c

Pistlar:

26. mars 2018 kl. 12:34

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Þegar lífið brotnar

Þó að í dag eigi ég gott og gjöfult líf þá hef ég oft staðið frammi fyrir áskorunum lífsins og á alveg örugglega eftir að þurfa að gera það aftur ef ég þekki þetta líf rétt :) Það sem þær áskoranir hafa kennt mér er margt og mikið eins og t.d. að taka lífinu með hæfilegu kæruleysi, vera í núinu, sleppa tökum á fortíðinni og standa svo upp aftur þegar ég hef safnað nægum krafti og gleði til þess að sækja fram.

Þegar við stöndum á þeim stað að allar áætlanir og allt það sem við ætluðum okkur að yrði svo gott hjá okkur hrynja eða brotna þá stöndum við frammi fyrir vali. Við höfum val um að standa brotsjóinn af okkur eða  brotna, og ég hvet okkur öll til að velja það að standa upp og muna að ALLT samverkar okkur til góðs að lokum þó að við sjáum það ekki alveg þegar við erum inni í miðju stormsins. Þar eigum svo erfitt með að ímynda okkur og sjá að góðir dagar muni heimsækja okkur á ný, en þeir munu gera það engu að síður - lofa :)

Á þessum tímabilum er gott að hafa í huga að við þurfum að virða allar okkar tilfinningar og eins ættum við að muna að engin þeirra er óleyfileg. Hinsvegar er gott að hafa í huga að þær tilfinningar sem tengjast gleði og jákvæðni ættum við að leita sem oftast að í brjósti okkar og dvelja í þeim eins mikið og hægt er en leyfa hinum erfiðu að staldra styttra við. 

Að búa til gleðistundir með þeim sem okkur þykir vænt um er það sem gefur okkur orkuna og kraftinn til að standa upp að nýju svo sköpum þær í ríkum mæli.

Leitum til fjölskyldu okkar og vina því að þeir munu vera til staðar fyrir okkur og aðstoða okkur við að sjá ljósið sem skín þrátt fyrir allt í gegnum brotin okkar og munum að þetta sama ljós mun skína skærar frá okkur eftir því sem brotin okkar verða fleiri, því að það er nú svo merkilegt að þeir sem hafa mest að gefa eru oftast þeir sem lífið hefur farið ómjúkum höndum um.

Munum að við erum alltaf nægjanlega góð þó að líf okkar sé í brotum og munum að við eigum skilið allt það besta sem það hefur að gefa sama hvað. Á morgun kemur nýr dagur með nýjum loforðum og nýrri byrjun fyrir okkur öll og ég hvet okkur til að nýta okkur þessa gjöf til hins ýtrasta.

Lífið er eins og hjartalínurit, það eru hæðir og lægðir og allt þar á milli sem er hinn náttúrulegi taktur lífsins og það er svo gott að geta hugsað þannig að allt líði hjá, allir topparnir og lægðirnar og einnig það sem er í gangi hjá okkur sjálfum hverju sinni.

Skoðum ávallt hvað það er sem við getum lært nýtt og gagnlegt af lífinu í öllum aðstæðum þess, og ekki síst þegar aðstæðurnar eru ekki góðar og vondir tímar hafa tekið völdin. Við munum í flestum tilfellum uppgötva að sá lærdómur sem við tókum með okkur út úr aðstæðunum er ómetanlegur og gerir okkur að betri og vitrari manneskjum ef við leyfum okkur að njóta lærdómsins en sleppum biturleikanum og eftirsjánni sem sumir velja að taka frekar með sér og nýta sér og öðrum til ógagns.

Munum og setjum fókus okkar á að allt það besta bíði okkar allra, hugsum þannig og tölum það út og treystum svo því að þegar einar dyr lokist opnist alltaf aðrar betri eða meira spennandi.

Finnum aftur tilganginn sem leynist í hjörtum okkar og förum af stað aftur með von í brjósti, kærleikann sem yljar, sköpunarkraftinn að vopni og sigrum svo bara heiminn á ný! 

Gefumst aldrei upp því að eins og ég sagði, á morgun er nýr dagur sem við getum gert að betri degi og ef þig vantar aðstoð mína þá er ég bara einu emaili og tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

linda@manngildi.is 

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira