c

Pistlar:

27. janúar 2023 kl. 16:06

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Er það gott eða slæmt?

Stjórnsemi er eitthvað sem við öll eigum í fórum okkar en misjafnt er þó hvernig við notum okkur hana. Á meðan einn hrópar hátt til að ná sínu fram eru aðrir sem nota mildari aðferðir og eða jafnvel fýlustjórnun til að ná sínu fram.

Í þessum pistli ætla ég að fjalla um það sem við fáum stjórnað og ekki stjórnað ásamt því að tala um sáttina og núið. 

Fyrst af öllu ber að segja að það er það ekki á okkar færi að stjórna og breyta annarri manneskju, það er ekki á okkar færi að breyta neinu nema að manneskjan sjálf ákveði að það sé í lagi að við stjórnumst í ákveðnum málefnum sem viðkoma lífi hennar.

Annað sem ég verð mjög oft vör við í þjóðfélagi okkar og þjóðfélagsumræðu í dag er að það er er ekki rými fyrir mismunandi skoðanir á málefnum, þeir rétttrúuðu hrópa hátt á þá sem voga sér að vera á móti þeirra viðhorfum og að mínu mati skortir þá þroska til að virða mismunandi skoðanir og viðhorf.

Ef við höldum að það sé á færi okkar að stjórna skoðunum, hugsunum og framkvæmdum fólks þá erum við einfaldlega í hrópandi stjórnsemi. Ég hef séð það að undanförnu að okkar annars ágæta þjóð hleypur í meðvirkni og þorir ekki fyrir sitt litla að fara gegn pöpulismanum og rétttrúnaði þeim sem tíðkast í dag. Það sem hefst hinsvegar við slíka stjórnsemi er að það verður til fasískt ástand ekki ósvipað því sem gerðist á tímum Nasista. Ástand þar sem allur lýðurinn var orðinn heilaþveginn af hatri gegn gyðingum og allir vita hvað það hafði í för með sér, og ég trúi því ekki að það sé það sem viljum að gerist hér. 

Það er þannig að við getum ekki stjórnað því hvað öðrum finnst um okkur, viðhorf okkar né heimsmynd, og svona almennt getum við ekki haft stjórn á framkvæmdum, hugsunum og viðhorfum annarra til manna og málefna án þess að beygja þá undir stjórn okkar eins og mér finnst allt of mikið vera reynt að gera af í dag.

Annað sem við fáum ekki stjórnað er fortíðin eða framtíðin og það er einfaldlega þannig að dásamlega núið í allri sinni mynd er það eina sem er í boði,augnablik fyrir augnablik sem er líka alltaf best því að það sem er og hamingjan sjálf búa í núinu. 

Það sem ég get þó haft áhrif á og stjórnað eru hugsanir mínar, tilfinningar og framkvæmdir ásamt því að setja mér og öðrum mörk. 

Ég hef einnig vald til að velja hvernig ég tala við sjálfa mig og hvernig ég tekst á við lífið. Ég get sett mér raunhæf og kannski stundum svolítið óraunhæf markmið og staðið við að vinna að þeim, þó að ég geti ekki ráðið útkomunni að fullu (lífið grípur stundum fram í ætlanir mínar).

Ég get valið að elska mig á þeim stað sem ég er á hverju sinni óháð því sem þjóðfélagið segir mér að ég eigi að vera, og í raun held ég að sá staður sé forsenda alls þess sem við viljum að gangi vel í lífi okkar.

Að elska sjálfan sig til fulls þýðir að við elskum líka annmarka okkar og sættumst við þá. Við sættumst einnig við tilfinningar okkar á hverjum tíma og það er einmitt í sáttinni við allar tilfinningar okkar sem við náum að leysa okkur úr viðjum sumra þeirra og umfaðma aðrar.

Að elska það sem er eða lífið eins og það er hverju sinni er einnig afar mikilvægt. Og það að hætta að skilgreina eitthvað sem gott eða slæmt sem hendir okkur á leið okkar um lífið er til lítils og það að bera fortíðina á bakinu mun alltaf þvælast fyrir núinu og framtíðinni. 

Mér finnst alltaf góð sagan um kínverska bóndann eftir Alan Watts, en þar er á ferðinni maður sem gerir sér grein fyrir því að allt er eins og það á að vera og dvelur í fullri sátt við lífið eins og það kemur fyrir hverju sinni og finnur ekki hjá sér hvöt til stjórnunar á umhverfi sínu og útkomum þess.

Hér er þessi frábæra saga:

Einu sinni var kínverskur bóndi sem átti hest sem strauk að heiman frá honum. Um kvöldið komu allir nágrannar hans til að veita honum hluttekningu sína vegna þessa. Þeir sögðu við hann: „Okkur þykir svo afar leitt að heyra að hesturinn þinn hafi strokið, það er mjög vont fyrir þig."

Bóndinn svaraði þeim með þessu eina orði "Kannski."

Daginn eftir kom hesturinn heim og var með sjö villta hesta með sér. Um kvöldið komu allir nágrannarnir og sögðu: „Æ, þetta var gæfuríkt fyrir þig. Hvílíkt kraftaverk,núna átt nú átta hesta!“

Aftur svaraði bóndinn aðeins: „Kannski.

Daginn eftir reyndi sonur hans að sitja einn villta hestinn en kastaðist af baki og fótbrotnaði. Nágrannarnir sögðu þá: "Æi elsku þú við bóndann, þetta var slæmt,"

Og bóndinn svaraði eins og fyrr: "Kannski."

Daginn eftir komu hermenn til þorpsins til að kalla menn í herinn en höfnuðu syni bóndans vegna fótbrotsins. Aftur komu allir nágrannarnir og sögðu: "Er þetta ekki frábær heppni?"

Og aftur sagði bóndinn: "Kannski."

Allt ferli náttúrunnar er samþætt ferli sem er gríðarlega flókið og það er í raun ómögulegt að segja til um hvort eitthvað sem gerist í því ferli sé gott eða slæmt - því þú veist aldrei hver verður afleiðing ógæfunnar; og þú veist aldrei hvaða afleiðingar gæfan hefur.

— Góð saga.

Annars svo að ég haldi áfram að tala um stjórnsemina þá held ég að flestar gerðir hennar komi frá stað óttans um að öryggi okkar og vellíðan sé í hættu og við erum sífellt að reyna að ná stjórn á aðstæðum sem gætu ógnað því öryggi á einhvern hátt.

Eins kallar léleg eða sködduð sjálfsmynd yfirleitt á viðurkenningu samfélagsins alls og þá reynir hún yfirleitt af öllum mætti að stjórna skoðunum og viðbrögðum í hina einu ríkisréttu átt og ekkert rými er gefið fyrir öðrum skoðunum eða viðhorfum.(Ótti við höfnun á sjálfinu) 

Ég hef nú þá trú að þegar við erum komin til fulls í okkur sjálf og með sjálfsmynd okkar í lagi þá er hún bara rétt fyrir okkur, og við þurfum ekki samþykki annarra fyrir því hver og hvernig við eru. 

Þegar við höfum náð á þennan fullkomna stað sáttarinnar og kærleikans til okkar sjálfra þá höfum við heldur ekki lengur þörf á því að skilgreina okkur með einhverjum hætti.

Deilur um skilgreiningar á hinu og þessu eins og litarhætti, trú og kyni yrðu óþarfar því að við höfum ekki þörf fyrir skilgreiningu þjóðfélagsins á okkur heldur dugar okkar eigin sátt við sjálfið okkar, gildi og sálu okkur algerlega.

Byrjum á upphafinu elskurnar sem er alltaf fólgið í því að elska okkur þar sem við erum og þá er allt annað leikur einn. Og ef ég get aðstoðað þig þá er ég eins og ávallt aðeins einni tímapöntun í burtu frá þér.

Þar til næst

ykkar Linda

linda@manngildi.is

Lifecoach og samskiptaráðgjafi

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira