c

Pistlar:

21. desember 2017 kl. 12:07

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Uppkrift jólanna

Núna þegar hátíð ljóss og friðar gengur í garð þá finnst mér eðlilegt að velta því aðeins fyrir mér persónuleika og gildum afmælisbarnsins sem höldum þessa hátíð vegna. Uppskrift hans er uppskrift að lífi sem er uppfullt af kærleika og öðrum góðum innihaldsefnum. Uppskrift sem lifað hefur í rúm 2000 ár og trónir á metsölulistum um allan heim ennþá, geri aðrar sjálfshjálparbækur og lífsuppskriftir betur!

En það er vegna þessarar uppskriftar sem við gleðjumst og fögnum þessa hátíðardaga og hér á norðurhjara veraldar fögnum við í leiðinni hækkandi sól. Og svei mér þá ef við ættum ekki flest að geta verið sammála um að þessi uppskrift er bara ótrúlega góð og falleg sama hvar við stöndum trúarlega séð.

Ef við færum bara eftir helmingnum af þessari kennslu afmælisbarnsins þá er ég viss um að líf okkar tæki stórkostlegum breytingum og líklega værum við hamingjusöm með frið í hjörtum okkar alla daga.

En hver er svo þessi kennsla eða uppskrift að góðu lífi?

Afmælisbarnið kenndi okkur að mæta fólki á þeim stað sem það er. Hann mætti öllum sem vildu við hann tala, en á þessum tíma var það bara alls ekki sjálfsagt. Það var ekki til siðs að karlmaður talaði við konur, hvað þá að eiga þær að vinum eins og hann átti, og ekki þótti það viðeigandi að Gyðingur talaði við td Samverja og aðra þjóðflokka. En það að mæta fólki á þeim stað sem það er statt hverju sinni gefur okkur alveg ótrúlega gott tækifæri á því að ná til þeirra samskiptalega séð og aðstoða þar sem aðstoðar er þörf. Að líta upp eða niður á fólk gerir okkur einungis ógagn og setur okkur á stað hroka og yfirlætis eða á stað niðurlægingar sem er síst skárra. 

Jesú kenndi okkur að mínu mati að við þurfum að vilja það góða og finnast við eiga það skilið til að fá það. Hann sagði að við þyrftum að vilja sleppa því að vera fórnarlömb lífsins ef við vildum taka við þeirri lækningu sem í boði væri. Hann gekk um og læknaði en spurði þá sem hann læknaði hvort þeir vildu verða heilir.

Merkileg spurning í sjálfu sér en þó svo skiljanleg þegar við vitum í dag að til að breyta lífinu með einhverjum hætti þurfum við alltaf að vilja breytinguna og í raun þrá hana af öllu hjarta. Eins þurfum við að vera tilbúin til að taka þau skref sem nauðsynleg eru til að breytingin (lækningin)geti átt sér stað.

Afmælisbarnið boðaði kvenréttindi og jafnrétti á tímum þar sem það var alveg fráleit hugmynd. Með því að eiga konur að vinum og með því að tala yfir höfuð við konur sýndi hann heiminum að konur væru jafnréttháar körlum á tímum sem litið var á þær sem einskisverðar.

Dæmið ekki voru hans orð og hann sýndi það í verki að hann var ekki kominn til að dæma heiminn heldur til að boða náð og miskunn. Konan sem átti að grýta en sem hann varði gegn þeim sem æðstir voru í samfélaginu lagalega séð segja okkur að dómar í garð náungans eiga ekki að fyrirfinnast hjá okkur þar sem við vitum ekki hvers vegna fólk bregst við eins og það bregst við. Við þekkjum ekki innsta kjarna hvers manns og vitum ekki alla hans sögu sem í raun rænir okkur öllum rétti til dóms. Og svo erum við öll bara svo ófullkomin og breysk að við höfum ekki efni á því að dæma einn eða neinn, ættum heldur að líta í okkar eigin barm.

Jesú var líklega upphafsmaður að þjónandi forustu sem flestir telja bestu stjórnunartækni dagsins í dag og allir keppast við að innleiða í fyrirtæki sín. Hann sagði með þunga að við þyrftum að þjóna hvert öðru í kærleika og setja okkur til jafns við alla hver svo sem við værum, há jafnt sem lág, stjórnendur sem undirmenn. Og ef við skoðum innst í okkar hjarta þá er fátt sem gefur okkur meiri sálarró og gleði en það að aðstoða og hjálpa öðrum og dvelja í samvistum við þá á jafningjagrunni eða aðstoða þá við að ná í drauma sína og fljúga hátt.

Hann kenndi okkur að að vera í einlægni og að verða eins og börnin sem enga stimpla setja á lífið eða samferðamenn sína. Það eru oft skilgreiningar okkar (sem við trúum auðvitað að séu stóri sannleikurinn) sem gera það að við sjáum ekki gimsteinana sem glóa allt um kring bæði í lífinu sjálfu og þeim sem ganga lífsveginn með okkur.

Að hugsa vel um musteri okkar, heilsu og að festast ekki í hroka og eigingirni var einnig hluti af hans kennslu. Eins og ég a.m.k skil hann þegar hann talar um musterið þá finnst mér hann vera að tala um það að við eigum að hugsa vel um líkama okkar og láta ekkert í okkar lífsháttum verða til þess að eyðileggja það. Eins finnst mér hann tala um að við eigum að dvelja í sambandi við okkar andlegu hlið og sinna þeirri hlið af alúð. Sá sem lifir einungis í líkamanum en ekki andanum og sálinni lendir að mínu mati í eigingirnis ástandi sem engum er til heilla og leiðir jafnvel til tjóns á svo margan hátt í lífi viðkomandi.

Það sem var svo töff við Jesú var að hann lét almenningsálitið aldrei trufla sig og ofsóknirnar á hendur honum stöðvuðu hann aldrei í því að gera það sem hann kom til að gera. Það kennir okkur að láta ekki álit annarra trufla tilgang okkar heldur að halda ótrauð áfram í átt að draumum okkar og innsta tilgangi lífs okkar sama hvaða úrtöluraddir hljóma í kringum okkur. Hann sagði einnig að við gætum allt ef við bara gætum trúað því, jafnvel fært heilu fjöllin (og hver kannast ekki við að þurfa að færa heilu fjöllin þó ekki sé nema andlega séð) og þar er ég svo sannarlega sammála honum. Ég hef séð fólk breyta lifi sínu og snúa því um 360 gráður með því einu að breyta trúarkerfum sínum um lífið og sig sjálft ásamt því að ryðja burt hindrunum hugans.

Þegar hann bauð konunni við brunninn lífsins vatn þá sýndi hann fordómaleysi sitt að fullu því að konan var búin að eiga marga menn og var með manni sem var ekki hennar ásamt því að hún var Samverji sem Gyðingar voru nú ekki hrifnir af á þessum tíma. En þarna kenndi hann okkur ekki bara fordómaleysi að mínu mati heldur einnig það að þeir sem standa höllum fæti eða lifa ekki samkvæmt stöðlum samfélagsins eiga samt sem áður fullan rétt á góðu og gefandi lífi, lífi í fullri gnægð. 

Jesú grét og komst við í nokkrum frásögnum Nýja testamentisins og sýndi okkur þannig hversu mikilvægt það er að hafa samúð og að sýna samhug með þeim sem bágt eiga og syrgja. Það er einmitt fátt sem gerir mannlífið fallegra en samhugur manna á milli að mínu mati og á þeim stað skín ljós hans og kærleikur skærast frá okkur.

Hann kenndi okkur að fyrirgefa og ekki bara sumt heldur allt. Það síðasta sem hann bað um var að  Guð fyrirgæfi þeim sem krossfestu hann. Hin fullkomna fyrirgefning að mínu mati og sýnir að það er hægt að fyrirgefa allt. Mín eigin reynsla hefur kennt mér að ég leysi ekki síst sjálfa mig þegar ég fyrirgef það sem á minn hluta hefur verið gert og eins gefur fyrirgefningin mér nýja og skilningsríkari sýn á það sem hefur verið gert á minn hluta. Fyrirgefningin gefur mér þó alltaf fyrst og fremst frið í mitt eigið hjarta og leysir mig undan reiðinni og biturleikanum sem eitrar í bókstaflegri merkingu lífið.

Jesú kunni að njóta lífsins og gleðjast þann stutta tíma sem líf hans varði. Hann mátti þola það að vera kallaður vínsvelgur og átvagl vegna þess að hann kunni að njóta þess að eiga samfélag við þá sem hann mætti í lífinu og eiga skemmtilegar stundir með þeim. En hann lét álit annarra ekki hafa áhrif á sig þar frekar en fyrri daginn og leyfði þessu umtali bara að hafa sinn gang vitandi að það er tími til að gleðjast og það er tími til að hryggjast á þessu stutta ferðalagi okkar hér. Njótum á meðan við höfum færi á því elskurnar - gleðin er það sem getur haldið í okkur lífinu andlega séð þegar áföll lífsins á okkur dynja og gleðistundir með þeim sem við eigum vináttu og kærleika hjá er það sem gefur lífinu litadýrð sína.

Jesú kenndi okkur svo sannarlega hversu mikilvægt það er að halda í gildi okkar og láta þau ekki af hendi sama hvað í boði er. Hann vissi að freistingar biðu okkar á hverju horni. Freistingar sem gefa oft skammvinna gleði eða deyfingu en bíta okkur þó að lokum. Þegar við göngum gegn gildum okkar og lífssýn hefur það því miður oft alvarlegar afleiðingar fyrir líf okkar og tilveru alla. Svo stöndum á okkar fallegu gildum og látum ekki rödd heimsins ginna okkur til lags við ljóta skemmandi hluti sem minnka okkur eða ræna okkur því góða, fagra og fullkomna.

Afmælisbarnið kenndi okkur að annast þá sem eldri eru og sýna þeim virðingu okkar. Eitt af því síðasta sem hann gerði hér á jörðu var að biðja lærisvein sinn um að annast móður sína og að verða henni sem sonur. Beiðni sem sýndi mikla umhyggju fyrir afkomu hennar og þeirra beggja reyndar. Þannig var Jesú, umhyggjan og kærleikurinn uppmálaður allt til síðustu stundar. Hann var einnig óspar á það að gefa hvort sem það var matur, drykkur, lækningar eða uppbyggjandi viska. Hann lét sig ekki muna um það að fæða nokkur þúsundir manna með nokkrum brauðum og fiski, nú og svo er hann jú líka þekktur fyrir það að breyta vatni í vín til að gleðja gesti í brúðkaupi nokkru (og við vitnum oft í þessa sögu) og vakti það geysilega lukku sem vera bar. Hann sagði okkur einnig að þegar við tækjum á móti og önnuðumst aðra værum við að gleðja guðdóminn sjálfan. Þar höfum við það!

Innihald alls þess sem ég hef skrifað hér að framan er í raun Kærleikurinn sjálfur í allri sinni mynd. Og það er kærleikurinn sem hann sagði að okkur bæri að starfa í til alls og allra.

Ef kærleikur okkar, sem ég trúi að búi innra með okkur öllum fengi að dafna og skína inn í dimma veröldina trúi ég því að við gætum lýst hana upp og gert hana að fallegum stað sem við svo sannarlega þráum öll að þessi heimur sé. 

Hugarfar okkar, trú og gildi eru þau öfl sem skapa líf sem gleður okkur og aðra og með því að lifa í kærleika sköpum við ljóstýru sem lýsir inn í myrkan og oft dapran grimman heim.

Við erum einnig andi sál og líkami og þetta þrennt þarf að vera í jafnvægi ef friður jólanna á að setjast að í hjörtum okkar og verða viðvarandi þar.

Og mikið er ég nú viss um að afmælisbarn jólanna yrði nú glatt ef að ljós okkar sjálfra væru fyrirferðameiri en öll þau fallegu ljós sem nú lýsa upp bæi og torg í tilefni afmælis hans.

Skínum skært elskurnar og eigum gleðilega hamingjuríka jólahátíð fulla af friði og kærleika í anda þess sem við nú minnumst. 

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira