c

Pistlar:

2. maí 2018 kl. 12:53

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Átt þú skilið að eiga gott líf?

Það er í raun ómögulegt fyrir manneskjuna að finna sjálfa sig á þessum tímum árangurs, gerviútlits, raunveruleikaþátta og fyrirmynda sem snúast helst og nánast eingöngu um hvernig má ná veraldlegum árangri og betra útliti að mínu mati.

Sem aldrei fyrr eru unglingar mataðir alla daga á því hvernig þeir "eigi að vera" í stað þess að vera mataðir á eigin styrkleikum og verðleikum og svo skiljum við ekkert í því hvers vegna börnin okkar eru kvíðin og óhamingjusöm sem aldrei fyrr þó að ekkert skorti. 

Fræðsluna um lífið og gjafir þess skortir að mínu mati og viska þeirra sem eldri eru og lífsreyndari kemst allt of sjaldan til skila til þeirra sem á þurfa að halda vegna þess að samverustundir fjölskyldunnar verða alltaf færri og færri og gæði þeirra fara því miður einnig oft minnkandi því að dagskráin er svo þétt.

Að hlusta á visku fyrri tíma er ekki í tísku á þessari tölvuöld og það hryggir mig að við skulum vera tilbúin til þess að láta heiminn fara svona með okkur.

Ég sjálf þarf að skoða mig í þessu samhengi og gera betur, en ég er þó meðvitaðri um mig og hvað það er sem gefur raunverulega hamingju í dag en ég var hér áður fyrr.

Við þekkjum örugglega flest einhvern sem hefur lent í "burnout" ástandi sem því miður er allt of algengt í dag og skrifast nánast eingöngu á það að ekki er hægt að sinna öllum kröfum nútímans og okkar sjálfra svo að vel sé.

Ég þekki a.m.k. vel til þessa málaflokks og veit hversu mikilvægt það er að finna jafnvægi inn í þessar aðstæður svo að hægt sé að njóta lífsins með ró í hjarta. Jafnvægi þarf að myndast á milli starfa, fræðslu og hvíldar, að sinna sjálfum sér og sinna öðrum með ró en ekki í ójafnvægi.

Margir leita í hugleiðslu, núvitund og aðra þætti sem eiga að núllstilla lífið, en finna þó ekki frið og hugarró. Hversvegna ætli svo sé?

Að mínu mati (sem þarf þó ekki að endurspegla skoðun fjöldans) er það vegna þess að við erum í sífelldu kapphlaupi við að uppfylla standarda heimsins og þeir eru einfaldlega að bera okkur ofurliði!

Einfalt...

Og ef við leyfum okkur að skoða þetta hlutlaust þá hljótum við að sjá að við sjálf og börnin okkar eru án eðlilegs frítíma og gæðastunda.

Börnin okkar eru í flestum tilfellum komin í hendurnar á ókunnu fólki á fyrsta aldursárinu og þar byrjar það sem ég kýs að kalla þrælahaldið. Full vinna frá heimilinu og að vinnudegi loknum (sama hvort að við erum að tala um dagmömmur, leikskóla, skóla) taka við íþróttir eða aðrar tómstundir því að allir þurfa að skara framúr á einhverjum sviðum. Og að loknum vinnudegi hjá foreldrunum tekur við búðarferð, matartiltekt, þrif, heimalærdómur barnanna og uppeldið sjálft, og í sumum tilfellum bíður bara meiri vinna eftir þeim sem ekki var hægt að klára deginum til. 

Hvenær var það sem við hættum að meta hlutverkið foreldri? Hvers vegna í ósköpunum finnst okkur það minna virði en önnur störf þjóðfélagsins? Hvenær ætlum við að sjá að komandi kynslóð og kennslan til hennar er það sem ætti að leggja alla áherslu á? Hvenær ætlum við að fara að launa foreldrum fyrir þetta starf og hvetja þá til þess að sinna því á fullum launum og bónusum?  

Ég veit að sumum finnst ég hörð og óvægin þarna og það má vel vera að svo sé, en ég sé hversu mikil vöntun er á athygli, umönnun og gæðastundum hjá börnunum okkar í dag og ég held að við hreinlega verðum að fara að snúa þessari öfugþróun við og leita að gömlu góðu götunum í þessu sambandi. Að fara að finna jafnvægið á milli vinnu, eignamyndunar og barnanna sem eru þegar allt kemur til alls einu raunverulegu fjársjóðirnir okkar. 

Hamingjuna er ekki að finna í útbólgnum bankabókum eða virðingaverðum starfstitlum, verðlaunagripum né öðru veraldardóti, það hljótum við að vera búin að uppgötva fyrir löngu síðan. Og þó að gaman sé þegar þetta allt er einnig til staðar eru verðmætin okkar falin í öðru og mikilvægara.

Að vernda hjarta okkar líkama og sál og að gefa okkur rými fyrir þá hluta tilverunnar sem skapar okkur vellíðan og jafnvel þekkingu á okkur sjálfum og því hver við raunverulega erum, persónuleika okkar, gildum og því hvernig við lifum samkvæmt okkar gildum er það sem ég tel að heimurinn þarfnist nú meir en nokkru sinni fyrr. 

Tökum þetta í gegn hjá okkur og hættum að lifa samkvæmt stöðlum raunveruleikaþátta nútímans, verum VIÐ eins og við erum og stoppum þessa vitleysu. Hættum að gera gæðastundirnar sem við þó gefum okkur árangurstengdar með því að ganga 10 þúsund skref í göngutúrnum, eða að keppast við kílómetratalninguna og kaloríumælinguna á hlaupabrettinu í ræktinni.

Njótum þess heldur að fara með okkar nánustu í göngur sem sýna okkur fegurðina, viskuna og kraftinn sem í náttúrunni býr, og upplifum þau undur sem eru allt um kring ef við bara gefum okkur tíma til að líta upp úr tímaskipulaginu okkar.

Förum kannski aðeins aftur á bak og finnum okkur sjónvarpslaus kvöld, kertaljós, spil og spjall, gönguferðir þar sem samvista við náttúruna er notið, sækjum okkur kraft í hana og þökkum fyrir það að fá að vera hér og njóta - og drögum svo bara andann í ró inn og út.

Og ef þig vantar aðstoð við að fá jafnvægi á þitt líf er ég bara einni tímapöntun í burtu :)  

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda 

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/markþjálfi

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira