c

Pistlar:

31. janúar 2017 kl. 19:38

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Er ástin hættuleg?

14894377_10210136795428912_1985222823_oHvað þýðir það í raun að vera ástfanginn og hvað er það sem kveikir þessa tilfinningu í brjósti okkar? Og hversu hættuleg er þessi tilfinning? Vísindi dagsins í dag segja að ástin kveiki á framleiðslu ákveðinna boðefna og sagnir fortíðar segja að við verðum hálf geðveik í því boðefnaástandi, þannig að kannski er hún meinholl en á sama tíma hættuleg geðheilsunni, eða hvað?

Ég held að það sé algengt að einstaklingar sem koma úr brotnum samböndum eigi erfitt með að leyfa sér að upplifa að fullu þessa sterku ástartilfinningu, að sleppa tökum á óttanum og fara inn í sakleysið sem var til staðar þegar þeir voru yngri og óbrenndir.

Eftir skipsbrot lífsins og ástarinnar erum við mörg á varðbergi, hleypum fólki ekki svo glatt að okkur. Erum hrædd við höfnunina, traustið, skuldbindinguna, hjartasárin og berum einnig fortíð á bakinu sem okkur finnst stundum ekki gott að bera inn í ný sambönd. Við skoðum hvert annað með gleraugum vantraustsins í upphafi sambanda og reiknum alveg eins með því að ástin bregðist okkur enn á ný.

Engu að síður tökum við flest sem betur fer áhættuna aftur og aftur á því að elska þó að allt gæti farið illa. Tökum sénsinn á því að enn eitt örið gæti bæst við safnið á litla hjartanu okkar.

En með styrknum sem leynist einhverstaðar í innstu skúmaskotum sálarinnar förum við af stað, stígum inn í óttann og vonum það besta 7, 9, 13 !

Þegar stigið er inn í óttann sem skapast á viðkvæmum fyrstu stigum ástarsambanda veldur ástin oft kvíða og streitu í stað ánægju og hamingju, en það er líklega vegna þess að sjaldan eða aldrei erum við viðkvæmari en akkúrat á þessum stað. Á þessum viðkvæma stað opnum við hjarta okkar og líf upp á gátt fyrir annarri mannveru sem við vonumst svo innilega til að vefji okkur í bómull væntumþykju, virðingar og ástar. Vonum semsagt að hún annist okkur og næri, en særi okkur ekki né græti.

Sorgin sem skapast hinsvegar þegar ekkert verður úr að sambandið fái að þróast og verða fullvaxta er annar kapítuli útaf fyrir sig. Sú sorg sem við það skapast veldur því hjá mörgum að þeir loka á möguleikana á næsta ástarsambandi og sumir velja að loka á allar slíkar ástartilfinningar, skella einfaldlega í lás og brynja hjartað - lok lok og læs. 

Flest forn menningarsamfélög  eiga í fórum sínum sagnir um afleiðingar ástarinnar og í gamalli Arabískri sögu var sagt að þegar þú verður ástfanginn stelur ástmögur þinn lifrinni þinni. Kínversk börn voru einnig hrædd með þeim orðum að ástin stæli úr þeim hjartanu. Rómantísk ást var víða talin dimm og hættuleg ásamt því að hún gat auðveldlega stolið frá þér vitinu og brotið þig niður. Sá ástfangni var talinn líklegur til að fremja allskonar órökrétt athæfi í ástarvímunni og ástin átti líka að skilja eftir sig tómarúm í lífsvefnum samkvæmt einni sögninni.

Ekki hljómar þetta nú vel allt saman.

Það er nú líklega svolítið þannig að við missum vitið lítillega þegar þessi tilfinning verður á vegi okkar, og við sjáum ekki nokkurn galla á ástarviðhenginu. Erum einfaldlega hugsandi um það viðhengi öllum stundum, erum tilbúin til að vaða eld og brennistein bara til þess að eiga saman sælustundir með því, og erum aldrei viðkvæmari fyrir sárum hjartans en akkúrat þarna.

Fegurð ástarinnar er hvergi samt eins sýnileg og á þessum fyrstu metrum sambandsins og fínir þræðir viðkvæmninnar þola lítið álag. En á sama tíma er auðmýktin og fegurð ástarorkunnar allsráðandi. Við viljum allt fyrir þennan elskaða aðila gera og fagur óskilyrtur kærleikurinn sprettur þarna fram í sinni fallegustu mynd og gefur frá sér einhvern himneskan ljóma sem erfitt er að leyna.

Við verðum gjafmild á veraldlega, andlega og líkamlega þætti lífs okkar og við berum velferð hins elskaða fyrir brjósti í einu og öllu. Við gleymum okkar eigin egói um stund, en ættum þó aldrei gleyma að hafa mörkin okkar á hreinu og ganga ekki yfir þau hversu erfitt sem það getur reynst þegar við erum undir þessum galdri.

Og hvað sem öllum ótta og hraksögnum líður þá er það nú samt einu sinni þannig að við viljum elska og vera elskuð, og fátt er það sem kemur í staðinn fyrir þá fallegu tilfinningu sem breiðist um í hjarta okkar þegar við sleppum tökunum og leyfum ástinni að taka völdin.

Svo hefur hún víst margar góðar aukaverkanir sem vísindi dagsins í dag hafa sannað með stórum og miklum rannsóknum og vitað er að boðefnaframleiðsla góðra ástarboðefna er betri en flestar aðrar vímur sem við getum upplifað.

Víma þessi getur enst allt að 2 árum segja þeir, en eftir það dvínar hún og þá er hin raunverulega tenging og ást á milli aðilanna orðin nægjanlega styrk og öflug til að taka sambandið áfram á ástar og vinanótum ef allt er eins og það á að vera.

Ein besta aukaverkun ástarinnar er þó líklega sú að við lifum jafnvel lengur vegna hennar, erum einnig mun heilbrigðari ef við erum í góðum og fallegum samböndum.

Það er semsagt einnig til mikils að vinna.

Og að mínu mati er yndislegt að hafa við hlið sér vitni að lífinu, í raun alveg ómetanlegt. Að hafa aðila við hlið sér sem tekur þátt í litlum sem stórum viðburðum í lífinu með manni og gerir það einungis vegna ástar sinnar er líklega ein stærsta gjöf sem lífið getur gefið nokkrum einstaklingi og ég vona svo sannarlega  að ég eigi eftir að upplifa það aftur einn daginnembarassed 

Svo látum það bara eftir okkur að elska af öllu hjarta og allri sálu ef við erum svo heppin að ástin banki uppá hjá okkur og bjóði okkur upp í darraðardansinn sem henni fylgir.  

Öryggi lífsins og ástarinnar hefur svo sem aldrei verið til staðar og okkur hefur aldrei verið lofað dansi án feilspora, og því sé ég ekki eina einustu ástæðu fyrir því að við sleppum því að taka sénsinn á ástinni í allri sinni mynd aftur og aftur ef þess gerist þörf. 

Stígum bara varlega út á dansgólfið með sterka von í brjósti um að nú takist þetta og höfum í farteskinu fullvissu þess sem veit að ástin í sinni tærustu mynd er alltaf þess virði að taka séns á - því að ástin læknar öll sár - ef hún bregst ekki embarassed

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira