Pistlar:

6. desember 2019 kl. 16:56

Linda Rún Traustadóttir (lindarun.blog.is)

Já ég mjókkaði en það er aukaatriði. Hvað er aðalatriði?

Undanfarið hef ég fengið mýmörg skilaboð í gegnum samfélagsmiðil sem ég held úti. Ástæðan er að ég birti mynd af mér í rauðum jakka sem ég tók um verslunarmannahelgina 2018 og mynd af mér í sama jakka sem var tekin ári síðar. Ástæðan fyrir þessari myndbirtingu var sú að árið 2018 gat ég ekki rennt jakkanum upp og greindi frá því á þeim tíma að um næstu verslunarmannahelgi (árið 2019) myndi ég geta rennt honum upp án vandræða.
Viti menn, það tókst.

20190806_162915

Af hverju er þetta efni til að blogga um? 

Ég hef verið með opinn samfélagsmiðil í tæplega tvö ár. Ástæðan fyrir því að ég opnaði þennan miðil var sú að ég sá fyrir mér að það væri hvatning fyrir mig og gæti eflaust nýst fleirum í sömu og/eða svipaðri stöðu og ég var í og hef verið ó-svo-oft í lífinu. Þar fara allskonar lágkolvetnapælingar, hugmyndir að mat og reyndar borða ég varla í dag nema ég smelli fyrst mynd af því og þruma inn á instagram. Þangað inn deili ég einnig ,,árangrinum” mínum, hugleiðingum, ráðum og hvatningu. Það allt er gert með þeim tilgangi að hvetja aðra, sýna öðrum að það er hægt að líða betur í eigin skinni með mataræði og ekki síður með breyttu hugarfari. Ég set einnig inn hugleiðingar mínar varðandi það sem mér finnst vera að í heiminum í dag varðandi mataræði og dreg yfirleitt ekkert undan. Sykur og unnin, næringarsnauð kolvetni sem umlykja okkur daginn inn og daginn út hafa að mínum dómi gert okkur afar slæma hluti. Markaður og framleiðendur hafa átt stóran þátt í að heilsuspilla okkur og gera okkur erfiðara fyrir að borða alvöru mat. Allt þetta reyni ég eftir fremsta magni að gera án þess að virka sem ,,sértrúarsöfnuður” enda er það þvert á móti ætlun mín.

Ég fann fljótt að mataræði sem inniheldur lægra hlutfall kolvetna og hærra hlutfall fitu en ráðleggingar hafa snúist um hentaði mér betur. Ég er illa haldinn matarfíkill í virkri neyslu ef ég passa ekki hvað ég borða. Það er aðeins ein leið sem hefur hjálpað mér að losna við fíknihugsun og þráhyggju gagnvart mat. Það er að borða mat sem saman stendur af lægra hlutfalli kolvetna en margur gerir, meðal magni af próteinum og hærra hlutfalli af fitu en flestir gera. Það er þvert á ráðleggingar frá síðustu öld enda var kappkostað við að ráðleggja að minnka hlutfall fitu í mat. Þá var líka talið ljóst að fituneysla gerði okkur feit og óheilbrigð. Það er efni í annan pistil að fara yfir hvers vegna það er rangt og hvert það hefur leitt okkur. Hver sem er getur kynnt sér það í þaula enda gríðarlegt magn af upplýsingum víða (hægt að skoða helling hérna: https://www.dietdoctor.com/low-carb/science).

Aftur að skilaboðunum sem mér hafa borist undanfarið. Ég sá ekki fyrir mér að svona margir myndu senda skilaboð út af þessu en öll skilaboðin hafa verið jákvæð og mér þakkað fyrir hvatningu, seiglu og annað sem mér þykir ósköp vænt um. Sumir hafa fengið lengri svör frá mér en aðrir - allt fer það eftir innihaldi skilaboðanna sem berast hverju sinni. Mér hefur til dæmis í dag þótt ástæða til að svara sumum með lengri skilaboðum sem innihalda ekki aðeins þakkir fyrir falleg orð og svo framvegis heldur að aðstoða fólk að komast yfir skammtímahugarfarið. Sumir segja mér að ég láti þetta líta út fyrir að vera svo auðvelt en þá hef ég fundið mig knúna til að árétta að stundum er þetta ógeðslega erfitt, hundleiðinlegt og drullu fúlt. Það sem skiptir þó alltaf öllu máli er að halda áfram - það er nefnilega seiglan og það að h.a.l.d.a. a.l.l.t.a.f. á.f.r.a.m. sem skilar okkur þangað sem við viljum. Sama hversu oft við misstígum okkur, þá er númer eitt, tvö og þrjú að halda áfram.

Athugið, ég segi halda áfram en ekki byrja aftur enda er það ekki til í minni orðabók.
Ég byrja ekki upp á nýtt - ég held áfram þar sem frá var horfið.

Það að grenna sig eða að finna vellíðunartilfinningu í eigin skinni gerist ekki á einni nóttu. Það gerist heldur ekki á einni viku eða mánuði - sérstaklega ekki ef við höfum átt í hatrömmu sambandi við okkur sjálf í langan tíma. Hvað þá alla ævi. Sjálf hef ég verið að gefa fjölda fólks upplýsingar um hvernig ég hef hagað mínum málum, hvað ég sé að borða og ekki borða, hvað ég hef verið lengi að missa þessi og hin kílóin og svo framvegis. Því miður verð ég oftar en ekki vör við það að margir halda að þetta sé eins og að smella fingri og þá sé þetta bara komið - ,,bara skella sér á ketó/hörbalæf/sjúkrahúskúrinn og eftir nokkrar vikur verða allir bara hoj og slank”.
Fyrir suma er þetta nokkuð auðvelt - fyrir aðra ekki. Sumir, þar á meðal ég, þarf að hafa mikið fyrir því að missa kíló, ég þarf að hafa mig alla við að halda hugarfarinu mínu á réttu róli og þetta kostar vinnu. Sem betur fer fann ég aðferð sem hentar mér vel og hjálpar mér gífurlega að vera með hausinn í standi. Enn og aftur finnst mér mikilvægast fyrir fólk að skilja að það að ætla að grenna sig eða að lifa í sátt við sig er vinna til frambúðar og alla ævi, ekki til skamms tíma með skammtímalausnum, megrunarkúrum, töfralausnum eða öðru því um líkt. Ég lifði í von um töfralausn í um það bil 22 ár - get lofað ykkur að hún er ekki til

Mér finnst einnig mikilvægt að fólk átti sig á, skilji og síðast en ekki síst TRÚI því að jafnvel þótt við komumst í óska-kílóa-töluna okkar, þá verður lífið ekki fullkomið. Ótrúlegt en satt þá finnum við okkur bara eitthvað annað til að óskapast yfir, nefið of beyglað, hægra eyrað vanskapað, naflinn ljótur, tussubumban lafandi og laus, bingóið allt að kæfa og svo framvegis. 

Ég trúi því að ef við elskum okkur hverja einustu stund, sama hvað við erum í góðu sambandi við þyngdaraflið, erum við á mun betri stað en ella. Ég held og trúi að okkur muni ganga miklu betur að vinna í okkar markmiðum ef við erum sátt við okkur og fólkið sem við erum í samskiptum við. Ég er handviss um að samanburður okkar við aðra sé til þess gerður að éta okkur að innan og við verðum ekkert annað en fúin og fretleg ef við leyfum okkur að standa í sífelldum samanburði við aðra. Og náum að sjálfsögðu ekki að vinna í okkur á meðan. 

Bottom line og ástæðan fyrir því að mér fannst ég þurfa að tjá mig: já, það er sjáanlegur líkamlegur munur á myndunum frá verslunarmannahelginni 2018 og svo 2019 - það er aukaatriði. Aðalatriðið er betri líðan

- Linda 
Linda Rún Traustadóttir

Linda Rún Traustadóttir

Snarruglaður matarfíkill þar sem skynsemi ræður sjaldnast ferðinni í mataræði. Nema hvað?

Reyni að miðla lifnaðarhætti mínum sem mest ég má svo þeir sem tengja finni frið og ró í sál sinni. Eins og ég fann.

Þetta var formlegt.

Meira

Myndasyrpur