c

Pistlar:

29. desember 2015 kl. 22:40

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Áramótatiltekt

fólkUm áramót erum við dugleg að heita því að lifa nú aðeins betra lífi en á árinu sem er að líða, við ætlum í ræktina, létta okkur, vinna minna, borða rétt, sinna allt og öllu miklu betur en áður og markmiðalistinn verður oft langur.

Allt gott og blessað og vonandi náum við sem flest öllum þeim fyrirætlunum sem árið 2016 á að færa okkur. 

En ef svo á að verða eru nokkur atriði sem við þurfum að huga að.

Það er ekki nóg að vera með fögur fyrirheit en ætla samt að gera hlutina á nákvæmlega sama hátt og áður. Við þurfum að taka til og það í öllum skúmaskotum. Þurfum jafnvel að losa okkur við ýmsa hluti sem okkur þykir í raun óhugsandi að þurfa að gera.

En því miður er það oft þannig að við eigum í erfiðleikum með það að losa okkur við það gamla, breyta hugsunum okkar, viðhorfum og framkvæma með nýjum hætti. Erfitt en þarf þó oft að gerast ef við ætlum að standa með uppfyllt áramótaheit að ári liðnu.

Svo ég spyr þig, hvað í þínu lífi þarf að fara til að þú náir á þann stað sem þú vilt vera á að ári?

Er það gamli makinn sem þú átt erfitt með að sleppa tökum á? Vinir sem þurfa að hverfa? Starf sem þarf að yfirgefa? Einhver fíkn sem þarf að vinna á? Hugsanamynstur sem þarf að breyta? Meðvirkni? Ótti? Samskipti? "Ég get ekki" tilfinningin? "Mér tekst aldrei neitt" tilfinningin? "Allir eru betri en ég í þessu" tilfinningin og svo framvegis...

Hvað svo sem það er þá hvet ég þig til að taka til í öllum skúmaskotum, leita þér aðstoðar ef þú þarft (það er ekkert að því að kunna og vita ekki allt sjálfur), gerðu bara það sem þú þarft að gera af því að það er svo miklu skemmtilegra að standa með yfir-rissaðan markmiðalistann að ári, uppbústað egó og finnast að heimurinn hafi bara verið skapaður fyrir mann sjálfan og engan annan...

Gleðilegt glimmerár fullt af kærleika, gleði og náðum markmiðum elskurnar og takk fyrir árið sem er að líða. En farið nú rosalega varlega með flugeldana á gamlárskvöld..

Xoxo

Ykkar Linda

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira