c

Pistlar:

21. nóvember 2017 kl. 10:25

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Ertu að gera útaf við þig?

Í dag hafa allir svo mikið að gera og hafa úr svo miklu að velja að hvíld og slökun verður að algjöru aukaatriði í daglegu lífi okkar.

Við vinnum allt of langan vinnudag oft á tíðum og þegar við ljúkum deginum hömumst við í ræktinni( förum jafnvel í hádeginu) hendumst síðan í búðir eftir að hafa náð í börnin í leikskólann - skólann - íþróttirnar - píanótímana eða hvað svo sem tekur við eftir venjulegan vinnudag allra, förum heim og eldum - sjáum um heimalærdóminn og náum svo að draga andann þegar við erum búin að koma öllum í háttinn, eða hvað?

Nei oft er það ekki þannig heldur taka félagsmálin og áhugamálin við eða einfaldlega það að setjast yfir nýjustu þáttaröðina sem við erum að horfa á. Og allt þetta verður til þess að við náum ekki nægum svefni segja sérfræðingarnir. Dagskráin okkar er allt of full og líkami okkar nær ekki að endurhlaða orkubirgðir sínar nægjanlega lengi, þannig að við náum verr að sinna verkefnum hvers dags og erum þreytt! 

Þetta gengur ekki hjá okkur krakkar, við þurfum að gæta jafnvægis í lífinu og hugsa um langtímaafleiðingar þess að hvílast ekki nægjanlega vel.

Það er alltaf verið að segja okkur frá afleiðingum streitutengdra sjúkdóma og eins er okkur sagt að streita hafi mjög vond áhrif á hjarta okkar og æðakerfi. Þessi varnaðarorð fjúka þó í gegn hjá okkur og við hlustum ekkert á þau fyrr en að allt er orðið um seinan og við erum komin í burnout ástand (kulnun) þá loksins neyðumst við til að endurskoða forgangsröðina okkar.

Það er á þessum stað sem við förum að stunda andlega rækt að einhverju tagi, tökum göngutúra í náttúrunni og förum að gæta að matarræði okkar og svefnvenjum. Eins áttum við okkur þarna á því að neikvæðar fréttir eða yfir höfuð það að kveikja ekki á sjónvarpinu er bráðsnjallt.

En því ekki að taka bara á þessu strax? Það er alveg í boði að bíða ekki eftir fallinu eða kulnuninni. 

Þegar við rænum okkur svefni þá erum við að ræna okkur andlegri og líkamlegri vellíðan en gefum streitu, kvíða og annarri vondri líðan aukið rými í tilveru okkar.

Og trúið mér - líkami okkar öskrar á hvíldina sem hann þarfnast svo sárlega, en við einfaldlega hlustum ekki fyrr en allt of seint vegna þess að lífið er bara svo uppfullt af allskyns skemmtilegheitum og við megum bara alls ekki missa af neinu.

Hvar finnum við þá þann aukatíma sem við þörfnumst til að mæta öllum þessum kröfum okkar? Jú við minnkum hvíldartímann okkar! 

En það eru dóminóáhrif sem skapast í lífi okkar ef við förum á stað streitunnar og syndir feðranna bitna yfirleitt á börnunum á þann hátt að þau fara oft í fótspor okkar hvað varðar lífsstílinn okkar. Það er ekki nóg með að við sjálf verðum kvíðin, streitufull og hvað það nú er, heldur verða börnin okkar líka þessu ástandi að bráð þegar þau detta inn í okkar hraða lífsstíl.

Börn dagsins í dag eru kvíðnari en nokkru sinni fyrr sýna rannsóknir, en eiga þó meira og gera meira en nokkru sinni áður. Þau hafa flest sem þau þarfnast en vantar þó það sem skiptir máli að mínu mati, stundir í ró og næði þar sem þau læra að dvelja án alls - eru bara viðstödd það sem ekkert er. Á stað  þar sem engin stundatafla fyllir vökustundir þeirra.

Þessar elskur byrja í fullri vinnu nokkurra mánaða gömul hjá dagmömmum. Svo tekur leikskólinn við og að lokum löng skólagangan, og alltaf bætist við í stundatöflu þeirra. Allskonar áhugamál og æfingar taka við að fullum vinnudegi þeirra, og þau rétt eins og við detta síðan inn í heim tölvunnar eða sjónvarpsins útkeyrð og illa hvíld.

Og ég bara spyr, hvernig ætlum við að snúa þessari þróun við?

Við getum einfaldlega ekki haldið svona áfram lengi - það mun ekki skila góðu lífi fyrir neitt okkar né fyrir þjóðfélagið í heild sinni að mínu mati.

Pössum okkur á því elskurnar að lenda ekki harkalega á erfiðum stöðum hraðans  - hugsum vel um okkur og lærum að njóta þess að vera til án þess að vera alltaf eitthvað að gera. 

Ég held að friður og sálarró skili okkur farsælla og gleðiríkara lífi en hraðinn, og okkur mun líklega öllum líða mun betur með það að lifa innan frá og út í stað þess að lifa utan frá og inn flestar stundir. 

Þannig að ég ætla að enda þennan pistil minn með því að segja - Sofðu rótt í ALLA nótt og mætti dagurinn á morgun verða þér dagur endurnýjaðrar orku og gleði.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira