c

Pistlar:

28. febrúar 2018 kl. 13:19

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Góð fjölskylda er gulli betri

Eftir því sem ég verð eldri og vitrari geri ég mér meiri og betri grein fyrir mikilvægi þess að eiga góða fjölskyldu og sterk fjölskyldubönd og ég hreinlega elska þær stundir þar sem fjölskyldan öll kemur saman í gleði og eins þegar á bjátar. 

En þessi góðu og fallegu bönd sem við sækjumst svo mikið eftir að eiga eru langt í frá sjálfsögð og mikið þarf að hafa fyrir þeim ef vel á til að takast.

Þau gildi sem einkum einkenna sterkar samheldnar fjölskyldur að mínu mati eru nokkur og ætla ég að minnast á einhver þeirra hér.

Hvort sem fjölskyldan er blóðtengd eða ekki er hún fyrst og fremst byggð upp með ást og virðingu allra meðlima hennar ásamt því að hver og einn verður dag hvern að velja að vera partur af liðsheildinni og verja hagsmuni hennar ef þarf.

Að starfa að velferð heildarinnar með kærleikann að vopni er aðal innihaldsefnið sem nota þarf að ég tel og svo sannarlega innfelur kærleikurinn svo ótal margt í sér eins og við svo sem vitum ef við skoðum það.  

Kærleikurinn veitir stuðning og athygli og er í reglulegu sambandi við þá sem eru innan hans banda. Hann leggur sig einnig fram við að láta öllum líða eins vel og hægt er á hverri stundu, og jafnvel krefst hann fórna eins og að gefa af takmörkuðum tíma okkar, láta af okkar stóra ég-i, breyta fyrirætlunum og fleira, allt þó innan vissra skynsemismarka.

Við byggjum semsagt upp fjölskyldueiningu með því að annast, huga að, hlusta og vera til staðar allan ársins hring, og svo þurfum við kannski að elska mest þegar aðilarnir eiga það minnst skilið (án sjúklegrar meðvirkni þó). 

Að gefa öllum frelsi til að byggja upp sitt eigið líf á eigin forsendum er einnig nauðsynlegt að styðja við, og við foreldrar þurfum víst stundum að læra að sleppa tökum á börnum okkar og þeirra ákvörðunum varðandi sitt líf, og þau að sama skapi þurfa stundum að gera slíkt hið sama gagnvart foreldrunum sínum.

Allir þrá að vera samþykktir af sínum nánustu eins og þeir eru og ekkert er eins sárt og að finna andúð frá þeim sem við elskum vegna þeirra skoðana og lífsviðhorfa sem við höfum.

Fjölbreytileikinn innan hópsins í skoðunum,lífsviðhorfum og fl. er einmitt það sem gerir fjölskylduna líflega og skemmtilega og því ber að fagna því að við erum ólík.

Hvergi er hægt að öðlast jafn mikla æfingu í því að sleppa tökum á ýmsu sem við viljum þó svo gjarnan hafa stjórn á en í fjölskyldum. Við lærum semsagt að sýna umburðalyndi og skilyrðislausan kærleika í verki þar, en oft reynist það þó hægara sagt en gert. (þeim var ég verst sem ég unni mest)

Að byggja upp meðlimi fjölskyldunnar með fallegum orðum og athöfnum ætti að vera stór partur af því að móta þessa hamingjusömu einingu og ættu allir meðlimir hennar að vera duglegir að segja hver öðrum það góða og fallega sem þeir sjá í fari hvers annars.

Að sjá styrkleikana og fókusa á þá í stað þess að sjá gallana er einnig hálfgerð skylda þeirra sem innan fjölskyldunnar eru, þó að svo sannarlega þurfi stundum að taka samtalið og benda á það sem gæti orðið til eyðileggingar og leggja til betri leiðir þar. (Sá er vinur er til vamms segir)

Að styðja við fyrirætlanir fjölskyldumeðlima og standa við gefin loforð er einnig nauðsynlegt að gera svo að hægt sé að byggja upp traust innan þessara banda.

Að vera til staðar þegar lífið reynist ekki svo gott hjá einhverjum meðlima fjölskyldunnar er ekki bara nauðsynlegt heldur ætti að vera sjálfsagður partur af mannlegum kærleika og samhug sem við ættum að sýna mun víðar en í fjölskyldutengdum böndum.

Nú svo er það virka hlustunin og allar gleði og gæðastundirnar sem eru svo mikilvægar, öll matarboðin, veislurnar, heimsóknirnar, símtölin og snöppin sem eru svo ómetanleg og gefa meðlimum fjölskyldunnar tilfinninguna um að þeir tilheyri og séu elskaðir sem skiptir bara svo óendanlega miklu máli upp á andlega líðan allra, og hvergi er betra að tilheyra og að vera elskaður en innan sterkra fjölskyldubanda. 

Nú svo er það síðasta gildið sem mig langar að nefna að lokum eða rúsínan í pylsuendanum sem er- Fyrirgefningin!

Fyrirgefningin sem við fáum innan fjölskyldu okkar þegar við misstígum okkur og bregðumst er svo óendanlega mikils virði og hvergi líklega jafn mikils virði að mínu mati, og gott er að fá að sleikja sárin sín í kærleiksríku andrúmi fjölskyldunnar sem gefur þér lækningu og líkn með skjóli sínu.

Svo fyrirgefum mikið og elskum mikið er líklega það boðorð sem við ættum hafa í hávegum innan fjölskyldu okkar og þakka svo fyrir hana daglega af einlægni og með opnu kærleiksríku hjarta. 

Elskum - Njótum - Hlustum - Virðum

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira