c

Pistlar:

4. maí 2015 kl. 14:25

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Sköpum okkur líf í gleði og hamingju

hamingjanÉg sá myndband á youtube um daginn sem fjallaði um hamingjuna.

Þar var sagt að hamingjan fælist í hundruðum augnablika sem við þyrftum að njóta og mynda þannig heildarmynd góðs lífs. Það tel ég vera afar mikilvægt, því að lífinu er bara lifað með einni stund í einu, og það er eina stundin sem við eigum. Hvað morgundagurinn ber í skauti sér er einfaldlega ekki vitað, né heldur hvort við eigum hann yfir höfuð.

Þessi lífsmynd sem við byggjum smá saman upp, samanstendur af árangrinum sem við höfum náð í lífinu, samskiptum okkar við aðra, og allri lífsreynslunni sem við berum í bakpokanum okkar.

Það sem mér þótti hinsvegar áhugavert í myndbandinu var nálgunin sem þar var sett fram. Þar var sagt að hamingjan fælist helst í því að lifa góðu, fallegu og innihaldsríku lífi þar sem þrír þættir skipa öndvegið.

Þeir þættir eru, sköpun, samskipti og samhygð.

Mikið er ég sammála þessu, því að þessir þættir ef þeir eru í jafnvægi, gefa okkur virði okkar og gleði.

Sköpunin kemur okkur í blússandi flæði þar sem við gleymum yfirleitt stund og stað, og við dveljum í gleði ímyndarheims okkar. Að búa til gleðistundir með sjálfum sér og öðrum er ómetanlegt, og skilur eftir sig dýrmætar sætar minningar, hlátur og gleði (taktu myndir)

Samskiptin eða sambönd þau sem við eigum við maka, börn, vini og samstarfsfélaga veita okkur fullnægju og næringu ef þau eru góð, en óhamingju ef þau eru slæm.

Eins ef við eigum ekki góð og heilbrigð samskipti við aðra erum við einmanna og ófullnægð, og okkur finnst lífið þá afar snautlegt og lítils virði oft á tíðum.

Svo erum við líka 30 sinnum líklegri til að hlæja í félagsskap með öðrum en ein, og hláturinn lengir víst lífið :) 

Síðast en ekki síst býr hamingjan helst í hjarta sem er fullt af hlýju og umhyggju fyrir sjálfum sér og öðrum, og merkilegt nokk, koma bestu stundir lífsins frá þeirri athöfn að gefa af sér. Og það er svo sannarlega margt sem við getum gefið af okkur. Peninga, tíma, hlustun, umhyggju, kærleika og uppbyggingu svo eitthvað sé nefnt.

En það dýrmætasta sem við getum þó gefið öðrum að mínu mati er að gefa þeim tækifæri á því að uppgötva og finna virði sitt og sérstöðu hér í heimi.

Bjútíið við það að gefa af sér með þessum hætti er að við fáum það svo margfalt til baka í boðefnaflæði sem býr til hamingju, gleði og hækkar sjálfsmat okkar um mörg prósent. Vel þess virði ekki satt? :)

En helsti óvinurinn sem heldur okkur frá þessu öllu er óttinn...

Óttinn við höfnun,óttinn við skort, og óttinn við tap af einhverju tagi. En tökum skrefin inn í óttann okkar, það er mikils virði og er í raun það sem byggir helst upp góða sjálfsmynd. Svo látum óttann ekki halda okkur frá því besta sem lífið hefur að bjóða.

Verum bara góð hvert við annað, og finnum hvernig hamingjan fer af stað og streymir um æðar okkar. Byggjum hvert annað upp með fallegum orðum og gjörðum, því að við erum svo nauðsynleg hvert öðru, en gleymum því gjarnan í streitusamfélagi nútímans...

Ást og friður

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira