c

Pistlar:

20. september 2016 kl. 0:06

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Happily ever after

Happily_ever_after_by_jucylucyinspiredÉg rakst á gamlan pistil sem ég skrifaði og fannst alveg tilvalið að birta hann hér en í smá breyttri útgáfu. Held að það sé gott að svona pistlar birtist aftur og aftur því að það eru einfaldlega svo margir sem standa með hjónaböndin sín eða sambönd á einhverjum krossgötum og vita í raun ekki hvaða lausnir eru til að bæta og laga það sem ekki er svo gott í sambandinu.

Í þessum pistli mínum var ég semsagt að velta því fyrir mér hvaða leyniuppskrift þurfi til að parasambönd nái að ganga vel ár eftir ár eða jafnvel áratug eftir áratug og ég held að ég sé búin að fatta það…

En hvað er einhleyp 55 ára kona sem á tvenn sambönd að baki að fara að segja hinum hvernig á að láta sambönd ganga vel…

Réttmætt vantraust…

En kannski get ég það einfaldlega vegna þess að ég er búin að læra af reynslunni og veit hvað það er sem gerir sambönd vonlaus og þar af leiðandi hlýtur þá andstæðan við það sem gerir þau vonlaus að vera leyniuppskriftin.

Til dæmis ef að við breytum frá,

Framhjáhaldi og lygum yfir í Trúnað og sannleika…

Þetta er grunnefnið sem við þurfum að hafa í miklu magni inní sambandinu því að það er bara algjört möst í uppskriftinni að happily ever after. Alveg bannað að daðra á netinu og skrá sig á Tinder. Ef þú treystir þér ekki til að vera trú og finnst þú þurfa að fara á bak við maka þinn, þá eru stoðir sambandsins brostnar og hvorugum aðilanum gerður greiði með því að vera inni í slíkum samböndum… Við höfum ekki leyfi til að taka einhver ár af lífi annarrar manneskju og láta hana lifa í blekkingu. Svo ef þetta er grunnurinn þá farðu bara út úr sambandinu.

Vantrausti yfir í Traust

Ef vantraust er mikið og afbrýðisemi án ástæðu er mikil, þá er ekkert sem eyðileggur eins mikið gleðina sem ætti að vera til staðar í sambandi karls og konu. Sum okkar koma brennd úr fyrri samböndum og jafnvel uppeldi, og treystum öðrum ekki svo vel fyrir okkur. En treystum bara þar til annað kemur í ljós og leyfum ekki okkar öryggisleysi að rústa annars góðu sambandi. Svo pössum okkur á vantraustinu. Það þarf mikið af trausti til að halda uppskriftinni okkar í lagi.

Óvináttu yfir í Vináttu

Þriðja grunnefnið sem við ættum að hafa í miklu magni er vináttan. Ef stríðsástand er viðvarandi og rifrildi og pirringur hluti af daglegu samskiptamynstri, þá er hætt við að hamingjustuðull sambandsins verði fljótur að falla og allt það sem búið var að byggja upp í sambandinu verði að engu. Í góðu sambandi er maki þinn besti vinur þinn.

Þögn yfir í Samskipti

Þegar þögn er beitt sem stjórntæki eða þar sem fólk tjáir sig ekki um það sem að er í sambandinu verður til heill heimur í hugum makanna. Heimur sem er búinn til útfrá túlkunum heilans á svipbrigðum, tóntegundum og því sem þeir “halda” að hinn aðilinn vilji eða sé að meina, sem þó er ótrúlega oft ekki það sem hann vildi eða meinti. En bestu vinir tjá sig og geta talað um allt sama hvort það er þægilegt, særandi eða gleðilegt. Samskiptin eru alltaf best þegar allt er uppi á borðum og allir vita hvað eða hvort þeir hafa sagt eða gert eitthvað sem særir eða gleður. Svo notum tjáningu og virka hlustun í uppskriftina okkar alla daga.

Stjórnsemi yfir í Frelsi

Stjórnsemi í samböndum er töluvert algeng og andlegt ofbeldi því miður oft beitt til eyðileggingar á sambandinu og ekki síður á persónuleika þess sem fyrir því verður, og ef þér sem þetta lest finnst þú sífellt þurfa að halda friðinn og finnst eins og þú sért að ganga á eggjaskurn alla daga og reyna að brjóta hana ekki, þá er líklegt að þú búir við andlega stjórnsemi og ofbeldi. En í samböndum þar sem hamingjan býr er þessu ekki beitt. Þar fær hvor aðilinn um sig að vaxa og dafna í frjálsu umhverfi þar sem ýtt er undir hæfileika hans og hann metinn að verðleikum alltaf, öllum stundum og andlegt ofbeldi eða annað ofbeldi passar aldrei inn í hamingjuuppskriftina. Aldrei!

Niðurbroti yfir í Uppbyggingu

Í samböndum þar sem niðurbroti er beitt, upplifir makinn sig sem ómögulegan og varla færan um neitt, þar er ekki mikið um hrós og hvatningu, en útásetningar algengar og ekki tekið eftir styrkleikum makans. En í samböndum þar sem uppbygging á sér stað, þar eru hrós og viðurkenningar hluti af daglegu lífi makanna og hvatt til uppbyggingar á því sem makinn hefur áhuga á að upplifa og prófa. Þar er stuðningur vís í öllum aðstæðum lífsins í sorg og í gleði og makinn alltaf samþykktur skilyrðislaust. Gott hráefni í allar samskiptauppskriftir.

Togstreitu yfir í Samvinnu

Þar sem sem sífelld togstreita er um hlutina og ósamkomulag um flest það sem lýtur að starfshæfni heimilisins og sambandsins, þar getur hamingjan ekki þrifist svo einfalt er það. Hverjum líður vel í þannig umhverfi? En hinsvegar líður öllum vel þar sem samvinnan blómstrar og báðir aðilar ákveða í sameiningu það sem fram fer í sambandinu, gleðin við sköpunina á sameiginlegu lífi verður báðum aðilum til gleði og hamingju og styrkir stoðir sambandsins. Gott krydd í uppskriftina okkar.

Óreglu yfir í Reglu og ábyrgð

Þar sem óreglan ræður ríkjum er sambandinu hætt við skemmdum og dauða, þar verður til sorg, ofbeldi, meðvirkni, niðurbrot og öll hamingjan fýkur út um gluggann eins og hendi sé veifað. Þessi sambönd verða báðum aðilum til sorgar og ég tala ekki um ef að börn eru komin til sögunnar. þá verður sorgin og skemmdin margföld. Enginn ætti að bjóða sér uppá að vera í samböndum af þessu tagi, og ég hvet þá sem í slíkum samböndum eru til að leita sér tafarlaust hjálpar. Alanon og SÁÁ bjóða uppá aðstoð til þess og hafa hjálpað mörgum á þessum eyðandi vegi. Stígamót og Kvennaathvarf hjálpa einnig þar sem brotið er á börnum og konum með misnotkun og ofbeldi. Ekki bíða með að leita þér hjálpar ef staðan þín er þessi. Þetta er dauðadómur hamingjunnar og á hvergi heima í uppskriftinni að happily ever after. En reglusemi og ábyrgð í samböndum er það sem límir sambandið saman og gefur því heildaryfirbragð öryggisins sem við leitum öll að, og setur svona punktinn yfir I-ið… Nauðsynlegt hráefni sem lyftir sambandinu á æðra plan

En til að fullkomna góðu uppskriftina að happily ever after þá þurfum við eftirtalin krydd til að fullkomna bragðið og áferðina: Töluvert dass af ástríðum og uppátækjasömu kynlífi og óvæntum rómantískum stundum, strokur, nánd og gjafir. Falleg orð og umhyggja eru síðan kryddin sem gera sambandið að því hamingjuríka ástandi sem gefur lífi okkar tilgang og lit.

Mætti þitt samband sem þetta lest svo sannarlega flokkast undir “Happily ever after samband” en ef eitthvað er ekki eins og það ætti að vera þá er þetta ágætis gátlisti sem þú getur farið yfir og kannski fundið eins og þrjár leiðir til að bæta uppskriftina að þínu sambandi. Ég er a.m.k.staðráðin í því að mitt næsta samband skal innihalda þessa góðu uppskrift sem ég bjó til hér að framan, og úr henni mun ég baka hamingjuhnallþóruna mína og glassúrskreyta hana með þakklæti fyrir að eiga slíkt samband.

Þar til næst elskurnar,

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira