammvinnt það er, og þetta var vissulega ein af þeim aðvörunum. 

Ég vona svo sannarlega að Guð verði góður og gefi þessari elskuðu vinkonu minni fullan bata á sínu meini. Að hún geti lifað hamingjusöm til hundrað ára aldurs, og ætla ég svo sannarlega að biðja Hann um bænheyrslu þar. Hún er mér svo dýrmæt þessi vinkona og í raun get ég ekki hugsað lífið án þess að vita af henni í kringum mig.

En þessar fréttir fengu mig til að hugsa um hversu mikils virði það er að hafa vini og ættingja í kringum sig sem eru vitni að lífi manns. 

Ég og vinkona mín höfum gengið í gegnum lífið saman. Kynntumst þegar við vorum að byrja í skóla, og höfum verið góðar vinkonur síðan.

Brölluðum margt saman þegar við vorum yngri, og eigum óteljandi margar minningar frá misgáfuðum stundum. Vorum í skóla saman, unnum saman í fiskinum öll unglingsárin, hörkuduglegar báðar tvær. Fermdumst saman, hlógum þessi lifandis ósköp í þeirri athöfn og urðum foreldrum okkar líklega til skammar. Fórum saman í útilegurnar í Atlavík, Reykjavíkurferðirnar og vorum saman öllum stundum. Rifumst og töluðumst ekki við í einhverja daga, en alltaf fundum við lausn á þeim málum. Ekki hefur þetta breyst eftir að við fullorðnuðumst, eigum ennþá fallega vináttu sem ekkert fær haggað.

Ég var viðstödd tvær fæðingar hjá henni, var skírnarvottur barna hennar, og fylgdi því miður öðru þessara barna hennar til grafar með henni. Við höfum grátið saman, hlegið saman, setið saman heilu kvöldstundirnar án þess að segja orð, nærveran okkur nægjanleg. Hún veit mín leyndarmál og ég hennar, hún veit oft hvernig mér líður án þess að ég þurfi að segja orð, og ég veit líka ef eitthvað er ekki eins og það á að vera hjá henni. Hún veit hvað mér þykir gott að borða góðan mat og dekrar mig oft þar. Hún veit líka að vöðvabólgan er oft að drepa mig, og hún nuddar háls minn og herðar og þekkir öll mín aumustu svæði án þess að ég þurfi að segja henni hvar þau eru.  

Hún hefur verið vitni að mínu lífi og ég að hennar. Vinátta sem mun aldrei slitna og við erum til staðar fyrir hvor aðra í gleði og sorg.

Sorgin sem ég fann fyrir er einmitt vegna þess að það er svo sárt að vera minntur á að þeir sem við höfum haft sem vitni að lífum okkar og við höfum elskað verða kannski ekki alltaf til staðar til að vitna það. Dauðleiki okkar sjálfra verður einnig svo raunverulegur á þessum stundum. 

Einmannaleiki okkar tíma stafar því miður allt of oft af því að við höfum fáa eða engan til að verða vitni að lífi okkar. Við erum fráskilin og jafnvel margfráskilin, börnin þurfa að skipta sér á milli foreldra, og minna verður um gæðastundir þar. Jafnvel á mínum virðulega aldri eru barnabörnin einnig lítið í kringum okkur vegna skilnaða foreldra þeirra, eða tímaleysis og anna nútímans. 

Þannig að vitnin að lífi okkar eru fá, speglunin lítil sem engin hjá mörgum. Ég held að það sé það sem gerir lífið vonlausara og gleðisnauðara hjá svo allt of mörgum í dag. 

Það væri yndislegt að sjá breytingu á þessu, að við færum að gefa okkur tíma til að verða vitni að stórum sem litlum stundum í lífum hvers annars. Að gleðjast saman, gráta saman, vera saman og vefja þannig kaðal minninga sem verður svo dýrmætur að ekkert fær hann rofið, ekki einu sinni dauðleikinn sjálfur.

Ég þakka þessari vinkonu minni og öllum þeim öðrum sem ég hef haft sem vitni að lífi mínu fyrir að vefja kaðal minninga með mér, það er dýrmætara en allt annað. Kærleikur ykkar er það sem gefur lífi mínu gildi sitt.

Njótið samverustunda við þá sem þið elskið elskurnar og vefjið sterkan kaðal á meðan dagur er.

Þar til næst elskurnar,

Ykkar Linda 

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira