c

Pistlar:

20. desember 2016 kl. 11:25

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Það er þetta með þennan árstíma!

15608665_10210640975833107_554134899_oÁ öllum aðventum sem ég hafði upplifað eftir að ég varð laus og liðug á ný gekk ég í gegnum angurværan tilfinningaríkan rússíbana.

Þessi jólablús minn hófst alltaf þegar jólaljósin voru tendruð í miðbænum í lok nóvember. Og þegar þessi ljós kviknuðu þá dapraðist ljósið í mínu eigin hjarta og ég hugsaði  „ enn ein jólin sem ég er að skrölta þetta ein“ og ég vorkenndi mér þessi líka ósköpin öll.

Ég gerði síðan allt sem ég gat til að gleyma þessu með því að halda upp á afmælið mitt með pomp og prakt og svo tóku við allskonar skemmtanir sem ég skipulagði út alla aðventuna til að fylla upp í tómarúmið sem í hjartanu leyndist. Ekki tókst það þó að fullu þrátt fyrir yndislega vini sem allt vildu fyrir mig gera.

Aldrei fann ég eins mikið fyrir því að vera ein eins og á þessum árstíma sem áður var svo gleðilegur og yndislegur. Ég upplifði mig meyra og stóð mig oft að því að finna tárin trilla niður kinnar mínar þegar ég sá eitthvað hjartnæmt eða fallegt.  Kærleikurinn og angurværa tónlistin sem hljómaði um allan bæ hreyfðu við hverri taug hjá mér.

Allar auglýsingarnar sem sýndu hamingjusamar fjölskyldur sem sameinuðust um jólin, eða pör sem leiddust niður Laugaveginn ljósum skreyttan vöktu hjá mér söknuð eftir gömlum og góðum tímum og ég fann sem aldrei fyrr fyrir því að hafa ekki maka við hlið mér sem væri að upplifa allt þetta fallega með mér.Mér fannst ég svolítið Palli einn í heiminum.

Ég fór í hina fullkomnu nostalgíu og hugsaði til jólanna sem ég átti hér í denn þegar börnin voru lítil og allt var á fullu við að gera jólin eins falleg og góð fyrir þau eins og mér var mögulegt að gera. Allt skyldi vera hreint og fínt og allt húsið skreytt. Jólapakkarnir borðum lagðir og bökunarilminn lagði um allt hús megnið af aðventunni. Rauðkálið var soðið á Þorláksmessunni ásamt hangikjötinu og heimagerði ísinn gerður þann sama dag, allt eftir kúnstarinnar reglum. Öll herbergi skúruð skrúbbuð og bónuð út í hvert horn. Ný náttföt, nærföt og jólaföt á börnin voru líka algjört möst á hverjum jólum. Í minningu minni var líka alltaf snjókoma þegar kveikt var á jólatrénu á Austurvelli og langar biðraðir á kaffihúsinu þar sem við fengum okkur kakó og vöfflur að þeirri athöfn lokinni.

Góðar og gefandi minningar...

Núna á þessari aðventu sem er um það bil að enda var þessu ekkert öðruvísi farið en venjulega hjá mér til að byrja með og ég fann að ég ætlaði að fara að detta í minn venjulega jólablús og nostalgíu.

En þá tók ég ákvörðun!

Ég ákvað að þetta yrði frábær aðventa og notaleg jól. Ég ákvað að sætta mig við að tímarnir hefðu einfaldlega breyst og að ég væri bara ein og sjálfstæð og ákvað að njóta þessa tíma fyrir og með mér sjálfri alla leið í gleði en gleyma sorg og sút. 

Ég ákvað að vera þakklát fyrir allt það góða sem hver dagur færir mér. - Semsagt tók ákvörðun og valdi að eymdin væri bara alls ekki smart fyrir mig en núvitundin væri það hinsvegar.

Það eru margir hér á landi sem hafa það erfitt vegna ýmissa atburða og aðstæðna í lífi sínu en ég gerði mér grein fyrir því að ég væri bara svo heppin að vera ekki ein af þeim og mætti þakka pent fyrir það hversu gott ég hefði það og hversu lánsöm ég væri á svo margan hátt.

Þannig að ég sneri blaðinu við og sagði mér bara að skammast mín og fara bara að njóta alls hins góða sem lífið hefur uppá að bjóða fyrir mig og sagði sjálfri mér einnig að meta það að verðleikum sem mér hefði verið úthlutað.

Í kjölfarið ákvað ég að fara ein á tónleika í fyrsta sinn á ævinni þegar einn vinur minn bauð mér miða á þá tónleika, og naut þess bara að sitja ein innan um ókunnugt fólk. Ég skemmti mér ótrúlega vel og hló að bröndurum Baggalútsmanna sem aldrei fyrr og fann ekki vitund fyrir því að vera ein þarna. Ég ákvað líka að gera aftur jólalegt hjá mér og Arnar sem er gamall og góður vinur minn kom og skreytti með mér jólatréð sem hefur ekki verið skreytt í einhver ár.(myndin er einmitt tekin að lokinni skreytingunni)

Ég hef leyft mér að njóta hverrar mínútu sem ég hef fengið tækifæri á því að vera innan um það fólk sem þykir vænt um mig og mér um það. Ég hef borðað með því, hlegið, notið samræðnanna og vináttunnar - finn fyrir bullandi þakklæti í hjarta mér fyrir þá gæfu að eiga þetta dásamlega fólk að.

Ég hef einnig fengið reglulega sting í hjartað síðustu vikurnar vegna ástar minnar á fullorðnu börnunum mínum og ég fyllist þakklæti fyrir það að þau eru öll með fallegt hjartalag og eru tilbúin að hafa mig inni í lífi sínu við hin ýmsu tækifæri. Það tel ég ekki sjálfgefið. Þau eiga einnig frábæra maka sem mér þykir afar vænt um og fyrir það get ég svo sannarlega verið þakklát líka.

Barnabörnin mín eru auðvitað klárustu og fallegustu börn heims og ég hef fengið að vera amma þeirra sem er mér mikill heiður. Núna á aðventunni hafa þau verið í kringum mig í nokkur skipti mér til mikillar ánægju og þakklætis og ég fékk líka jólagjöf sem eitt þeirra valdi handa mér sjálf og þá fann ég gleðistraum fara um mig við tilhugsunina um að hún hafi verið að hugsa til mín þegar hún valdi gjöfina.

Ég held að ég hafi einnig verið þessum afleggjurum mínum til ánægju um daginn þegar þau fóru með mér á skauta - Það var mikið hlegið að meistaratöktum ömmunnar – og þau björguðu líklega lífi mínu með því að styðja mig og kenna mér réttu aðferðirnar þar sem ég staulaðist um ósjálfbjarga á skautunum. Þetta er aðventuminning sem ég veit að á eftir að ylja mér um ókomna tíð og hláturinn þeirra klingja í eyrum mér lengi. Ég tel mig heppið stelpuskott að eiga svona marga yndislega að, og fyrir það þakka ég mikið og vel.

Ég hef fundið frið og ánægju fyrir þessi jól eins og ég fann fyrir á árum áður við að velja í jólapakkana það sem ég held að gleðji hvern og einn, og fann í leiðinni gleðina sem fylgir því að gefa af sér fallegar hugsanir til þeirra allra í leiðinni 

Og svei mér þá - ég held bara að jólablúsinn hafi næstum því horfið og að í hans stað hafi þakklætið og gleðin yfir öllu því góða sem lífið hefur fært mér tekið völdin. 

Segi ekki að mér vökni ekki um augun í eitt og eitt skipti þegar ég sé par haldast í hendur og finn kærleikann sem þau hafa gagnvart hvort öðru, viðurkenni að það læðist inn löngun eftir því að fá að upplifa það sama.

Það er líka í lagi að vera meyr og tilfinningaríkur á þessum tíma - það má alveg svo lengi sem það rænir mig ekki daglegri gleði minni. 

Ég má líka láta mig dreyma þann ljúfa draum að um næstu jól verði tímarnir breyttir, að þá verði það ég sem leiði ástina mína niður Laugaveginn með stjörnur í augunum og jólatónlistina ómandi allt um kring.

En þar til að sá draumur rætist ætla ég að segja bless við eymd og jólablús og njóta þess bara að það eru að koma gleðileg jól sem ég mun eiga með fólkinu sem ég elska.

Þetta er minn þakklætisóður til lífsins og aðventunnar þó að einhverjum kunni að þykja óðurinn væminn með endurtekningum þakklætisviðlagsins þá verður bara að hafa það. Þvi að það er einmitt þakklætið sem hefur gefið mér þá gleði sem ég finn að ég á þessa dagana og það er þakklætið sem tók frá mér þessar vondu tilfinningar sem höfðu fyllt aðventurnar síðustu árin líkt og þegar Trölli stal jólunum. Og fátt er betra en að finna hjarta sitt fyllast af ást,kærleika og þakklæti á þessum yndislega tíma ársins þegar við fögnum fæðingu frelsara mannkyns. 

Gleðileg jól til ykkar elskurnar og mættu þau svo sannarlega verða ykkur glimmer og gleðistráð <3

Xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira