c

Pistlar:

31. desember 2019 kl. 11:57

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Nýtt ár - nýtt upphaf

Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka“ eða eins og stóð á jólakortinu sem dóttir mín sendi mér "Glad this fucking year is over, Merry Christmas" 

Gæti ekki verið meira sammála því sem þarna stóð hvað þetta ár varðar og er afar glöð að kveðja ár sem hefur einkennst af dansi byrjana, endaloka, lífs og dauða í mínu lífi. 

Árið reyndist mér erfitt á margan hátt og margt sem skildi mig eftir vonsvikna,dapra og trúlausari á mennina og eins á kerfið okkar og þjóðfélag. Líklega er það þó þannig að tannhjól tímans þarf að smyrja reglulega með blóði,svita og tárum svo að það snúist af stað inn í góða tíma og mitt hjól og þjóðarinnar allrar er vonandi orðið vel smurt fyrir glimmerstundir næsta árs. 

Ég er engu að síður þakklát fyrir ýmislegt sem gerðist á árinu 2019 og líklega er ég þakklátust fyrir að árið hafi opnað augu mín fyrir mörgu sem ég gerði mér ekki grein fyrir áður, segi eins og Maya Angelou sagði, "þegar lífið er erfitt og þú er við það að bugast segðu þá takk" og ég segi bara takk fyrir mig og alla þá kennslu sem ég fékk þetta árið.

Hjarta mitt stækkaði um tvö númer þegar ég fékk tvo litla ömmustráka sem fæddust á fyrstu mánuðum ársins og fyrir þá er ég svo sannarlega þakklát. Svo er ég svo óendanlega þakklát þeim sem studdu mig það hálfa ár sem rændi mig allri orku og fyllti mig sorg. Sannkallaðir vinir sem gáfu vinnu sína og jafnvel fjármuni til að styrkja mig og létta mér þessa göngu, lögðu á sig ferðalög utan af landi til að mæta til kirkju þegar móðir mín var jarðsett, útbjuggu blómaskreytingar,veitingar og fleira. Barmafullt hjarta af þakklæti á ég til þeirra.

Börnin mín stóðu sig eins og hetjur á erfiðleikastundunum og hafa sjaldan gert mig jafn stolta vegna þess undraefnis sem þau eru gerð úr, og svo eiga þau þennan undurfagra kærleika sem þau sýndu í miklu magni, stoltmamma.is.

það kemur einhvernvegin svo innilega í ljós á svona tíma hverjir eru til staðar og hverjir láta sig hverfa þegar gleðin yfirgefur húsið,og það kemur líka vel í ljós hverjir gera bara það sem gera þarf og það segir einhver spekingurinn að sé hið fullkomna form samkenndar.

Þegar heilbrigðiskerfið brást illilega og ekki var pláss fyrir hrædda gamla dauðvona konu þar (minnir á gistihúsið í Betlehem) tóku dóttir mín og tengdasonur móður mína inn á heimili sitt og fórnuðu þannig hluta af fæðingarorlofinu sínu -þar sönnuðu þau fyrir mér mikilvægi "þorpsins" en ekki kerfisins.

Við andlát mömmu fékk ég svo nýtt og ábyrgðafullt hlutverk sem höfuð fjölskyldunnar og mun gera mitt besta til að sinna því vel. 

Í dag geri ég mér betur grein fyrir því að afkomendur mínir eru samfélagið sem ég mun ætíð hafa í fyrsta sæti, enda það hlutverk sem almættið gaf mér og bað mig um að sinna af alúð. Þar á eftir koma vinirnir því að mikilvægt er að sinna þeim einnig vel.

Á þessum tímamótum lífs og dauða fann ég svo sterkt fyrir því hversu stutt er á milli heima og ég gat nánast snert á eilífðinni, skynjaði vel hvernig þessi þunna hula á milli heima varð að engu, en gerði mér á sama tíma grein fyrir því hversu dýrmæt þessi gjöf  lífsins anda er, og hversu vel við ættum að huga að þeirri gjöf, (hver andardráttur er þannig til áminningar um gildi lífsins).

Þetta tímabil fékk mig einnig til að hugsa um hvað það væri sem raunverulega skipti einhverju í stóra samhenginu og fann að eins og áður verð ég að velja þar í fyrsta sæti gefandi og góð samskipti og velti því fyrir mér hvort við séum að gera okkur nægjanlega vel grein fyrir því að við erum öll eitt, þín velgengni og hamingja byggist á mér og mín á þér, eða upplifum við okkur kannski enn í dag sem aðskilin frá heildinni?

Þar held ég raunar að stóra blekkingin okkar liggi, vísindin og trúarrit segja okkur að við séum ofin úr sama efni og alheimur allur eða efnisleysinu (orku - anda). Erum semsagt eitt í einni veröld, ekkert sem getur skilið okkur frá, greinar á sama stofni og allt sem við gerum okkar minnstu bræðrum hefur sínar afleiðingar á heildina og þar með á okkur sjálf. Þetta hafa allir mestu meistarar heimsins sagt okkur frá örófi alda og flest höfum við heyrt um lögmál sáningar og uppskeru eða karmað. Hvet okkur á þessu nýja ári að hugsa svolítið um þetta.

Ég hef áður talað um að við erum ekki að gera góða hluti með upplausn fjölskyldunnar og samfélagi þar sem allir búa einir án afskipta þorpsins og ég held satt besta að segja að við þurfum jafnvel að hafa meiri áhyggjur af þeirri þróun en menguninni sem hlýst af flugferðum okkar og gætum hugað að því að hafa jafn hátt um það og loftslagsmálin.

Og ég hef einnig talað um að við ættum að lifa því lífi sem við finnum í hjarta okkar að okkur var ætlað og ættum ekki að láta stjórnsemi þeirra sem vilja hafa okkur eins og strengjabrúður í boxi hafa áhrif á þau hlutverk okkar. Hvert og eitt okkar skiptir máli og við ættum að huga að heildinni með því sem við finnum í hjarta okkar að er okkar hlutverk í lífinu, það er alltaf farsælast. Hugsum einnig betur um gamla fólkið okkar og börnin, þau þarfnast ástar, umhyggju, staðfestu, öryggis og hlutverka frá heildinni. 

Ég trúi að það sé mikilvægt fyrir okkur að leika okkur og að gleðjast, því að þetta líf líður svo ógnarhratt svo sköpum glimmerstundir.

Ég trúi að það sé nauðsynlegt að tengjast náttúrunni og anda henni að sér til að skilja eðli lífsins. Að horfa á og upplifa náttúruna gefur okkur tengingu við allt sem er og hvergi hef ég betur séð mátt skilyrðislauss kærleika en þar. Allt lifir þar í jafnvægi og einingu óhæð öllu en þó svo háð öllu á sama tíma, allt hefur sitt sértaka hlutverk og þar verður td allt grænna og gróðursælla eftir erfiðleikatímabil eldgosa og flóða.

Við gætum lært ýmislegt af þeim kærleika og samstöðu sem þar er sýnileg í stað þess að eyða tíma okkar í útásetningar,aðgreiningu og stjórnsemi sem virðist vera okkur samt svo tamt að nota frekar þó að það síðan aðgreini okkur þannig að við náum ekki fram þeim málum sem við þó viljum svo gjarnan fá fram sem heild.

Núna lengist dagurinn um nokkrar mínútur frá degi til dags og við fögnum ljósinu sem færir okkur nær sumri. Gleymum ekki að við erum ljós í heiminum og þurfum að vernda það ljós og þann anda sem við fengum í vöggugjöf.

Það þýðir að við þurfum stundum að ganga í burtu frá þeim sem vilja slökkva það ljós svo vöndum val okkar á þeim sem við umgöngumst og gerum að áhrifavöldum í lífum okkar. 

Heitum okkur því á þessu nýja ári að njóta þess að fá að vera hér, að elska eins og enginn sé morgundagurinn, að gefa og þiggja, að hrósa, að hlusta og þakka fyrir allt það góða sem okkur gefst, þökkum einnig fyrir lærdóm tímabilanna sem okkur finnast ekki svo góð en breyta okkur þó og þroska.

Á þessu herrans ári 2020 ætla ég að hugsa vel um það líf sem mér var gefið til anda sálar og líkama og ég ætla að elska og upplifa kærleika. Ég ætla að lifa lífinu á minn hátt en ekki láta að stjórn annarra þar. Ég ætla að blessa og þakka, færa lífinu lof fyrir hvern dag sem ég fæ og vonandi næ ég að fagna því að fylla sex áratugi hér á þessari dásamlegu jörð okkar í lok ársins.

Óska ykkur öllum farsældar,heilsu,hamingju,ástar og glimmerstunda í bunkum árið 2020 og mættu allar ykkar óskir rætast. 

Hjarta mitt er barmafullt af þakklæti og kærleika til ykkar lesendur góðir. Takk fyrir samfylgd ársins 2019.

Segjum takk við árið 2020 hvað sem það kann að færa okkur,

Xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira