c

Pistlar:

11. ágúst 2016 kl. 12:51

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Ég er eins og ég er!

marglit rósÍ tilefni af nýafstaðinni Gaypride hátíð þar sem fjölbreytileika mannlífsins og einstaklingsfrelsinu var fagnað og vegna hugsana sem kviknuðu hjá mér í gönguferðunum mínum í sumar þá ákvað ég að skrifa pistil um hversu mikilvægt það er að við séum bara það sem við erum og einfaldlega ekkert annað. "Hvað verður um mig ef það sem ég er er bölvað og bannað" eins og Palli okkar syngur um í laginu hér fyrir neðan.

Er það okkar svona yfir höfuð að setja merkimiða og leggja bölvanir (fyrirlitningu, dóma) á einstaklinga sem eru ekki eins og við teljum að þeir ættu að vera?

Við erum mörg okkar megnið af lífinu að leita eftir samþykki á persónu okkar og tilvist frá öðrum í kringum okkur og ef að við fáum það ekki hefur það í för með sér andlega vanlíðan fyrir mörg okkar, (been there, done that) Og hvernig líður einstaklingum sem eru ekki samþykktir eins og þeir eru?

Við þekkjum öll sögur af sjálfsvígstilraunum þeirra sem lenda í einelti og eru ekki samþykktir eins og þeir eru. Er það eitthvað sem við sem samfélag viljum sjá og hafa?

Mörg okkar miðum framkvæmdir okkar við álit og samþykki annarra og stígum þar af leiðandi sjaldan út fyrir samþykkta ramma samfélagsins og almenningsálitsins og erum lengur að verða það sem við raunverulega erum eða vorum sköpuð til að vera.

Í nokkrum af mínum göngutúrum í sumar skoðaði ég blómstrandi náttúruna og gerði það með öðrum hætti en oft áður. Ég horfði á tréin blómgast, sóleyjar spretta og fíflana breiða úr sér í kringum göngustígana og ég gerði merka uppgötvun að mínu mati a.m.k. surprised

Ég tók semsagt eftir því að það eina sem allar þessar tegundir gerðu í raun var að njóta lífsins sem sumarið gaf þeim, teygja sig í átt til sólar og njóta þess að vera einfaldlega sú tegund sem hvert og eitt þeirra var. Sóleyjarnar horfðu ekki á tréið sem óx hærra í átt til sólarinnar (en þær hafa örugglega verið þakklátar fyrir skjólið sem það veitti þeim), og ég gat ekki betur séð en að tréin væru bara ánægð með að fá minni athygli en litskrúðug blómin. Öll náttúran lifði í samveru og samþykki hvers annars og ekkert þeirra reyndi að vera eitthvað annað en það sem það var og allir voru sáttir sýndist mér.

Við gætum líklega tekið náttúruna okkur til fyrirmyndar með þetta.

Verum bara það sem við erum og leyfum okkur að blómstra með öllum okkar yndislegu séreinkennum, skapgerð, útliti og hvað svo sem það er óháð því hvernig aðrir eru. Við verðum hvort sem er aldrei annað en léleg eftirlíking af þeim sem við erum að reyna að þóknast og líkjast, og hvað með það þó að einhver vilji ekki samþykkja okkur eins og við erum?

Eða kannski er betra að spyrja...skiptir það einhverju máli hvort að ég samþykki aðra eða að aðrir samþykki mig?

Ég held ekki...Þeir sem eiga að vera með okkur í lífinu taka okkur einfaldlega eins og við erum, og njóta þess að sjá okkur vaxa og blómstra en dæma ekki litatóna okkar né vöxt.

Við eigum öll okkar sögu og höfum okkar tilgang í lífinu. Hvernig við tökumst á við það gerum við öll eftir getu okkar og ástandi hverju sinni, og fáum líklega öll einkunn fyrir frammistöðuna á efsta degi, og því sé ég ekki tilgang fyrir mig a.m.k að vera að hafa áhyggjur af því hvort að merkimiðarnir þínir séu nógu góðir fyrir mig, og ég hef ekki áhyggjur af því hvort að mínir merkimiðar séu nógu góðir fyrir þig.

Á meðan að ég og þú sköðum ekki aðra með framkomu okkar og gjörðum heldur lifum í sátt við Guð og menn, þá ætla ég a.m.k.(og ég vona að þú gerir það líka sem þetta lest)að hafa það eins og gróðurinn í Gufunesinu mínu, einungis umfaðma það líf sem mér var gefið, vera ánægð með að vera ég nákvæmlega eins og ég er með öllu tilheyrandi, og segi eins og Palli, "hvernig á ég að vera eitthvað annað" en það sem ég er, eða þú eitthvað annað en það sem þú ert?

Látum ekki merkimiða og skoðanir fólks úti í bæ ákvarða hvort að við séum nógu góð og leitum ekki eftir samþykki þeirra sem hvort sem er eru ekkert meðetta frekar en við hin wink 

Sýnum þess í stað hvort öðru kærleika, virðingu, skilning og samhygð. 

Þar til næst elskurnar,

Xoxo

ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira