c

Pistlar:

9. júlí 2018 kl. 20:05

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Að setja mörk fyrir líf sitt

Ég hef lesið hinar ýmsu greinar sem fjalla um mikilvægi þess að setja mörk eða ákveðnar línur í samskiptum til að tryggja virðingu þína og annarra í leiðinni fyrir þér og því hver þú ert. 

Sumum reynist afar auðvelt að setja sjálfum sér og öðrum mörk en svo eru það hinir sem vilja halda friðinn við allt og alla en ganga á sjálfa sig þess í stað og líðan þeirra er oft slæm og þeir búa allt of oft við kvíðaröskun og vanlíðan vegna meðvirkniviðbragða sinna.

Og svona rétt til að minna aðeins á algengar birtingamyndir meðvirkninnar þá eru þær t.d. að það má ekki tala um vandamálin nema þú viljir hætta á það að vera partýpuberinn í fjölskyldunni eða vinahópnum, og þú átt á hættu að fá reiði eða hunsun frá þeim sem staðið getur yfir í mislangan tíma. Eins er ekki smart að tala um tilfinningar sínar, þær á að loka á og ekki sýna né tala opinskátt um. Samskipti eiga að vera óbein og gjarnan að fara fram í gegnum þriðja aðila. Best er að vera óaðfinnanlegur út í frá og hafa alltaf rétt fyrir sér, því að allt annað ber vott um veikleika. Ekki vera heldur of upptekinn af þér, sjálfselska er nefnilega leiðinleg og því hrósum við helst ekki, og við viljum ekki heldur að aðrir tali um kosti sína og afrek. Eins er afar algengt að það eigi að gera eins og ég segi, en alls ekki eins og ég geri, og við ruggum ekki bátnum undir neinum kringumstæðum því að allt þarf að lúkka svo vel út í frá.

En aftur að þeim mörkum sem við setjum fyrir líf okkar og hver eðlileg mörk samskipta eru samkvæmt skilgreiningu Johnson State Collage í Vermount. Samkvæmt þeirra skilgreiningu eru mörk tilfinningalegt og líkamlegt bil á milli þess hvar þú sem persóna endar og annar byrjar og öfugt. Þetta er lína sem við setjum og leyfum engum að fara yfir vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem gætu myndast við að stigið sé yfir hana. Við þurfum nefnilega að fá að vera við sjálf.

Mörk eru semsagt óskrifaðar reglur sem þeir sem eru í samskiptum við okkur þurfa að bera virðingu fyrir, og þeir þurfa að gefa okkur það tilfinningalega og líkamlega bil sem við þurfum án þess að verða fyrir pressu um sveigju frá þeim reglum af þeirra hálfu. Tilfinningalegt, munnlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi eru atriði sem eru skilyrðislaus brot á mörkum einstaklinga og ætti alltaf að taka föstum tökum. 

Heilbrigt tilfinningalegt og líkamlegt bil þarf að vera á milli aðila til að forðast að aðilarnir verði of tengd og háð. Heilbrigð tilfinningaleg og líkamleg nánd er þó nauðsynleg til að mynda sterk tengsl í góðum vina og ástarsamböndum en jafnvægi í samskiptum þarf að ríkja á milli aðilanna.

Skýr heilbrigð mörk gefa okkur frelsi til að vera við sjálf án þess að hömlur séu lagðar á okkur varðandi hugsanir okkar, tilfinningar, framkvæmdir og fleira. Heilbrigð mörk eru það sem gefa okkur og öðrum öryggi og vitneskju um hver við erum og eins skylda þau okkur til að hugsa vel um okkur og vernda.

Mörk gefa okkur leyfi til að vera meira af því sem við viljum vera en minna af því sem við viljum ekki vera.

Ef mörkin eiga að virka þá þurfa þau að vera sönn og rétt fyrir okkur fyrst og fremst og við þurfum að standa á þeim.

Það sem við græðum á því að setja mörk er fyrst og fremst að við stuðlum að eigin heilbrigði og þeirra sem í kringum okkur eru. Frelsi frá vondri hegðun annarra, ótta og sársauka.

Eins ber fólk virðingu fyrir þeim sem setja mörk fyrir líf sitt og okkar eigið virði eykst þegar við stöndum með okkur og þeim mörkum sem við setjum.

Þar sem mörk eru hinsvegar ekki virt má gjarnan sjá að allir verða að vera eins, enginn má skera sig úr og allir gera allt á sama hátt. Ekkert rými er fyrir sjálfstæðar hugsanir og tilfinningar og þær gjarnan litnar hornauga.

Þær aðstæður sem algengar eru að setja þurfi sterk mörk við eru þar sem reiðiviðbrögð eru algeng nálgun í stað umræðna, eða þar sem óviðeigandi orð eru notuð og þar sem gagnrýni á okkur sem persónur eða lítillækkun á annan hátt er notuð. þar sem það er talið sjálfsagt að ekki sé sagt nei í hinum ýmsu aðstæðum þarf að læra að segja nei - og standa síðan við það. Eins þarf stundum að setja mörk í sambandi við peningamál eða umönnun af ýmsu tagi og það eiga þeir sem meðvirkir eru oft afar erfitt með.  

Og ef við erum ekki alveg með þetta allt á hreinu og þurfum að læra að setja okkur sjálfum eða öðrum mörk þá skulum við lofa okkur því að standa við þau mörk sem við lærum að setja hversu erfitt það þó stundum reynist, en munum þegar freistingin til að slaka á þeim er mikil að þessi mörk voru sett til að vernda okkur með einhverjum hætti og aðra stundum í leiðinni. 

Að endingu elskurnar skulum við muna að það sem lítillækkar okkur, lætur okkur líða illa, þar sem við þurfum að læðast og passa okkur á því að halda öðrum en okkur góðum eru ekki góð samskipti, og undir öllum kringumstæðum þurfum við að setja mörk inn í þær aðstæður til að okkur geti liðið vel í eigin skinni.

Og ef þið þurfið aðstoð við að setja mörk inn í aðstæður lífs ykkar þá er ég eins og ætíð aðeins einni tímapöntun í burtu.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira