c

Pistlar:

7. júní 2023 kl. 14:17

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Er ég elskandi eða meðvirkur í samskiptum mínum?

Það er mikið talað um meðvirkni í dag og svo sannarlega á sú umræða rétt á sér þar sem við erum afar meðvirk þjóð að mínu mati, en öllu má nú ofgera þó.

Hvar erum við stödd þegar allt sem við gerum fyrir aðra er kallað meðvirkni, þar sem kærleikur og umhugsun varðandi fólkið sem er í kringum okkur er á undanhaldi vegna þess að ég á bara að hugsa um mig og vera ekki meðvirk? Að allt sem skiptir máli er ég og aftur ég? 

Er ég þá ekki komin á stað þess sem hefur ekkert að gefa en þigg endalaust?

Ég held að við ættum aðeins að staldra við á þessum tímum og skoða hvort við séum á réttri leið. Hamingja flestra felst nefnilega ekki í því að vera einir og öllum óháðir nema að litlu leiti, en flestum er hinsvegar nauðsynlegt að vera í hópi fólks þar sem þeir fá að tilheyra, eru samþykktir og elskaðir. Við þurfum á því að halda að finna að það sé ekki öllum sama um örlög okkar og afdrif, og við þurfum að finna réttu leiðina eða réttu mörkin á milli kærleika og meðvirkni.

Í heimi tækninnar og allsnægtanna gleymist að við erum verur sem voru skapaðar til samfélags við hver aðra, að elska, að læra að taka tillit til, að styðja við og eiga góð samskipti við þá sem í kringum okkur eru. En aðal meinsemd dagsins í dag er tilgangsleysi og einmannakennd að mínu mati.

Í dag er allt of margt af því sem við gefum af okkur kallað meðvirkni í stað þess að horfa á þá staðreynd að við þurfum líka að virka með fólkinu í kringum okkur. Meðvirkni er mjög misskilið hugtak eins og það er skilið af mörgum í dag og tekur út allt sem heitir kærleikur til annarra. 

Stundum er í lagi að við finnum til eða finnum fyrir erfiði vegna ákvarðana sem við tökum. Það gæti verið að hjarta okkar væri að segja okkur að við þyrftum að skoða málin frá fleiri sjónarhornum, að við þyrftum kannski ekki alltaf að vera í fyrsta sæti og að okkur langi til að gefa af okkur eða gera öðrum greiða og það er bara fallegt.

En ekki heyra það sem ég er ekki að segja. Ég er ekki að segja að við þurfum ekki að taka á meðvirkni ef hún er til staðar, gleymum bara ekki hinum fallega hluta mannlegrar tilveru í leiðinni sem heitir kærleikur.

Stundum er það þannig að við erum komin út á hinn endann, eða í eigingirni og sjálfselsku eða að við gerum einfaldlega ekkert fyrir aðra, en eigingirnin veldur þeim sem haldnir eru henni mestum kvölunum því þeir missa af nánd og þeirri gleði sem felst í því að gefa af sér. 

En hvernig veit ég þegar ég er komin út í meðvirknina í stað góðseminnar?

Meðvirkir eiga erfitt með að segja hvernig þeim líður og þeir gera lítið úr, breyta eða neita fyrir það hvernig þeim raunverulega líður (þegar þeim líður illa)í stað þess að tala opinskátt um málin og segja líðan sína umbúðalaust.

Þeir halda að þeir geti hugsað um sig í öllum aðstæðum án aðstoðar frá öðrum og biðja sjaldan um aðstoð.  Eins taka þeir málefni annarra oft í sínar eigin hendur án þess að hugsa sig um og taka þar með ábyrgð af öðrum og ræna þá í leiðinni þroska og sjálfsbjargarviðleitninni sem allir þurfa að fá að kynnast í fari sínu. 

Þeir meðvirku Sýna reiði sína eða pirring á passívan hátt og óbeinan í stað þess að ræða málin af hreinskilni þegar þau koma upp.

Meðvirkir svitna oft þegar þeir eiga að taka ákvarðanir einir og óstuddir og þeim finnst stundum allt það sem þeir segja hugsa og gera ekki nægjanlega gott.

Þeir eiga erfitt með að taka hrósi og fara hjá sér við allt sem heitir viðurkenning og gera jafnvel lítið úr afrekum sínum rjóðir í vanga.Að hrósa sjálfum sér er hroki í þeirra gildismati.

Þeir meta skoðanir annarra og tilfinningar nú eða hegðun ofar sínu eigin gildismati og þeim finnst innst inni að þeir eigi ekkert endilega eiga skilið að vera elskaðir eða að fá að tilheyra, og því gera þeir ýmislegt til að halda áliti þínu á sér ósnertu eins og með því t.d það að beita lygi eða fela sig til að mynd þín af þeim brotni ekki svo auðveldlega.

Stundum leita þeir til annarra til að láta þá sjá sér fyrir örygginu sem þeir finna ekki að þeir geti búið sér til einir og óstuddir og festast í óheilbrigðum samskiptum af ýmsu tagi vegna þess.

En aðaleinkennið á meðvirkum einstaklingum er þó alltaf það að þeir eiga í erfiðleikum með að setja "HEILBRIGÐ MÖRK" og setja upp "RÉTTA FORGANGSRÖÐUN".

Fylgimynstur meðvirkninnar eru nokkuð mörg en það sem hættulegast er af þeim öllum er að meðvirkir einstaklingar eru allt of trygglyndir og hanga þar af leiðandi allt of lengi inni í óheilbrigðum aðstæðum sem skaða þá.

Þeir gera einnig málamiðlanir hvað varðar sín eigin gildi eingöngu til að þóknast öðrum og til að forðast reiði eða vanþóknun. Þeir eru hræddir við að segja frá sínum skoðunum, trú og tilfinningum ef þær stangast á við annarra því að það er að rugga bátnum.

Þeir sætta sig við kynferðislegan áhuga þegar þeir eru í raun að leita að ást í sumum tilfellum og gera sér kannski ekki grein fyrir því að svo sé.

Stjórnunarmeðvirkir trúa því í alvöru að aðrir séu ófærir um að bera ábyrgð á sjálfum sér og þeir reyna að sannfæra aðra um að þeir eigi að hugsa, gera eða líða á einhvern hátt (þeirra hátt). Þeir gefa ráð og lausnir í tíma og ótíma og verða síðan pirraðir þegar aðrir neita að taka við þessum ráðum og lausnum.

Meðvirkir ávinna sér ákveðin skapgerðareinkenni eins t.d að láta eins og ekkert skipti máli eða koma sér upp hjálparleysi, setja sig yfir og eða beita reiði til að stjórna útkomum í ýmsum málefnum.

Þeir dæma hart það sem aðrir hugsa, segja eða gera og enginn talar meira um bresti annarra því að með því móti þurfa þeir ekki að horfa inn á við.

Þeir forðast tilfinningalega, líkamlega og kynferðislega nánd til að halda fjarlægð og þeir leyfa fíknum, skuldbindingafóbíu og fleiru að fjarlægja sig frá nánd í samböndum.

Þeir rugga alls ekki bátnum og þeir bæla niður tilfinningar sínar til að forðast berskjöldun og þeir trúa því í alvöru að með því að sýna tilfinningar sínar séu þeir að sýna veikleika sinn.

Flest af þessu þekkjum við að einhverju marki í fari okkar (vonandi þó að litlu leiti) en það er þegar hjarta okkar segir stopp hið innra sem við ættum að taka upp tékklista meðvirkninnar áður en að vandræðin og ruglið sem meðvirknin veldur tekur sér bólfestu hjá okkur. Það yrði öllum sem að okkar lífi koma til skaða ef hún kemst til valda.

En kærleikurinn er mestur alls og án samhygðar, samkenndar, fórnandi kærleika (svo lengi sem hann meiðir ekki) og gleði þess sem gefur af sér væri lífið lítils virð, en það er bara að finna þessa hárfínu línu á milli kærleikans og meðvirkninnar sem stundum er bara nokkuð erfitt satt að segja, en er þó nauðsynlegt að finna fyrir heill og heilbrigði samskipta okkar við annað fólk.

Svo að lokum segi ég ykkur elskurnar, "elskum okkur sjálf og aðra í leiðinni án meðvirkni og með mörkum fyrir hjarta okkar og líðan".Og ef þú vilt taksast á við meðvirkni í þínu fari er ég bara einni tímapöntun í burtu frá þér.

Þar til næst

Xoxo

ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira