c

Pistlar:

30. júlí 2017 kl. 22:24

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Felast töfrar í nánd?

"Allt of oft vanmetum við mátt snertinga, brosa, fallegra orða, eyra sem skilur, heiðarlegra hrósa, eða áhrif örlítillar umhyggju, en hvert og eitt þessara atriða getur stuðlað að bættum lífskjörum  einstaklingsins". -Leo Buscaglia

Til að samskipti okkar gangi nú vel og séu gefandi þarf nánd og traust að vera til staðar ásamt slatta af velvild, jákvæðum hugsunum og kærleika . Þá gildir einu hvort við erum að tala um samskiptin við börnin okkar, maka, foreldra eða vini.

Hlustun er vanmetin og því miður allt of fáir sem kunna virka hlustun. Ég tel þó að mikill skortur sé á því að við hlustum nægilega vel á þá sem við umgöngumst og mörgum misskilningnum mætti forða með því að æfa sig í að hlusta af athygli. Virk hlustun er helst fólgin í því að hlusta án þess að vera að hugsa á sama tíma um viðbrögð okkar við því sem við heyrum og það hvernig við ætlum að verja okkur sjálf gegn því sem sagt er eða hvernig við ætlum að koma með okkar eigin ráð og snilligáfu þar inn í.


Nándina í samskiptum er nauðsynlegt að hafa en hana aukum við helst með tilfinningalegri tjáningu ásamt snertingum og öðrum þeim leiðum sem sýna virðingu, væntumþykju, samlíðan og ást.

Margar rannsóknir sem gerðar hafa verið hafa sýnt framá gildi snertinga í mannlegum samskiptum og ein þeirra sýndi að börn sem ekki fengu snertingar þroskuðust og döfnuðu verr en þau sem fengu reglulega snertingar. Snerting getur t.d. skipt sköpum um það hvort hjónabönd verði farsæl og langlíf að mati þeirra sem rannsakað hafa þessi málefni svo eitthvað sé nefnt, og í parasambandi þurfa aðilarnir að auki að upplifa og sýna að kynferðisleg spenna sé til staðar í samskiptunum með viðeigandi snertingum og kossum.

Þar sem lítið er um snertingar og þar af leiðandi nánd, verða parasambönd að endingu að vinasambandi þar sem kynlöngun og löngun til að halda göngunni áfram hverfur hjá öðrum eða báðum aðilum. Eins og ég nefndi hér að framan þá hafa verið gerðar margar rannsóknir um áhrif snertinga og nándar og ber þeim flestum saman um að tilfinningalegum þörfum mannsins sé ekki fullnægt ef þessi atriði séu ekki til staðar í lífum þeirra. 

Ég man þegar prestur einn hér í Borg benti á að ef gefa ætti gjöf snertinga til þeirra sem væru orðnir einir í lífinu og að helst ætti að gefa þeim gjafabréf í nudd eða annað dekur svo að þeir fengju að einhverju leiti þá snertingu sem nauðsynleg er, og ég trúi að presturinn hafi hitt naglann algjörlega á höfuðið þar.

En hvað samband okkar við börn, tengdabörn og barnabörn varðar, þá gildir held ég að nýta virka hlustun ásamt viðurkenningu og virðingu fyrir einstaklingseðli hvers og eins til að auka gæði samskiptanna, og einu gildir þar hver aldur þeirra er.

Nánd,væntumþykja og samlíðan er það sem æskilegast er að sé til staðar í öllum kærleikssamböndum okkar og best er auðvitað að samskiptin einkennast af kærleika og samstöðu allra sem í þeim kærleikshring eru.

Hvað vini okkar varðar held ég að þar sé mikilvægast að finna fyrir trausti,samlíðan, samstöðu, væntumþykju og umhyggju á báða bóga og fátt er mikilvægara en góðir vinir.

Ég er ein af þeim heppnu sem á marga góða og umhyggjusama vini að og tel það vera eitt mesta ríkidæmi mitt og væri ekki til í að láta þá vináttu fyrir nokkurn pening. En i vinasamböndum okkar eru andlegar snertingar í formi umræðna,leyndarmála, ráðlegginga, skemmtunar og umhyggju algengar og eru það sem gefa okkur nándina sem svo nauðsynleg er. 

En er það ekki merkilegt með okkur mennina að stundum erum við allt of upptekin af okkur sjálfum og okkar eigin egói til að hlusta á þarfir og líðan þeirra sem við viljum eiga góð samskipti við? En uppskeran af því er því miður allt of oft sú að vinátta sem áður skipti miklu máli slitnar, fjarlægð við okkar nánustu myndast, hjónabönd bresta og og svo margt annað gerist sem við viljum þó alls ekki að gerist.

Erum við virkilega tilbúin til þess að láta frá okkur það, og þá sem skipta okkur máli vegna þess að við höfum ekki nennu til að hlusta og bregðast við því sem sagt er eða veita það skjól sem í hlustun, faðmlögum og snertingum felast?

Er ekki bara kominn tími að tengja betur við þá sem við viljum eiga góð og falleg samskipti við og gera með því Lífið að þeim kærleikaríka stað sem við flest þráum svo mikið?

xoxo

Ykkar LindaLinda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira