c

Pistlar:

30. janúar 2018 kl. 17:20

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Mátturinn felst í huga okkar

Við sköpum með hugsunum okkar

Ég vona að ég drepi ykkur ekki úr leiðindum með þessum pistli mínum en mér finnst bara svo ótrúlega mikilvægt að fá ykkur til að fræðast um hugsanir og mátt þeirra svo að ég bið ykkur um að hafa þolinmæði með mér og hvet ykkur til að lesa allt til enda.

Í raun er nefnilega sama hvar borið er niður, gömul þekking og ný benda í sömu átt, eða í þá átt að maðurinn er hugsandi vera og hugsanir eru hans aðal máttur til sköpunar og breytinga á umhverfi hans og aðstæðum. 

Og til þess að við getum skilið betur sköpunarmátt og afl hugsana í okkar daglegu lífi langar mig að nefna hér nokkur atriði.

Samkvæmt tölum frá rannsóknastofu taugamyndunardeildar háskólans í Suður  Californiu er talið að allt að 48.6 hugsanir fari um kollinn okkar á hverri mínútu sem þýðir að allt að 70,000 hugsanir fara í gegn um huga okkar daglega og þar af er talið að  allt að  98 % þeirra hugsana séu neikvæðar og eða ósjálfráðar. Ekkert smá magn hugsana sem fer um kollinn okkar alla daga!

Heilinn okkar

Heilinn okkar þessi undrasmíði er okkar aðal hjálpartæki í lífinu og hlutverk hans er að verja okkur fyrir öllu því sem talist getur hættulegt lífi okkar og limum með einum eða öðrum hætti og halda okkur á öruggu vellíðanarleiðinni, og því er ekki undarlegt að megnið af okkar hugsunum verði af neikvæðum eða óttablöndnum toga svo að heilinn vinni nú sitt verk af kostgæfni og verji okkur sem best fyrir öllum þessum aðsteðjandi hættum, bæði þeim sem hættulegar eru andlegri heilsu okkar sem og þeirri líkamlegu.

Kvíði og þunglyndi

Þeir sem þjást af kvíða og þunglyndi t.d.gera sér oft ekki grein fyrir því hversu margar neikvæðar hugsanir fara um koll þeirra dag hvern og því síður gera þeir sér grein fyrir því að þeir geta haft áhrif á líðan sína með því að breyta hugsunum sínum með markvissum hætti sem er ekki nema von þar sem sjálfvirkar hugsanir eru líklega fyrirferðamestar hjá okkur dags daglega ásamt óboðnum hugsunum sem valda truflun. Hugsanir eins og ég get ekki, kann ekki, þetta er ekki hægt og ég er ekki nógu góð fyrir þetta, hafa meiri áhrif en við gerum okkur stundum grein fyrir þar sem við trúum yfirleitt hugsunum okkar og lítum á þær sem sannleikann sjálfan í allri sinni mynd. Hugsanir eru hinsvegar hafa afar mismunandi merkingar hjá hverjum og einum og einstaklingar geta upplifað sömu hugsanir og atburði með misjöfnum hætti allt eftir merkingu orða í reynslubanka þeirra, tilfinningalífi og lífssögu.

Eitt það erfiðasta sem við fáumst við er að hætta að hugsa um þær hugsanir sem ekki gera okkur gott. Þar erum við að líklega að fást við  að breyta gömlum hugsanamynstrum sem eru okkur ómeðvituð og hafa fengið sinn tíma til að myndast með endurteknum hugsunum jafnvel árum saman. Það er talið að það taki okkur um 21 – 60 daga að skapa nýja venjubraut í heila okkar og er það gert með því að æfa sig á nýjum hugsunum sem leysa þær gömlu af hólmi og þannig verður til ný sýn og ný viðhorf.

Nasa og undratækið heilinn

Nasa geimvísindastofnun Bandaríkjanna gerði áhugaverða tilraun á geimfaraefnum sínum hér um árið, en sú tilraun fólst í því að geimfaraefnin voru látin ganga með gleraugu sem sneru heiminum á hvolf í heila 30 sólarhringa dag og nótt. En það skemmtilega gerðist að eftir þessa 30 sólarhringa var heilinn búinn að snúa myndinni við og rétta heiminn af hjá þeim ef svo má að orði komast. og ný sýn orðin til hjá þeim.

Þessi tilraun sýnir að heilinn okkar er fær um að breyta sýn okkar og fókusar á að búa til þá mynd sem við viljum sjá. Þetta er gott að hafa í huga þegar við erum að vinna úr gömlum rótgrónum mynstrum sem hamla okkur í lífinu ,- Við getum semsagt vanið okkur af því sem við gátum vanið okkur á”  En til þess að breyta hugsanamynstrum þurfum við þó markvisst að velja hugsanir okkar, taka þær föstum tökum og stýra þeim í ákveðnar uppbyggjandi og valdeflandi áttir. Þetta er svipað og með líkamsræktina, sömu lögmál sem gilda í báðum tilfellum það er æfingin sem skapar meistarann.

NLP Coaching

Í NLP fræðunum er sagt að til að breyta hugsunum þurfi fyrst af öllu að koma til viðhorfsbreyting sem verður til vegna nýrrar reynslu og skynjunar og síðan tekur við ákveðið lærdómsferli.

Það má líkja þessu lærdómsferli við það að læra að keyra bíl. Í upphafi erum við ómeðvituð um vankunnáttu okkar en höldum samt af stað. Næsta stig verður síðan til þegar við setjumst undir stýri og uppgötvum að við hreinlega kunnum ekkert á útbúnað bílsins. Þriðja stigið er síðan það að  við lærum á útbúnaðinn og æfum okkur reglubundið. Fjórða og síðasta stigið er síðan þegar við erum farin að keyra bílinn án þess að þurfa að hugsa nokkuð um hvað við erum að gera, við bara keyrum.

Við ferðumst semsagt frá ómeðvitaðri vankunnáttu yfir í meðvitaða vankunnáttu, og þaðan forum við yfir í meðvitaða þekkingu og að lokum yfir í ómeðvitaða þekkingu.

Úfff er einhver að skilja mig núna? :)

Hugsanir hafa áhrif á vatn

Einn af þeim fyrstu til að hafa óbilandi trú á því að hugsanir og orð sköpuðu veröld okkar var Émile Coué lyfjafræðingur en hann sýndi fram á það í nokkrum rannsóknum að jákvæð hugsun hefði áhrif bæði á andlega og líkamlega heilsu okkar. Ein frægasta setning sem er kennd við hann er “Alla daga á allan hátt líður mér betur og betur”  Þessa setningu lét hann skjólstæðinga sína endurtaka reglubundið dag hvern á heilsuhæli sem hann rak í Frakklandi, og vakti það athygli hversu góðum árangri hann náði við að byggja upp heilsufar þeirra.

Ýmsir aðrir aðilar hafa skoðað mátt hugsana og áhrif þeirra á okkur mennina, þeirra á meðal var  Masaro Emoto japanskur vísindamaður og heilari. Emoto virðist hafa sannað í tilraunum sem hann gerði að jákvæðar hugsanir hafa áhrif á uppbyggingu vatnssameinda og hafa þar af leiðandi mikil áhrif á líðan okkar mannanna þar sem líkami okkar er að stórum hluta til vatn. En þar sem jákvæðar hugsanir hafa áhrif á líkama okkar og líðan megum við ekki gleyma að þær neikvæðu hafa einnig mikil áhrif.

Niðurstaðan eða útkoman úr rannsóknum sem Emoto framkvæmdi var sú að hugsanir geta haft áhrif á uppröðun vatnssameindanna. Mjög áhugaverðar niðurstöður að mínu mati fyrir þá sem virkilega hafa þörf á að breyta ástandi hugsana sinna og bæta heilsu sína. Líta má þessar rannsóknir og myndir Emotos af kristöllunum í bókinni um vatnið sem gefin var út hér á landi fyrir nokkrum árum síðan.

Allt það sem ég hef talið upp hér að framan vona ég að sýni okkur öllum fram á að ávinningurinn af því að hafa hugsanir okkar í jákvæðum farvegi geti skilað okkur ánægjulegra, kvíða og þunglyndisminna lífi sem gæfi okkur þess í stað dass af hamingju, breyttu boðefnaflæði og Voila! Nýtt og betra andlegt líf er orðið til. 

Í mínum huga er það a.m.k afar ljóst að við sköpum með hugsunum okkar og framkvæmdum tengdum þeim, og því hvet ég okkur öll til að sleppa tökum á neikvæðum og niðurrífandi hugsunum og skipta þeim út fyrir jákvæðar og uppbyggjandi hugsanir sem gefa okkur gleði.

Uppskrift þeirra sem eru búnir að höndla hamingjuna

Og svona að lokum til að árétta tilganginn með þeim hugsanabreytum ætla ég að telja upp 21 atriði sem samkvæmt skilgreiningu hins umdeilda Dr.Mercola einkenna þá hamingjusömustu og jákvæðustu.

Í fyrsta lagi þá kunna hinir hamingjusömu að fyrirgefa,

Þeir eru vingjarnlegt við alla menn.

þeir líta á vandamálin sem verkefni

Og eru þakklátir fyrir það sem þeir eiga og hafa.

Þá dreymir stóra og mikla drauma.

En eyða ekki orkunni í pirring eða áhyggjur af því sem ekki skiptir máli.

Þeir tala vel um annað fólk.

Forðast afsakanir.

Og lifa í núinu.

þeir vakna á sama tíma alla morgna, eru reglusamir og hugsa vel um heilsu sína og útlit.

Bera sig ekki saman við aðra.

Skeyta ekki um það hvað öðrum finnst.

þeir gefa sér tíma til að hlusta án þess að ætla að bregðast við því sem þeir heyra.

Duglegir að rækta vinskap.

Og þeir stunda andlega iðkun af einhverju tagi.

þeir borða hollan og góðan mat.

Og þeir hreyfa sig.

þeir fækka stressþáttum lífsins með því að einfalda það.

Þeir eru heiðarlegir.

Og sýna sjálfsaga.

Og að lokum þá viðurkenna þeir þá hluti sem þeir fá ekki breytt og sleppa tökum á þeim.

Þannig að ég hvet okkur öll til að verða meðvitaðri um neikvæð hugsanamynstur okkar og breyta þeim okkur í vil því það skiptir bara svo ótrúlega miklu máli þegar litið er til andlegra og veraldlegra lífsgæða okkar. Ég vona að ég hafi ekki alveg gengið frá þér með leiðindum kæri lesandi en 

En ef ég get aðstoðað þig á þinni leið til breytinga þá hafðu endilega samband.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira