c

Pistlar:

29. mars 2017 kl. 19:50

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Ræktar þú garðinn þinn?

Erum við að rækta garðinn okkar eða erum við of upptekin við að sinna einhverju allt öðru? 
 
Enginn lifir sjálfum sér til lengdar og við flest ef ekki öll þurfum að hafa annan tilgang en þann að hugsa einungis um okkur sjálf svona stundum a.m.k.
 
Oftast tengist þessi tilgangur því að þjóna samferðamönnum okkar með einhverjum hætti.
Við getum einungis speglað okkar innri veröld með öðrum mannverum og aðeins í samskiptum við aðra fáum við að upplifa þjónustulund okkar, tilfinningar og í raun allt það fallega sem við eigum í samskiptagrunni okkar og hjarta. 
 
Ég man þegar ég fór að búa sjálf þá fann önnur amma mín aftur tilgang fyrir líf sitt þó að flestum finnist sá tilgangur kannski ekki stór. Hún bjó á elliheimili bæjarins en lagði það á sig tæplega áttræð að labba hálfan kílómeter einu sinni í viku einungis til þess að koma og baka handa okkur fjölskyldunni og eiga samfélag við okkur. Yfirleitt voru það kleinur sem hún bakaði en stundum voru það lummur eða eitthvað annað gott.
 
Hún fann að hún var velkomin og ég veit að þetta voru gleðistundir í hennar annars tilbreytingalausa lífi. Gaf henni líklega tilgang þegar hún fann að hún var velkomin og tilheyrði okkar litlu fjölskyldueiningu.
 
Mikið er ég þakklát í dag fyrir það að hafa opnað heimili mitt og eldhús svo að hún gæti nýtt kunnáttu sína og fundið sér einhvern tilgang þennan síðasta spöl lífsins. Þetta eru stundir sem mér þykir vænt um að eiga í minningakistunni minni og þær ylja mér.
 
Í dag skil ég einnig hversu mikils virði þessar stundir hafa verið henni og hversu mikið hún síðan missti þegar fjölskylda okkar flutti suður á mölina.
 
 
Ég veit að alveg eins og amma mín þráði samveru við okkur, þá þráum við foreldrar flest að hafa hlutverki að gegna í lífum afkomenda okkar og að finna að við skiptum máli. 
 
Eins trúi ég að afkomendur okkar vilji gjarnan tilheyra og eiga góð og gefandi samskipti við okkur. Ég verð a.m.k að játa að það er fátt sem gleður mig og mitt hjarta meira en þær stundir sem ég á með mínum afkomendum.
 
Bréne Brown einn þekktasti félagsráðgjafi og rannsakandi í félagsvísindum hefur bent á að sú þörf að fá að tilheyra komi mjög sterkt fram í rannsóknum þeim sem hún hefur staðið að á félagsvísindasviði og sé manninum í raun algjör nauðsyn.
 
Í dag er bara allt of margt sem tekur tímann frá foreldrum og börnum. Vinna, nám og félagsstörf taka stundum of mikinn tíma frá þessum nauðsynlegu tengslum sem við þurfum svo sárlega á að halda. Ég veit að flestir þrá að eiga þessa nánd og tengsl og Það bara vantar eitthvað í hjarta okkar flestra þegar þau eru léleg eða engin.
 
Margir finna einnig fyrir vonleysi og sorg gagnvart lífinu þegar þeir hafa engum tilgangi að gegna í lífum þeirra sem hjarta þeirra eiga, og einmannaleiki þess sem stendur einn og óstuddur í lífinu er mikill og nístandi.
 
 
Flestir reyna þó að finna tilgang fyrir líf sitt og fylla það gjarnan af verkefnum og því sem hæfileikar þeirra og áhugasvið segja til um, en ég fullyrði nú samt að ekkert kemur í stað þess að hafa tilgangi að gegna inni í kærleiksríkum samskiptum.
 
Þannig að ég hvet okkur öll til að hafa það í huga að þeir sem við elskum verða ekki endilega alltaf til staðar - ekki víst að morgundagurinn verði þarna svo hægt sé að bæta fyrir samskiptaleysi dagsins í dag.
 
Eða eins og eitt innheimtufyrirtæki segir svo skemmtilega og ég ætla að gera að mínum orðum hér í lokin,
 
"Ekki gera ekki neitt" -  Hringdu- hafðu samband- ræktaðu garðinn þinn á meðan hann er enn til staðar og er þinn.
 
XOXO
 
Ykkar Linda 
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira