c

Pistlar:

1. október 2018 kl. 15:55

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hvernig getum við gert seinni sambönd okkar góð

Samkvæmt Gottman hjónunum sem starfrækja Gottman stofnunina (sem talin er ein sú virtasta þegar kemur að samböndum og rannsóknum á þeim), þá eru það nokkur atriði sem virðast skera úr um möguleikana á því að seinni sambönd geti orðið góð og jafnvel betri en þau fyrri, og ætla ég að skrifa aðeins um nokkur þeirra hér.

Við vitum að skilnaðartíðnin er hærri í seinni samböndum en þeim fyrri og munar allt að 10% á þeirri tíðni eða í stað 50% skilnaðartíðni fyrsta hjónabands fer hún í 60% í seinni samböndum, ekki neitt sérlega spennandi líkur þarna á ferð fyrir okkur sem erum enn í leitinni að hinum fullkomna maka.

En ef við gætum að okkur og förum eftir þeim ráðum sem rannsóknir Gottmans bjóða uppá getum við kannski breytt þessum hlutföllum og jafnvel lifað happily ever after með seinni mökum okkar og því er um að gera að skoða þessi ráð vel.

Og hér er uppskrift að 10 atriðum sem Gottman telur vænleg til að gera seinni sambönd lífvænlegri og endingabetri.

Ekki gagnrýna maka þinn: Í stað þess skaltu láta maka þinn vita af þörfum þínum á jákvæðan hátt og forðast að nota þú þú þú setningar. Að tala um sjálf málefnin er þannig betra en að vera að vera með persónulega gagnrýni og árásir á makann.


Að læra hvernig lagfæra má eftir átök: 
Ekki geyma með þér pirring og vanþóknun. Ágreiningur er óumflýjanlgur í flestum tilfellum á milli hjóna og þar sem ágreiningur verður ekki er hætta á stöðnun í sambandinu. En það sem þarf að forðast er að fara í vörn, sýna fyrirlitningu með því að ranghvolfa augunum, hæðast að og kalla makann öllum illum nöfnum eða sýna honum fyrirlitningu með öðrum hætti.

 
Forðast að ráðast á persónuleika makans og reyna að halda sig við nútíðina:
Hafðu fókusinn á því umræðuefni sem byrjað var með og spurðu sjálfan þig "hverju er ég að reyna að ná fram". Munum að reiði er yfirleitt tengd særindum ótta og óöryggi svo haltu þig við að hafa hlutina í réttu samhengi í stað þess að fara í ádeilur á makann.

Auktu til muna líkamleg atlot og ástúð:
Ekki gleyma að kúra saman í sófanum eða koma makanum á óvart með óvæntum kossum eða öðrum hætti. Og þó að þú sért ekki týpan sem ert mikið fyrir þetta þá er það engu að síður staðreynd að þetta hjálpar við að halda sambandinu og þeim ástarböndum sem þar finnast á endingagóðum nótum.

 
Að byggja upp sameiginleg áhugamál með maka þínum:
Reynið að finna ykkur nokkur sameiginleg áhugamál sem veita ykkur ánægju og ekki gleyma að sýna áhugamáli makans áhuga þó svo að þau séu ekki þín áhugamál. 

Nærðu væntumþykju og aðdáun:
Minntu þig á jákvæða eiginleika maka þíns jafnvel á sama tíma og þú átt í útistöðum við hann. Tjáðu þig reglulega upphátt og helst oft á dag um þessa jákvæðu eiginleika. Finndu og leitaðu að því sem sameinar ykkur en ekki því sem sundrar ykkur. 

Vertu berskjaldaður og fullkomlega heiðarlegur um lykilatriði sambands ykkar:
Talaðu um þarfir þínar og áhyggjur. Tjáðu hugsanir þínar, tilfinningar og þarfir á virðingaverðan hátt, það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar hlutunum er sópað undir teppið eða að grafa neikvæðar tilfinningar sem innra með þér búa.


Taktu ábyrgð á þínum þætti í ágreiningnum:
Það getur breytt andrúmsloftinu í sambandinu. Dr Julie og John Gottman skrifa: “Viðbrögð annars aðilans breyta hreinlega heilabylgjum hins aðilans”  Biddu afsökunar þegar það á við því að það mun auðvelda fyrirgefningu og gefa hinum aðilanum fullvissu um að tilfinningar hans séu virtar.


Ekki leyfa sárunum að rótfestast: 
Skoraðu flóttahugsanir þínar á hólm og hættu að halda í vondar tilfinningar. Hlustaðu á maka þinn og hans hlið og mundu að við höfum öll einhverjar hliðar sem við erum ekki svo ánægð með að hafa. Með því að gefa maka þínum leyfi til að hafa sína galla þurfum við ekki lengur að halda í fyrirlitningu okkar eða að reyna að stjórna þeim í þá átt sem við viljum að þeir fari.

 
Segðu fyrirgefðu og iðkaðu fyrirgefningu:
Segðu afsakið þegar þú hefur sært tilfinnignar maka þíns í þeim tilgangi að færa ykkur frá ágreiningi. Að vera fyrirmynd fyrir börnin okkar með þessum hætti auðveldar þeim að læra rétt viðbrögð í ágreiningi framtíðar þeirra. Reyndu svo að muna að þú og maki þinn eruð saman í liði og reyndu að vera eins skilningsríkur og þú treystir þér til hverju sinni. Það þýðir þó ekki að þú samþykkir særandi orð og framkvæmdir eða látir af eigin mörkum, en það gefur þér hugarró og yfirsýn sem færir vald þitt til þín. 

Í seinni samböndum eru mörg flækjustig og stressþættir sem gera það að verkum að ástin og væntumþykjan getur tapast. En mundu næst þegar þú lendir í ágreiningi við maka þinn að virða hans viðbrögð og skoðanir þó að þær falli ekki að þínum og síðan er bara að vinna að því að yfirstíga vondar tilfinningar og líðan og halda áfram að vinna að jafnvægi og ást sambandsins. 

Þannig að ég ætla að enda þennan pistil minn á því að minna okkur öll á það að grasið er sjaldan grænna hinu megin og við tökum alla okkar galla og viðbrögð með okkur inn í næstu sambönd þannig að það kannski borgar sig að hlusta á þessi ágætu hjón sem rannsakað hafa þá þætti sem gefa samböndum líf sitt, nú eða dauða þess.

Og eins og ávallt þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu ef eitthvað af þessum atriðum þarfnast skoðunar í þínu tilviki.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira