c

Pistlar:

10. desember 2018 kl. 15:50

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Tengslamyndun

Vissir þú að þegar við fyllumst ótta fara að minnsta kosti 1400 líkamleg einkenni í gang og að þessi eina tilfinning hefur áhrif á a.m.k 30 tegundir hormóna? 

Þið getið rétt ímyndað ykkur áhrifin á líkamann og taugakerfið ef við erum að eiga við þessa tilfinningu á daglegum grunni og kunnum ekki eða getum ekki losað okkur við hana. Prófaðu að margfalda þessa tilfinningu 1400 x 365 eða 511.000 boðefni sem eru ekki í jafnvægi ef við finnum þessa óttatilfinningu á daglegum basis á ársgrundvelli (ef hægt er að reikna þetta þannig).

Það tekur heilann okkar einnig um 25 ár að þróast og mótast að fullu og sumir vilja meina að við séum í hálfgerðu dáleiðsluástandi fyrstu 8 ár okkar þar sem mesta forritunin frá umhverfinu fer fram. Af því getum við rétt ímyndað okkur  hversu mikilvægt það er að nánd og tilfinningalegt jafnvægi sé ríkjandi þau ár að mínu mati a.m.k.

Heilinn okkar geymir upplýsingar á sínu eigin Google Drive sem veldur því að viðbrögð okkar og viðmót verða með ýmsu móti allt eftir forrituninni sem hefur átt sér stað og þeim trúarkerfum sem við höfum byggt okkur upp um lífið frá upphafi.

Nokkur af einkennum þess að líkaminn lætur okkur vita ef hann er ekki sáttur við tilfinningalega ástandið okkar er að við finnum spennu hér og þar og allstaðar, spennu sem byggist upp og finnur sér ekki leið eða farveg út, og við verðum stödd í hálfgerðum völundarhúsi vanlíðunar.

Finnar gerðu rannsókn á því hvar tilfinningar okkar hafa mest áhrif á okkur og niðurstöðurnar má sjá á myndinni hér fyrir neðan sem ég hvet ykkur til að skoða vel og athuga hvort að þið getið tengt við ykkar tilfinningaupplifanir.

An external file that holds a picture, illustration, etc.
Object name is pnas.1321664111fig02.jpg 

En hvernig tengist svo þetta allt saman tengslum?

Jú sem betur fer eru vísindin að komast að því að heilbrigð nánd og tengsl eru nauðsynleg fyrir velferð okkar og vellíðan og það er nauðsynlegt fyrir heilbrigði andans að eiga einn eða fleiri aðila að sem við tengjumst öryggisböndum sem náttúran sjálf sér okkur svosem fyrir strax í upphafi lífs okkar, eða mömmu og pabba. 

Ef þessi tengsl rofna í æsku þá er mjög líklegt að við munum eiga við tengslavanda að eiga á fullorðinsárum okkar og reyndar er einnig líklegra að við eigum við allskyns sjúkdóma að eiga eins og streitu og vanlíðan ýmiskonar.

Í bókinni Attachment eftir Avir Levine M.D og Rachel Heller M.A þar sem fjallað er um tengsl í samböndum er sagtað við tölum of mikið um meðvirkni í samböndum.

Í þeirri bók er sagt að heilbrigð sameining felist að sumu leiti í því að við tengjumst með þeim hætti að við verðum háð hvert öðru. Þar er einnig talað um að við hér á vesturhveli jarðar séum búin að búa til hálfgerða mýtu sem snýr að því að það sé eitthvað að okkur ef við finnum okkur sjálf ekki með einveru og því að vera óháð öðrum og þurfum því ekki á tengslum að halda við aðra en okkur sjálf. 

Ég veit um fátt sem er ósannara en það að við þurfum ekki á öðrum að halda, því að hvar á tilfinningaleg greind okkar að mótast og verða til?  Þurfum við ekki á speglun, hlustun, virðingu, samskiptum, kærleika, skilningi og fleiru að halda frá þeim sem við erum í umgengni við eða bindumst kærleiksböndum svo að tilfinningagreind okkar vaxi án skekkju?

Taugafrumur okkar þurfa á speglun frá annarri manneskju að halda til að geta þroskast og mótast á heilbrigðan hátt og við sem fullorðin leitum logandi ljósi að maka og vinum vegna þess að við höfum þá þrá að tengjast mannverum sem verða vitni að lífi okkar, og þetta ætla ég eiginlega að fullyrða þó að mér líki illa við fullyrðingar!

Við getum haldið því fram að við séum svo andlega tengd að við þurfum ekki neitt nema hugleiðslu og einveru, en þar er ég mjög ósammála.

Við þurfum ekki annað en að sjá hversu þrautseig við sem óbundin eru í leit okkar að maka. Við leitum á hinum ýmsu stöðum eftir aðila sem við gætum hugsað okkur að bindast og eiga líf með, og það verður að hálfgerðu verkefni eða missioni hjá okkur ár eftir ár að skoða "markaðinn" þar til við finnum viðeigandi viðhengi sem getur orðið vitni að okkar lífi og okkar upplifunum, og við að þeirra - og hvað er það annað en að við þurfum á þessari nánu samveru við annan einstakling að halda? 

Er mögulegt að mannkynið þurfi kannski á hverju öðru að halda til að geta haldið normal geðheilsu og fengið að spegla andlega og líkamlega hlið tilveru sinnar? 

Hvað veit ég svosem? 

Það eina sem ég veit er að þegar ég fer inn á samfélagsmiðla sem tengjast þessari makaleit sé ég að við erum flest að leita að tengslum á einn eða annan hátt hvort sem okkur þykir það smart eða ekki, og hvort sem við viðurkennum það eða ekki.

Og er ekki bara kominn tími til að við horfumst í augu við það að "enginn er eyland" og að við þurfum á hvert öðru að halda til að líf okkar hafi tilgang og innihaldi hamingjustundir sem aðeins er hægt að fá í náinni samveru með annarri mannveru? 

Eða ætlum við að láta okkur nægja í framtíðinni að hverfa inn í hugleiðsluástand, þrívíddarveruleika og forðun frá samskiptum við annað fólk?

Ég reyndar tel að taugafrumur okkar, sálin og andinn að ótöldum líkamanum muni alltaf þurfa á tengslum við aðrar mannverur að halda og muni alltaf gera uppreisn gegn tengslaleysi, og því þurfum kannski ekki að hafa svo miklar áhyggjur þó að oft sýnist manni stefna í óefni í þessum málum.

Og eins og alltaf áður er ég aðeins einni tímapöntun í burtu ef þú þarft á minni aðstoð að halda með þín lífsins verkefni.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.

Linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira