c

Pistlar:

1. desember 2016 kl. 15:17

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Orð eru álög

orð

Eins og Sigga Kling vinkona mín sagði hér um árið og segir örugglega enn - orð eru álög.

Ég hef verið að hugleiða það undanfarna daga hversu táknræn orð eru fyrir mig a.m.k og hversu mikil áhrif þau hafa haft á líf mitt til góðs og ills. Hversu sárt það er þegar ekki er að marka það sem sagt hefur verið við mig og ég í raun verið afvegaleidd bæði með niðurbrjótandi orðum sem og þeim fallegu, semsagt orð hafa skapað líf mitt bæði til góðs og ills.

Ég er líklega ein af þeim einföldu sem trúi og treysti því að fólk meini vel það sem það segir við mig og tek við orðum þeirra í trausti á velferð mína og sannleiksgildi þeirra í hjarta mínu. Hinsvegar er það æði oft sem það hefur síðan sært mig að komast að því að tilfinningaleg merking orðanna var jafnvel sú að skaða mig eða stundum var einfaldlega engin merking á bak við þau. Og ég einfeldingurinn sjálfur sem sit uppi með sært hjarta og sviknar vonir um eitt og annað í vináttu og ástum. Og kannski er það bara ég, en einhvernvegin finnast mér orð fólks innihalda minni sannleika og virðingu í dag en þau innihéldu hér áður, en kannski er ég bara búin að gleyma því gamla.

"Orð hafa mikið vægi í hugum okkar og oft er tilfinningagildi þeirra mikilvægara en eiginleg merking þeirra". (Doktor.is- Gylfi Ásmundsson sálfræðingur)

Líf okkar tekur óhjákvæmilega á sig mynd vegna orða þeirra sem við erum að umgangangast og orðin þurfa að vera uppbyggjandi og sönn svo að birtingamyndin sem búin er til úr þeim verði sönn og falleg. Það fylgir orðum semsagt mikil ábyrgð og jafnvel meiri ábyrgð en við gerum okkur oft grein fyrir. 

Það er sagt að líf og dauði séu á tungunnar valdi og svo sannarlega er það rétt. 

Orð geta byggt upp en orð geta líka deytt og skaðað líf okkar, sjálfsmynd og virðingu. Þau geta semsagt niðurlægt, brotið, byggt upp og glatt - allt eftir því hvað sagt er og hvernig það er gert.

Ég hugsa að það væru færri sár í lífinu hjá flestum ef hægt væri að treysta því að innihald sagðra orða samræmdist og hefði góðviljað innihald. Falleg orð sem enga merkingu hafa særa okkur stundum jafnvel meira en ljót orð vegna þess að flest þráum við að fallegu orðin sem við fáum að heyra innihaldi sannleika þess sem setur þau fram.

Einlægni og velferð fyrir öðrum ættu að vera í öndvegi þegar kemur að því að við tjáum okkur. Það er nefnilega ekki nóg að orðin okkar séu ljóðræn og falleg, þau þurfa að segja sannleikann! Og ekki bara það, við þurfum að passa það að leiða fólk ekki í gildru eigin þarfa og langana með því að nota fagurgala og litlar litskrúðugar lygar til að ná okkar eigin tilgangi fram.

Vegna máttar eða álaga orðanna okkar þurfum við alltaf að passa okkur þegar við tölum og einnig þurfum við að nota visku okkar og kærleika.

Mér finnst það t.d afar táknrænt að Guð sjálfur skapaði heiminn í upphafi með því að nota orð til þess, semsagt orðin voru upphaf allrar sköpunar. Held að þetta segi okkur að við sköpum meira en við höldum með þeim orðum sem við mælum.

Hvað erum við að skapa inn í líf okkar og annarra í dag með orðum okkar?

Við ættum að sýna okkur og öðrum þá virðingu að skapa fallegan vel mótaðan vef kærleiksþráða sem ekkert fær slitið.

Eins og Gunnar Hersveinn segir í grein sinni um kærleikann á síðunni lífsgildin.is þá er það þannig að "Kærleikur og viska eiga samleið en andheiti þeirra beggja er tóm, tómleiki, eyðimörk og kuldi, það sem slitið er úr samhengi og einangrað". 

Og þannig er það þegar fallegu orðin okkar eru innihaldslaus eða illa meinandi, þá skilja þau eftir sig tómleika, kulda, sár og jafnvel tilgangsleysi inn í líf þeirra sem spunnu lífsþráð sinn útfrá þeim í góðri trú á sannleiksgildi þeirra. 

Leikum okkur ekki að orðum þó falleg geti þau verið, og pössum okkur á því að þau innihaldi fallega skapandi merkingu og eða sannleikann okkar.

Notum okkar ylhýra til uppbyggingar í kærleika, sannleika og góðvild til okkar sjálfra og samferðamanna okkar.

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira