c

Pistlar:

20. september 2023 kl. 17:37

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Blár lifnaður

Ég hef undanfarin kvöld verið að horfa á þætti á Netflix sem kallast "Live to 100-The secret of the Blue Zones". Í þessum þáttum er skyggnst inn í líf nokkurra aðila í samfélögum sem þekkt eru fyrir háan aldur íbúanna og nefnast staðirnir the Blue Zones.

það sem helst vakti athygli mína í þessum þáttum var hversu mikilvæg samfélagsgerðin er og eins hversu mikilvægt það er að eiga sterk og góð fjölskyldubönd og vinasambönd. Að vita að þú hafir tilgang sem kemur þér á fætur dag hvern og að vita að það verði hugsað um þig í öllum aðstæðum á öllum aldri virtist skipta mestu máli varðandi langlífið ásamt auðvitað heilnæmu fæði og náttúrulegri hreyfingu.  Mér varð hugsað til þess hversu langt við erum komin frá þessu hér á vesturhveli jarðar og hversu miklu við höfum tapað með öllu okkar streði og eftirsókn eftir vindinum.

Helstu atriðin sem einkenndu bláu svæðin voru m.a;

1. Náttúruleg hreyfing;

Eins og við vitum þá er hreyfing mjög mikilvæg og ekki síst þegar við eldumst en á bláu svæðunum var það þó hreyfingin sem fólst í því að rækta garðinn sinn, ganga um þorpin og að vera stöðugt að án streitu þó sem virtist skipta mestu máli. Þessir hundraðshöfðingjar sem rætt var við voru í fullu fjöri og kattliðugir, mér hefði ekki dottið í hug að þeir væru komnir um eða yfir hundrað árin. Það sem var athyglivert var einnig að víðast hvar í heiminum eru lífslíkur hærri hjá kvenkyninu en karlkyninu, en þarna virtist vera sláandi lítill munur á kynjunum hvað þetta varðar.

2. Jákvætt hugarfar og að vita tilgang sinn -andlegt líf; 

Andlegt líf skipti miklu máli og allir tóku sinn tíma dag hvern til bæna eða tilbeiðslu/hugleiðslu og flestir fóru til sinna helgistaða sama hver trú þeirra var.

Það sem kom þeim síðan á fætur dag hvern var að þeir voru jákvæðir fyrir lífinu og trúðu á vonina og vissu hvaða tilgangi það þjónaði að fara á fætur. Margir voru í sjálfboðavinnu og fengu tilgang sinn í gegnum það, aðrir voru að huga að hag heildarinnar og fjölskyldunnar með einhverjum hætti og enn aðrir ræktuðu garðinn sinn og vini sína.

Mín trú er sú að þegar við finnum okkur ekki í samfélagi manna og finnst við ekki hafa tilgang fyrir einn né neinn þá gefumst við upp og þá eiga veikindi andleg og líkamleg greiðan aðgang að okkur. 

3. Að hvílast;

Hvíld og þögn án áreitis var greinilega mikilvæg og það þótti jafn sjálfsagt að hvíla sig eins og það að starfa. Í streitusamfélagi okkar er varla gert ráð fyrir því að það þurfi hvíld og börn sem búin eru að vera alla vikuna í fullri vinnu á leikskólum og í skólum eru dregin í verslunarmiðstöðvar um helgar þar sem áreitið heldur bara áfram en engin hvíld fæst - getur ekki endað vel að mínu mati!

4. 80% regla í matarræði;

Aldrei að borða sig saddan var boðskapurinn varðandi matarræðið en bara hætta að borða þegar maginn er orðinn svona 80% fullur, nokkuð góð regla það.

Við borðum of mikið, of óhollt og allt of mikinn sykur hér á landi og mættum taka matarræði þeirra okkur til fyrirmyndar, en það virðist vera nánast eins (með örfáum undantekningum) á öllum stöðunum sem heimsóttir voru.

Grænmeti, baunir, hrísgrjón,heimagert pasta, súrdeigsbrauð og soja í stað kjöts var uppistaðan og flestir voru þeir grænmetisætur. Sumir borðuðu mjólkurafurðir og egg auk grænmetisins og nokkrir voru með fisk og kjöt sem lítinn hluta af fæðu sinni. Flest matarkyns var heimatilbúið og jurtirnar voru tíndar í teið sem lék stórt hlutverk í fæðuvalinu og var það einnig notað í lækningaskyni. Ég verð nú að viðurkenna að þættirnir fengu mig til að hugsa um sjálfa mig og fæðuval mitt!

5. Hóflega drukkið vín kl.17.00;

Þarna hló ég því að við íslendingar höfum nú lengst af verið þekkt fyrir það að drekka bara um helgar og í mesta lagi að bæta við fimmtudögunum og drekka þá svolítið mikið.

Í þáttunum fannst mér hófleg drykkjan vera tengd félagstengslunum að mestu og í flestum tilfellum fór þessi dagdrykkja fram við matarborðin þar sem mikið var borðað og mikið hlegið. Það var dansað og allir nutu þess að eiga stund með fjölskyldunni eða vinunum við hvert tækifæri í stað þess að sitja útaf fyrir sig í einangrun eins og títt er með okkur íslendingana. Við opnum ekki heimilið okkar svo gjarnan eða oft og þeir sem búa einir eru venjulega ekki teknir inn í einhvern hóp til að snæða með þeim daglega en þarna var það gert. Þetta leiðir mig að næsta atriði sem er nú mitt uppáhalds eða,

6. Samskiptin - að finna hjörðina sína;

Samskipti virtust vera jafn mikilvæg og blóðið sem rennur um æðar þeirra. Allt snerist um einingu, utanumhald, samstöðu og það að tilheyra stærri hóp. Hlátur og gleðistundir voru bætiefnin þeirra og þar sannast svo sannarlega máltækið að maður er manns gaman.

Í hinum vestræna heimi er það orðið nokkuð ljóst að aðalböl mannsins er einmannaleiki, ástleysi, útskúfun og að hafa ekki tilgang í hjörðinni né hlutverk í samfélaginu. Þetta böl þekkist ekki í bláu samfélögunum. Við erum hinsvegar orðin svo langt leidd í þessum efnum að sumstaðar eru komnir ráðherrar í ríkisstjórn sem hafa það hlutverk að reyna að vinna bug á einmannaleika og voru Bretar og Japanir fyrstir til að stofna ráðherraembætti sem á að taka á þessu málefni!

Veit ekki alveg hvað það segir um okkur að þetta sé með þessum hætti, en líklega segir það mikið um sjálfselsku okkar og vanþakklæti. Enginn hefur tíma til að sinna einum eða neinum vegna anna og allir verða að eiga allt þannig að gamla liðið, börnin og þeir sem einir eru þvælast bara fyrir öllu félagslífinu og aurasöfnuninni. Ég vildi svo sannarlega óska þess fyrir mína afkomendur að við sæjum að okkur og færum gömlu göturnar sem gefa langlífið og hamingjuna í stað þess að eltast við Mammon öllum stundum, það væru gæfuspor til framtíðar að mínu mati.

7. Samtrygging hópsins og umönnun aldraðra;

Það var mjög áberandi hversu vel allir hugsuðu um alla og vinir mynduðu gjarnan hóp sem hafði það hlutverk að halda utan um hvert annað og hjálpast að þegar stormar lífsins geisuðu. Þeir höfðu einnig það hlutverk að hitta hvert annað og halda vinskapnum við sem er nokkuð sem við hér gefum okkur lítinn tíma í öllu jafna. 

8. Fjölskyldan fyrst;

Á bláu svæðunum gekk fjölskyldan og meðlimir hennar fyrir í öllu og þá er ég að tala um stórfjölskylduna. Enginn var skilinn eftir einn þar og afskiptur. Fjölskyldan tók það öll að sér að annast og gefa tíma sinn til þeirra sem þurftu á að halda í fjölskyldunni hverju sinni, hvort sem það var gömul frænka eða frændi, mamma eða pabbi hugsað var um alla og enginn þurfti að borða einn.

9. Tilheyra;

Þeir tilheyrðu stærri hjörð þar sem þeir skiptu máli, fjölskylda, trúarhópar eða samfélagið í heild sinni var hjörðin þeirra og algengt var að þeir sinntu hjálparstörfum eða voru sjálfboðaliðar sem fundu tilgang sinn í að aðstoða með öllum hætti í samfélögunum og fundu þannig tilgang sinn eða sitt IKIGAI (tilgang)

Svona að lokum þá langar mig að segja að ekkert af þeim atriðum sem talað var um komu mér svosem á óvart því að ég er búin að tala um allt þetta í mörg ár við kannski stundum litlar undirtektir, en ég er handviss um að ef þú lesandi góður leyfðir þér að hlusta á hjarta þitt í stað skvaldursins í þjóðfélaginu þá yrðir þú sammála mér um að stundum eru gömlu göturnar hamingjuríkari en þær nýju.

Eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarft aðstoð mína.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi, Samskiptaráðgjafi.

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira