c

Pistlar:

4. desember 2017 kl. 12:17

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Sjáðu hvað þú lést mig gera

Orðin okkar og hugsanir hafa þann eiginleika að skapa tilveru okkar að miklu leiti og oft er sagt að líf og dauði sé á tungunnar valdi. Ég er um margt sammála þessu og tel að heimspeki og trúarrit hafi flest ef ekki öll kennt okkur þetta. 

Þess vegna veit að ég hversu auðvelt það er fyrir átrúnaðargoð barna okkar að koma inn ranghugmyndum og rangri nálgun til lífsins á framfæri við þau í gegnum lagatexta m.a.og  langar mig að tala aðeins um það í þessum pistli mínum.

Sem betur fer gera þó flestir textahöfundar sér grein fyrir ábyrgð sinni í þessum efnum en greinilega á máltækið "betur má ef duga skal" við þegar kemur að þessu.

Textar eins og "look what you MADE me do" eða sjáðu hvað þú lést mig gera og "the role you MADE me play" finnast mér td ekki smart skilaboð til barna okkar og unglinga.

Úttöluð orð þar sem þú tekur ekki ábyrgð á sjálfri þér heldur er það einhverjum öðrum að kenna ef þú gerir eitthvað, og svo er það einhver annar sem skaffar þér þitt hlutverk í lífinu.

Eins varð nú femínistinn í mér fyrir áfalli þegar einn textinn fjallaði um hvort að stelpan væri orðin nægjanlega sexý fyrir strákinn. 

Ég verð að viðurkenna að ég hefði haldið að kvennabaráttan væri komin á hærra plan, að við værum komnar frá því að hlutverk okkar kvenna væri nánast eingöngu falið í því að vera nógu flottar og sexý fyrir mennina í lífi okkar, heldur hélt ég að gáfur okkar og skynsemi væri orðin meira metin eftir að meirihluti þeirra sem Háskólana sækja eru konur - en nei ég hef greinilega ekki haft rétt fyrir mér þar!

Eins og áður var er í dag allt vaðandi í staðalímyndum sem segja okkur alla daga að við séum ekki nóg af einhverju eða of mikið af einhverju - a.m.k erum við ekki eins og við ættum að vera í fullkominni Hollywood veröld, og við hlustum raunverulega á þetta og reynum að aðlaga okkur að einu í dag og öðru á morgun í stað þess að vera bara við eins og við erum og vera ánægð með það.

Kannski er ég bara hrikalega gamaldags en mér finnst ekki sniðugt að fyrirmyndir barna okkar séu tengdar óraunhæfum staðalímyndum eða textum sem fjalla um það sem hreinlega er ekki til að auka gæði lífsins hjá einum né neinum en er samt látið líta þannig út.

Lagatextar eins og þeir sem fjalla um eiturlyf og vellíðan þeirra en ekki afleiðingar,ábyrgðaleysi þar sem þú ert alltaf viljalaust fórnarlamb,sjálfsvíg sem góða lausn frá þunglyndi,niðrandi orðbragð, vanvirðing og hlutgerðing á  konum- þar sem þær gerðar að kynlífsleikföngum er bara eitthvað sem mætti hreinlega setja "blíbb" á eins og gert var við ljótt orðbragð í sjónvarpinu hér áður fyrr og er kannski gert sumstaðar enn. 

Ég er amma nokkurra barna á viðkvæmu mótandi aldursstigi og ég fæ hroll við tilhugsunina um að barnabörnin mín í sinni félagslegu mótun fái skilaboð af þessu tagi í gegnum átrúnaðargoð sín, og ég ætla ekki einu sinni að byrja að tala um hversu mötuð þau eru í gegnum ofbeldisfulla tölvuleiki þar sem dráp eru sjálfsögð til stigagjafar og sigurs og hvernig sjálfsmynd þeirra á að vera samkvæmt tískuritunum sem þau fletta sem segja þeim hvernig þau eiga að vera svo að þau séu nú "pro" eins og litli níu ára ömmuguttinn minn skilgreinir það að vera nægjanlega flottur fyrir veröldina . 

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og ég trúi því að það sé á ábyrgð okkar allra að gæta að því hvað börnin okkar fái að hlusta á og horfa þar sem það getur valdið þeim verulegum skaða að fá skakka og villandi mynd af raunveruleikanum og því hvernig eðlilegt er að við umgöngumst hvert annað í orðum og gjörðum. 

Tökum höndum saman og kennum börnum okkar að taka ábyrgð og segjum þeim að það geti enginn látið þau gera eitthvað - að ég tali nú ekki um til hefndar þó að komið hafi verið illa fram við þau. Segjum þeim að við berum alltaf sjálf ábyrgð á slíkum gjörningum sem og öllu öðru sem við tökum ákvarðanir um í lífinu.

Segjum þeim einnig að það sé einfaldlega ekki málið að deyfa sig fyrir verkefnum og vanlíðan lífsins með notkun efna, það skerði einungis sjálfsvirðingu og sjálfstraust allra með tilheyrandi hnignun á lífsgæðum þeirra og skertum möguleikum til að eiga fallegt og gott líf.

Og við stelpurnar okkar ættum við svo sannarlega að segja að þær þurfi aldrei að gera sig "nægjanlega sexý" fyrir karlmenn né nokkurn annan til að vera samþykktar, því að þær eru bara hrikalega flottar eins og þær eru og þurfa engu við að bæta.

Auðvitað veit ég að við erum að kenna börnunum okkar allt það fallega og góða nú þegar en þegar ég heyri unglingsömmustelpurnar mínar spila uppáhalds tónlistina sína fer bara um mig stundum, og aldrei er góð vísa of oft kveðin held ég.

Stundum þurfum við bara að muna eftir því að standa saman sem heilt þorp þegar framtíðarkynslóðin á í hlut og kenna það sem gæti t.d útrýmt herferðum eins og "me too" herferðinni vegna þess að við værum bara svo svakalega siðmenntuð á öllum sviðum og allir kæmu fallega fram við hvert annað.

Verum bara öll vakandi elskurnar fyrir áhrifavöldunum í lífi kynslóðarinnar sem er að vaxa úr grasi og stöndum saman að því að vernda þau og vísa þeim veginn til lífs og góðrar líðanar. 

xoxo

Ykkar Linda 

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira