c

Pistlar:

6. nóvember 2017 kl. 19:54

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Að komast undir regnbogann

Ég heyrði skemmtilega frásögn í afmæli um daginn þar sem verið var að tala um regnbogann og að hann væri ekki til í rauninni, að hann væri ekkert annað en tálsýn sem við sjáum þó öll. Þessi frásögn minnti mig á það þegar ég var ung að árum og sá blessaðan regnbogann þá reyndi ég alltaf að komast undir hann því.Það áttu nefnilega að rætast allar óskir þess sem undir hann komst -  en auðvitað náði ég aldrei þessu takmarki mínu einfaldlega vegna þess að regnboginn er í rauninni ekki til.

En þessi saga fékk mig til að hugsa um þá drauma sem við göngum með í kollinum og sumir upplifa sem hreina tálsýn, óraunhæfa og ekki líklega til að geta ræst. 

En afhverju datt mér regnboginn í hug varðandi drauma okkar? Jú vegna þess að við látum engan segja okkur að við sjáum ekki regnbogann og því síður að hann sé ekki til vegna þess að fyrir okkur er hann mjög svo raunverulegur ekki satt? 

Eins ætti það að vera með drauma okkar og þær fyrirætlanir sem við göngum með í kollinum okkar, það ætti enginn að geta haft áhrif á sýn okkar og trú á að þeir geti ræst, og við ættum að nota öll þau ráð sem við getum fundið til að láta þá rætast og sleppa því að hlusta á þá sem vilja telja okkur trú um að þeir séu ekkert annað en fögur tálsýn. 

Ég veit ekki með ykkur, en ég veit að flest það sem ég hef séð í kolli mínum og fundið í hjarta mínu að mig langi til að framkvæma verður að veruleika fyrr eða síðar, og ég stefni að því að framkalla sem flestar af þeim sýnum sem ég sé fyrir mér í kolli mínum og fá þær inn í raunveruleikaheim minn, og ég get fullvissað ykkur um að það er auðveldara að komast undir regnboga drauma okkar en hinn eina sanna regnboga. 

Að vísu krefst draumasýn okkar þess af okkur að okkur finnist við eiga skilið að hún rætist, að við séum verðug, og einnig krefst hún þess að við göngum fram í trú og trausti á að allt sé mögulegt og ekkert ómögulegt. Og þannig ættum við að taka fram hvern regnbogann á fætur öðrum og gera okkar besta til að allir fái þeir sitt líf í raunheimum. 

Mig langar í þessum litla pistli mínum að gefa þér nokkur ráð, ráð sem flestir sem hafa látið drauma sína rætast vita að mikill sannleikur leynist í. Ég vona svo innilega að þessi ráð gagnist þér vel á leið þinni undir regnbogann.

Og ef þig vantar aðstoð á leiðinni þá er ekkert annað að gera en að panta tíma hjá mér og fá aðstoð við að ná þangað wink En hér koma ráðin:

Ráð númer 1.
Taktu smá skref hvern einasta dag inn í drauminn þinn.

Ráð númer 2.
Hafðu samband við þá sem þú heldur að geti aðstoðað þig með ýmsu móti á leiðinni - því að enginn gerir alla hluti einn og óstuddur.

Ráð númer 3.
Mundu að Ljósaperan var fundin upp eftir að Edison hafði gert þúsundir mistaka.

Ráð númer 4.
Þeir fiska sem róa -  svo vertu iðinn við að leita leiða og lausna.

Ráð númer 5.
Ekki fresta því sem þú getur gert í dag til morguns.

Ráð númer 6.
Mundu eftir máltækinu "Í funa skal járn hita" leiðin verður oft erfið og þig langar mest að gefast upp - en mundu þá eftir því að þú mótast og þroskast betur inn í drauminn þinn í erfiðustu aðstæðunum

Ráð númer 7.
Taktu ábyrgð á mistökunum þínum og gerðu betur næst (ekki kenna öðrum um)

Ráð númer 8.
Þolinmæðin, æðruleysið og töggur (Grit) er aðal innihaldsefni velgengni þinnar.

Ráð númer 9.
Þegar einar dyr lokast opnast aðrar - trúðu og treystu því að lífið sjái þér fyrir velgengni.

Ráð númer 10.
Róm var ekki byggð á einum degi og draumar þínir rætast líklega ekki heldur á einum degi. Þeir munu taka skýrari og skýrari mynd með hverju því skrefi sem þú tekur til að láta þá rætast. Skrefin sem tekin eru inn í óttan en ekki vegna fjarveru frá honum eru oft erfið, en sigurinn þegar hann næst er líka miklu sætari fyrir vikið.

Ég vona svo sannarlega að þú sem þetta lest sért með kollinn þinn fullan af regnbogum sem þú ert staðráðinn í að verði sýnilegir í hinum ytra heimi, og vona að þessi örfáu ráð gagnist þér vel á leið þinni.

En hvað sem þú gerir við litlu regnbogana þína þá bið ég þig um að "ekki gera ekki neitt" í það minnsta.

Þú ert dýrmætur einstaklingur með einstaka hæfileika og einstaka sögu og átt skilið að fá að upplifa alla liti regnbogans og meira til - ekki gleyma því...

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira