c

Pistlar:

6. mars 2023 kl. 14:47

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Brýrnar 6 í Feneyjum

Í Feneyjum má finna 6 tignarlegar brýr sem höggnar eru út sem hendur sem vefjast saman með fingrunum og táknar hvert og eitt handartak einn af eftirtöldum kostum eða mannlegum verðmætum svo sem visku,von,kærleika,hjálp,trú og vináttu.

Brýrnar sem eru 15 metra háar og 20 metra langar eru hannaðar af Lorenzo Quinn nokkrum sem er sonur Anhony Quinn leikara sem frægastur er líklega hér fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Zorba og Lawrence of Arabia.

Sagan segir að Lorenzo hafi ætlað höndunum að tákna vilja mannsins til að yfirstíga það sem aðgreinir okkur á allan hátt í lífinu, aðgreiningar eins og þær landfræðilegu, menningarlegu, hugmyndafræðilegu og tilfinningalegu. 

Samkvæmt því sem Lorenzo Quinn segir sköpum við allt með höndum okkar, bæði gott og illt. Ánægjulegar snertingar og pyntingar eru framkvæmdar með höndum okkar, við föðmum börnin okkar með þeim og og berjumst við óvini okkar með sverði í hönd. Með höndunum sköpum við heimssögu okkar sem mun lifa þvert á öll landamæri og hindranir segir hann og ég tek heilshugar undir þetta. 

Mér fannst þessar brýr svo fallegar og táknríkar og í raun finnst mér nauðsynlegt að minna reglulega á þessi gildi sem þær tákna og ekki síst í dag þar sem ég tel þá tíma sem við lifum afar viðsjárverða hvað varðar upplausn í mannlegum samskiptum og velvild okkar hvers til annars er orðin á töluvert lágu plani.

Við virðumst vera að glata þeim gildum sem hendurnar tákna og þau hreinlega virðast hörfa jafn hratt og jöklarnir okkar þó að ég svo innilega voni að ég hafi kolrangt fyrir mér þar og að við höldum í þau löngu eftir að jöklarnir hafi bráðnað niður. 

Þegar ég horfi til baka á mína æsku og síðan daginn í dag þá sé ég að við höfum hent út svo mörgu góðu, þar með talið viskunni sem finna má í mörgum góðum bókum, heimspekiritum og trúarritum en ekki síst hjá þeim sem lifað hafa tímana tvo eða fleiri og hafa lært af lífinu sjálfu sem er líklega besti háskólinn.

Í dag eru þeir sem komnir eru yfir fimmtugt ekkert taldir svo töff og lítið á þá hlustað, helst taldir hafa misst hæfileikann til að aðlagast og læra nýja hluti og því ekki til margra hluta nýtir. En trúið mér, það er ekkert sem er mikilvægara fyrir ungmennin okkar en það að fá að hlusta á afa og ömmu og fá þar skilning og þekkingu á mannlegu eðli, vonbrigðum, sorg og mistökum lífsins ásamt því að þar fá þau skilyrðislausu ástina sem við ættum öll að fá að kynnast á lífsleið okkar. Viskuna finnum við líklega ekki í skólum ekki einu sinni góðum skólum, heldur í gegnum reynsluna og í gegnum sögur af lífi sem hefur verið lifað.

Ef við skoðum vonina þá á hún undir högg að sækja því að hún er tekin frá okkur í gegnum upplýsingaflæði frétta sem boða okkur ekkert annað en ljótleika lífsins þar sem hann selur meira en þær fréttir sem vonina færa. Vonin er þó það sem heldur í okkur lífinu þegar við göngum í gegnum slæma tíma, sorg, veikindi, atvinnumissi, blankheit og hvað það er nú sem hrjáir okkur hverju sinni. Vonin og trúin eru náskyldar að mínu mati og mikilvægt að kenna ungviðinu að halda í hvorutveggja í lífsins ólgusjó. 

Kærleikurinn er heldur betur að kólna hjá okkur flestum og við gefum okkur sjaldan tíma til að sinna því sem mikilvægast er eða það að sinna þeim sem eru í kærleikshring okkar og tíminn sem við látum hlaupa frá okkur í hitt og þetta sem skiptir engu máli í stóra samhenginu er allt of mikill.

Ég veit að ég hef líklega skrifað um þetta allt saman áður en í þetta sinn finnst mér ég verða að leggja áherslu á að koma fram með þetta vegna þess að ég sé ummerki allt í kringum mig hvað gerist ef við vanrækjum þessa hlið. Það er margt sem tapast af innri hamingju okkar með þessu kapphlaupi við vindinn sjálfan og græðgisheiminn. Það er alveg skelfilegt til þess að hugsa að aldrei hefur verið meira um einmannaleika og vanlíðan hjá stórum hópum og hamingjusamasta þjóðin (við) gleypir kvíða og þunglyndislyf sem aldrei fyrr, og enn bætist í flóru lyfjanna sem boðið er uppá og nú í formi ofskynjunarlyfja sem eiga að lækna öll okkar innri gömlu sár og vonandi munu rannsóknir sýna það þegar þar að kemur en þangað til finnst mér þetta vera enn eitt afbrigðið af snákaolíunni sem hefur komið fram með reglulegu millibili en reynist síðan ekki standa undir væntingum.

Það sem við virðumst ekki skilja er að hamingja okkar felst í kærleiksríkum tengingum heildarinnar og einstaklinganna innan hennar. Þær eru þó nokkrar rannsóknirnar sem gerðar hafa verið á þessu eins og t.d rannsókn sem gerð var á sjúkrahúsi fyrir nýbura. Rannsókn þessi var fram­kvæmd á 125 nýburum við barna­spítal­ann Nati­onwi­de í Ohio ríki í Banda­ríkj­un­um og í ljós kom að fyrsta snert­ing­in sem börn­ upp­lifa er lík­leg til að skilja eft­ir var­an­leg áhrif á það hvernig heili þeirra þrosk­ast hvorki meira né minna.Því meira af kærleiksríkum snert­ingum því betra fyrir börnin og heilastarfsemi þeirra.

Eins hefur komið fram í öðrum rannsóknum að lífslíkur munaðarlausra barna fóru eftir því hversu mikla umhyggju þeir fengu og þau döfnuðu best sem mestar snertingarnar fengu. Eitt faðmlag á dag kemur skapinu í lag var eitt slagorðið sem notað var hér um árið og það er nokkuð mikið til í því. Notum tímann sem við höfum til að sinna tengslunum okkar því að á morgun getur það verið orðið of seint, gleymum því ekki elskurnar.

Hjálpin er eitthvað sem við hugsum kannski ekki mikið um nema þegar safnanir fara fram á öldum ljósvakans eða rétt fyrir jólin, en hjálpin sem við gefum og þiggjum dags daglega er stór partur af því að innri líðan okkar sé góð. Að vera til staðar og aðstoða án þess að starfa í meðvirkni er eitt það dásamlegasta sem við getum gefið samferðamönnum okkar. Sá sem þiggur er einnig að gefa okkur góða gjöf, eða þá gjöf sem leyfir þér sem gefanda að upplifa þína eigin góðmennsku og aukaafurðin er hversu góð tengsl myndast á milli þeirra sem hjálpina veita og þeirra sem hana þiggja. Því að hjálpin felst í því að við tökum höndum saman um vellíðan hvers annars í kærleika og er afar mikilvæg í öllum mannlegum samskiptum og tengslum. Enginn er eyland og við þörfnumst aðstoðar hvers annars og megum aldrei gleyma því að veita hana né þiggja þegar þörf er á. 

Trúin er vanmetið afl og þá er ég ekki að tala um trúarbrögðin sem virðast gera fátt annað en að aðgreina okkur hvert frá öðru satt best að segja, heldur er ég að tala um trúna sem færir okkur á fætur á hverjum degi hvaða Guði sem við tilheyrum í heiminum.

Trúin á sannleikann, trúin á manninn og góðmennskuþel hans, trúin á að bráðum komi betri tíð, trúin á að við getum öll verið eitt en ekki aðskilin, trúin á að einn daginn muni stríð tilheyra sögubókunum en ekki veruleika nútímans, trúin á að allir megi vera eins og þeir eru án þess að þurfa að fara í sérstaka réttindabaráttu til þess, trúin á að ástin sigri, trúin á að við getum treyst á orð hvers annars, trúin á að hið góða sigri alltaf að lokum, trúin á að allt fari vel og samverki okkur til góðs, trúin á hið eilífa, trúin á það að elska náunga sinn og sjálfan sig sé leiðin til hamingjunnar, trúin á lækningu, trúin á töfra og kraftaverk og trúna á að til sé afl sem við köllum Guð almætti eða alheim sem sé hér til að vaka yfir okkur og aðstoða ásamt því að bera okkur inn í heim alsælunnar að þessu lífi loknu. Svona get ég lengi talið upp trúarskoðanir okkar. Þessi upptalning ætti þó að gefa okkur hugmynd um hversu mikilvægt er að halda í trú á lífið í allri sinni mynd og kannski er ekki úr vegi að þakka fyrir það að eiga hvern dag sem við fáum að upplifa lífið í allri sinni töfrandi mynd andstæðnanna.

En svona að lokum þá er ekki úr vegi að skrifa um brúnna sem táknar vináttuna.

Vinir eru í mörgum tilfellum ekki tilheyrandi fjölskyldu okkar en eru þó stundum nánari okkur en nokkur fjölskyldumeðlimur. Vináttan sem árin mynda gera þó vini að fjölskyldu og svo ég tali nú bara fyrir mig þá væri líf mitt ekki samt ef ég ætti ekki alla þá góðu vini sem í mínu lífi eru og hafa verið í gegnum árin. Svo sannarlega tel ég þá til fjölskyldu minnar. 

Eins og gengur og gerist þá fara vinir úr lífi okkar og aðrir koma í stað þeirra en svo eru það þessir sem eru þarna áratugum saman og ekkert virðast geta slitið í sundur þá vináttu. Þessir vinir eru til staðar jafnt til að fagna með þér þegar vel gengur og þegar stormarnir geysa. 

Ég tel það fjársjóð minn að hafa góða vini í kringum mig sem hafa sýnt mér kærleika sinn á svo margan hátt að ég get ekki einu sinni talið upp öll þau skipti þar sem hjarta mitt hefur fundið til þakklætis gagnvart þeim.

Þegar erfiðast hefur verið að fara á fætur hafa þeir verið til staðar með því að draga mig út í eitthvað skemmtilegt og þegar sorgin hefur bankað á dyrnar þá eru það þeir sem redda krönsum og erfidrykkjum ásamt því að heimsækja mig og eða hringja daglega. Dýrmætara en hægt er að þakka fyrir. Að eiga trúnaðarvini sem hægt er að segja alla hluti við og vita að það verði ekki borið á torg er á við marga sálfræðitíma, og að eiga vini sem skilja mann, meta og vilja vera í návist við okkur er Guðsgjöf að mínu mati. Allir ættu að eiga nokkra slíka vini og ekki síst að vera slíkir vinir, það gefur lífinu lit sinn og jafnvel tilgang sinn oft á tíðum. 

Ég upplifi að eftir því sem ég verð eldri og börnin og barnabörnin eru upptekin við eitthvað annað en mömmu og ömmu þá verða vinirnir alltaf dýrmætari partur af tilverunni, og það verður alltaf meira gaman hjá okkur eftir því sem árin færast yfir. Dásamlegt alveg hreint og jafnast á við súper fjölvítamín!

Að lokum mín elskuðu þá langar mig til að biðja okkur öll um að skoða hvar við gætum þurft að taka til hjá okkur sjálfum til að heiðra þessi gildi sem brýrnar 6 í Feneyjum boða, 

viskuna - vonina - kærleikann - hjálpina - trúna- og vináttuna.

Og eins og ætíð er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarfnast aðstoðar minnar við þín lífsins málefni.

Þar til næst elskurnar,

xoxo Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira