c

Pistlar:

27. september 2022 kl. 12:59

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Neikvæð jákvæðni

Þessi stelpa sem þessar línur skrifar er líklega þekktari fyrir að tala fyrir jákvæðni svona dags daglega í stað þess að hvetja til þess að nota hana af varúð. og eins er hún kannski þekktari fyrir því að tala fyrir því að líta á erfiðleika sem tímabundna og yfirstíganlega. Hún viðurkennir þó að jákvæðnin getur farið yfir öll mörk og gert það að verkum að við horfumst hvorki í augu við raunveruleikann né tilfinningar okkar sem er hið versta mál.

Þetta er eins og með matinn sem við borðum, við viljum hafa mismunandi bragð af honum- sætt, súrt og allt þar á milli, og þannig ættum við að hafa það með tilfinningarnar sem okkur eru gefnar því þær eru allar mikilvægar í mismunandi aðstæðum lífsins. Jákvæðni og bjartsýni er mjög hjálpleg tilfinning í stormum lífsins en kannski þurfum við fyrst að fara í djúpu dalina þar sem við tökum út vöxt í gegnum allt tilfinningalitrófið áður en við komumst þangað. (þeir sem hafa farið í gegnum sorgarferli lífsins þekkja þetta litróf vel.)

Vinir og ættingjar vilja svo oft verða okkur til aðstoðar á erfiðum tímum en eru kannski ekki alveg tilbúnir til að heyra okkur raunverulega eða kunna illa að takast á við erfiðar tilfinningar lífsins og nota þá allskonar hjálparsetningar til að koma okkur á jákvæðari staði svo að þeim líði nú aðeins betur. Oftast er útkoman þó sú að sá sem situr í tilfinningauppnáminu finnst hann hvorki heyrður, séður né fá kærleiksríka samkennd.

Eins erum við ekki almennt meðvituð um það að tilfinningar eru eins og nokkurskonar gagnasafn sem færir okkur upplýsingar um raunverulega líðan okkar á hverjum tíma og við ættum svo sannarlega aldrei að hunsa þær með því að filtera þær með jákvæðninni ef hún á ekki rétt á sér í aðstæðunum, eða er til að breiða yfir sársauka sem betur væri tekist á við og unnið úr.

Við áttum okkur heldur ekki á því hvað sumar af þeim setningum sem við gerumst víst flest ef ekki öll sek um að nota í góðum styðjandi tilgangi geta haft áhrif í öfuga átt, og flokkast stundum hreinlega undir gaslýsingu.

Tilgangurinn er kannski góður en í leiðinni er verið að skauta yfir raunveruleika þess sem á upplifunina svo það væri gott fyrir okkur að sleppa þessum setningum eða skipta þeim út fyrir setningar eins og ég skil þig, ég heyri þig og hvernig get ég aðstoðað þig?

Hér eru nokkrar af þeim setningum sem eru algengar í notkun í þessum jákvæðnileik  okkar og setningar eins og þessar ættu kannski stundum að notast með varúð:

  • Þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar.
  • Alltaf má fá annað skip og annað föruneyti
  • Það er nóg af fiskum í sjónum.
  • Öll él birta upp um síðir.
  • Ekki vera svona neikvæð/ur.
  • Hugsaðu um það sem gleður þig!
  • Þetta gæti verið verra.
  • Öllum verða á mistök.
  • Hey bara jákvæða strauma takk!
  • Ef ég get þetta þá getur þú þetta!
  • Reyndu að vera hamingjusöm/samur.
  • Þú ættir að vera þakklát/ur fyrir það sem þú hefur.
  • Engar afsakanir, bara rífa sig í gang.
  • Lífið er of stutt til að eyða því í leiðindi!
  • Þú kemst yfir þetta!
  • Það eru margir sem hafa það miklu verra en þú og hafa gengið í gegnum verri hluti.

Hvað af þessum setningum eru hjálplegar þegar við stöndum frammi fyrir td atvinnumissi, barnsmissi, makamissi, skilnaði, óvelkominni breytingu á lífinu, veikindum, erfiðleikum í hjónabandi og svo framvegis?

Líklega eiga þessar setningar kannski stundum við og svo ég tali aðeins fyrir mig nota ég sumar af þessum í ákveðnum aðstæðum, en mitt mat er þó að í erfiðum aðstæðum lífsins geri þær stundum meira ógagn en gagn.

Ef við viljum vera til staðar fyrir okkur sjálf og aðra á tímum þar sem okkur finnst erfitt að halda í jákvæðnina ættum við kannski að byrja á því að viðurkenna og skoða tilfinningarnar nákvæmlega eins og þær eru á hverjum tíma án þess að skilgreina þær sem góðar eða slæmar – bara viðurkenna þær.

Við getum einnig gefið okkur sjálfum og öðrum þá fullvissu að við séum til staðar í gegnum súrt og sætt (ekki bara sætt) til að opna á kærleiksríkt rými sem leyfir úrvinnslu á þeim tilfinningum sem eru til staðar hverju sinni og veita síðan samkennd og kærleika ( það má líka sýna sjálfum sér samkennd og umhyggju).

Að opna á það rými sýnir að við viljum þekkja persónuna í öllu sínu veldi en ekki einungis jákvæðu eiginleika hennar eða þegar hún er á góðu tímabilum lífsins (Er hress og kát).

Ef ég ætti að gefa uppskrift að því besta sem við getum fært fram til þeirra sem eru í erfiðri tilfinningavinnslu er að nota töframeðalið hlustun. Að hlusta og hlusta og að vera til staðar án þess að hafa alltaf skoðun á því hvernig ætti að takast á við hlutina eða hvernig líðanin ætti að vera að okkar mati er dýrmætasta gjöfin sem við getum gefið í þessum aðstæðum og kannski á öllum tímum og tíðum.

Stundum er lífið bara þannig að við þurfum bara að fá að lifa einn dag í einu þar til við lifnum á ný, og höfum náð í jákvæðni okkar og jafnvægi og þar kemur hlustunin að góðu gagni (og okkur ber að virða þetta ferli).

Munum að allar tilfinningar eru leyfilegar og nauðsynlegar og allar gefa þær upplýsingar um okkur og raunverulega líðan okkar svo stöldrum við og hlustum í dagsins önn og lærum að þekkja okkur sjálf og aðra betur.

Eins og alltaf er ég svo bara einni tímapöntun í burtu frá þér ef þú þarft á minni aðstoð að halda við verkefni lífsins.

Þar til næst elskurnar verum góð við hvert annað

Xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira