c

Pistlar:

30. október 2015 kl. 22:22

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Sálin öskrar af einmannaleika

ópiðBörn, fullorðnir og gamalmenni nútímans eru einmanna, eða a.m.k allt of margir. 

Við eigum allt til alls og skortir í raun ekki neitt nema nánd, kærleika og fullvissu þess að einhverjum þyki vænt um okkur. Og í þeim sporum eru allt of margir, og þá meina ég allt of margir!

Við heyrum jafnvel fréttir af fólki sem finnst látið eftir langan tíma vegna þess að enginn fór til að athuga með það, sorglegt að svona skuli gerast...

Í dag eru fjölskyldur margar hverjar sundraðar með tilheyrandi vandræðum og skorti á félagsskap og nánd. Mömmur og pabbar, afar og ömmur eru jafnvel í tugatali í kringum börnin okkar og barnabörn.

Við erum fráskilin, misskilin, vinnum eins og skepnur til að sleppa við og horfast ekki í augu við að okkur skortir þessa nánd sem nútíminn neitar allt of mörgum um. Við aukum svo á streituna með öllum tiltækum ráðum, og förum jafnvel í nám samhliða 150% vinnu og barnauppeldi. Þjóðfélagið krefur okkur um eilífðar fræðslu um allt og ekkert. En þó krefur það okkur ekki um fræðsluna sem við þurfum helst á að halda. Menntun í hugsunum, kærleika, virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum. Eins þyrfti líklega að kenna okkur að taka lífinu með ró, "vera í núinu" eins og það er kallað, og eiga samræður hvert við annað á kvöldin og um helgar.

Við erum mörg úttauguð og stressuð fyrir allan peninginn, og kunnum varla lengur á lífið að mínu mati. Sjónvarpsfjölskyldan hefur tekið við af þeirri raunverulegu samanber Kardashian fjölskylduna sem talað er um í kringum mig eins og þetta fólk væri inni á gafli hjá minni fjölskyldu. En ég hefði nú meiri áhuga á því að þekkja mitt raunverulega fólk betur og sinna því betur. Það krefst tíma, tíma sem hvorki ég né fólkið mitt að undanskilinni aldraðri móður minni hefur. Og ég verð að segja...mér finnst þetta ekki smart, hvort sem ég er að tala um sjálfa mig eða alla hina. 

Börnin okkar líða fyrir skort á samskiptum við okkur, á því er enginn vafi. Við höfum að meðaltali líklega um 4-5 tíma á dag með þeim, og megnið af þeim tíma fer í það að láta þau læra, fara í búðir og elda mat. Ekki margar gæðastundir þar. Foreldrar okkar fá okkur sjaldan í heimsókn þótt aldraðir og einmanna séu, og við gefum okkur varla tíma til þess að hitta bestu vini okkar nema endrum og sinnum og þá yfirleitt yfir matardiskum á veitingastöðum. (Við þurfum jú víst að borða)

Við keppumst alla daga við að afla okkur meira af mammons gæðum, merkjavöru, stórum húsum, glæsikerrum og innbúi sem slær innbú nágrannana gjörsamlega út.

En keppumst ekki eftir raunverulegum gæðum lífsins.

Helstu áhyggjur okkar eru líklega af því að einhver finni nú út að MK  veskið okkar sé fake (Fyrir þá sem ekki eru að kveikja, erum við að tala um Michael Kors, hver sem hann nú er!).Og svo þurfum við að ná árangri á öllum sviðum, sérstaklega úti í hinum harða heimi viðskipta og fyrirtækjareksturs. Það telst ekki árangur að vera heima og hugsa um börnin sín og koma þeim til manns lengur, núna þarf mamman að vera forstjóri stórfyrirtækist til að teljast marktækur þjóðfélagsþegn og fólk sýpur hveljur yfir því að lengja eigi fæðingarorlof.

Og hvað græðum við svo á öllum þessum herlegheitum?

Jú afleiðingarnar eru oftar en ekki streituvaldandi sjúkdómar eins og hjartaáföll, blóðtappar, hár blóðþrýstingur, lélegt ónæmiskerfi, magasár, kvíði, þunglyndi og fleira og fleira. Og við erum mörg skelfilega einmanna og ófullnægð í sálinni okkar. 

En hvar fáum við svo útrás fyrir félagsþörf okkar?  jú, á netmiðlum.

Netmiðlarnir loga vegna einmannaleika okkar. Þú finnur næstum því lyktina af honum á facebook, einkamálum, tinder og öðrum samskiptasíðum. Þar reyna hinir einmanna, yfirgefnu og fráskildu að finna sér félagsskap með mis miklum árangri. Tölvuleikir hafa hertekið börnin okkar vegna þess að þau nenna ekki að reyna að ná sambandi við önnum kafna foreldra í lífsgæðakapphlaupi. Símarnir eru samskiptamáti fjölskyldunnar og allir hanga endalaust þar. (ég er engin undantekning þar) Svo skilur enginn neitt í neinu, afhverju við erum með óþekk og ofgreind börn allt um kring, nú eða kvíðin, þunglynd börn sem sjá ekki tilgang lífsins.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er harðorð hér en tel mig vera komna á nægjanlega virðulegan aldur til að segja bara það sem mér finnst,  og þetta er það sem ég sé þegar ég lít á þjóðfélagið í heild sinni og ég fyllist sorg. 

Skoðum endilega öll hvar við getum tekið til í kringum okkur, hvar við getum sinnt öðrum meira, hvar gildin okkar liggja, hver þarfnast kærleika okkar og nándar, hvernig við getum átt betri og aukin samskipti við fólkið okkar, hvar við þurfum að byggja aðra upp með hvatningu og með því að taka þátt í lífum þeirra, að hafa áhuga á því sem þeir eru að gera.

Ég hugsa að til lengdar yrðum við öll hamingjusamari og glaðari ef við gæfum af okkur meiri nánd og kærleika, og gætum þá kannski séð að við þurfum ekki alla þessa fermetra, parket,merkjavöru og neyslu af öllu tagi. Vegna þess að við ættum annað sem er svo miklu dýrmætara að eiga...Hjarta sem væri fullt af kærleika, gleði, samveru og nánd...

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira