c

Pistlar:

19. október 2025 kl. 10:35

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Slá hjörtun í takt?

Það hreint ekki sjálfsagt að finna maka sem hentar manni eftir sextugt og svona langt er liðið á ævina, og því síður að finna einn almennilegan sem hægt er að búa með!

En sem sagt, í sumar tók ég stóra ákvörðun um skuldbindingu, og ég, næstum 65 ára gömul konan, ákvað að standa í þessum stórræðum sem gifting er, þó að ég viti að það séu ekki margar á mínum aldri sem klæða sig upp í kjól og hvítt.

Ég hélt, satt að segja, að það væri orðið of langt liðið á ævina hjá mér til þess að ég rækist á mann sem ég gæti hugsað mér að vera með það sem eftir væri, og hvað þá að skuldbinda mig honum með öllu því sem því fylgir, eins og börn, barnabörn og í mínu tilfelli einnig langömmubarn.

En viti menn! Þegar ég kynntist manninum mínum komst ég smám saman að því að mannkostir hans voru slíkir að ég gat ekki sleppt honum. Mannkostir eins og góðmennska, gestrisni, umburðarlyndi, heiðarleiki og ábyrgðarkennd eru kostir sem prýða manninn minn, og svo kann hann einnig að smíða, elda, sjá um þvott og lagfæra það sem þarf að lagfæra. Þessir kostir eru sjaldgæfir á einhleypa markaðnum hef ég komist að í gegnum tíðina, og þegar svona happafengur fer niður á hnén, þá lætur maður hann ekki frá sér, heldur dregur hann upp að altarinu og skuldbindur sig með glöðu geði.

Ég var nú ekkert viss um að hann væri mín týpa í byrjun sambandsins, og það tók mig töluverðan tíma að ákveða að, jú hann væri bara verður þess að fá séns á því að sanna sig, sem hann svo sannarlega gerði með miklum sóma.

Á þessum aldri erum við flest orðin fastmótuð og vitum hvað við viljum fá út úr lífinu og samböndum, og nennum ekki neinu rugli. Það að rugla saman reitum við einhvern er bjartsýn tilraunastarfsemi, sem líklega er ekkert víst að klikki, en gerir það þó allt of oft.

En af hverju er ég að tala um þetta?

Jú, vegna þess að ég hef verið einhleyp lengi, þrátt fyrir að ég hafi heyrt það úti í bæ að ég hafi verið fjórgift! Verst er að ég man bara ekkert eftir öllum þeim giftingum, þó að veislurnar geti nú verið skemmtilegar,lol!

Sannleikurinn er hins vegar sá, að eins og margir aðrir hef ég átt í örfáum samböndum í lífinu, gift í tuttugu ár og í sambúð í önnur tólf en eftir það hafa sambönd mín átt að vera létt og án skuldbindinga eða þar til ég gifti mig í sumar eins og áður hefur komið fram. Ég held að þetta sé það form sem er algengt hjá fólki á mínum aldri í dag.

Oftast byrja þessi léttu sambönd á mjög svo skemmtilegum nótum, úti að borða þegar báðir aðilar hafa tíma til þess og þau ferðast saman, eiga notalegar stundir yfir sjónvarpinu stöku sinnum, og fara á tónleika eða í leikhús. Samskiptin á samfélagsmiðlunum verða fyrirferðarmikil, og einmanaleikinn sem hinir einhleypu finna oft fyrir, hverfur um stund.

En það sem stundum gerist í þessum „léttu“ samböndum er að annar aðilinn í sambandinu fer að verða skotinn og fer að lesa út úr skilaboðum hins aðilans það sem hann vill að þau þýði. Hann fer að skoða í leyni framtíðina sem hann sér með aðilanum sem átti einungis að vera á léttu nótunum.

Í þessari stöðu myndast ójafnvægi sem getur valdið báðum aðilum ákveðnum óróleika og ójafnvægi, og sá ástfangni upplifir vonbrigði, óöryggi og jafnvel höfnun, á meðan hinn aðilinn finnur til sektarkenndar eða finnst hann fastur í aðstæðum sem aldrei stóð til að gætu orðið.

Samband án skuldbindingar getur verið bæði skemmtilegt og frelsandi, svo lengi sem báðir aðilar dansa sama dansinn. En um leið og aðilarnir finna að sambandið er að breytast hjá öðrum aðilanum, þarf að taka samtalið í heiðarleika, og ábyrgðin í slíkum samböndum felst í því að hætta leiknum áður en særindin verða of mikil og þráhyggjan, sem stundum myndast, tekur yfir.

Því hjartað spyr ekki hvort það eigi að verða ástfangið eða ekki, hvað sem við ákveðum í byrjun sambands. Nánd eykur losun boðefna eins og dópamíns og oxýtósíns, og þá bindast hjörtun, þó að það sé í sumum tilfellum aðeins frá öðrum aðilanum – og þótt engin loforð séu til staðar um skuldbindingu.

Og þá situr sá sem varð skotinn eftir með brostnar vonir og væntingar sem hann í laumi hefur byggt upp.

Sambönd krefjast alltaf heiðarleika, trausts og þess að við mætum hvort öðru í jafnvægi.

Ef við veljum að vera í sambandi án skuldbindingar, þurfum við að axla ábyrgð á því og ganga inn í það með skýrleika, bæði gagnvart okkur sjálfum og hinum aðilanum, og taka síðan stöðuna reglulega til að kanna hvort eitthvað hafi breyst í væntingum annars aðilans til sambandsins, og enda síðan sambandið ef ójafnvægi hefur náð að myndast.

Það sem ég hef þó lært er, að við eigum aldrei að gefast upp á ástinni og skuldbindingunni, sama á hvaða aldri við erum. Pössum bara að hjörtun slái í takt hjá báðum aðilum.

En munum bara, elskurnar, að ástin sjálf er dýrmæt – hvort sem hún birtist í formi léttari tengsla eða skuldbindingar.

Og þegar við finnum þann sem stendur okkur við hlið, með alla sína mannkosti og veikleika, þá vitum við að við megum halda fast í hann og leyfa okkur að fagna lífinu saman.

Ástin er lífið, og lífið er ástin, þegar allt kemur til alls.

Þar til næst, elskurnar,

Xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lífsmarkþjállfi og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

Tímapantanir- https://noona.app/lindabaldvinsdottir https://noona.app/lindabaldvinsdottir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira