c

Pistlar:

4. janúar 2018 kl. 13:45

Ásdís Ásgeirsdóttir (ljomandidisa.blog.is)

Fyrsta sjokk ársins

Nýja árið byrjaði hjá mér, sem og svo mörgum öðrum, með því að vekjaraklukkan hringdi og fyrsta hugsunin var; hvaða djöfulsins hávaði er þetta um miðjar nætur! En jú, það var víst kominn annar janúar og ekkert annað í stöðunni en að horfast í augu við blákaldan hversdagsleikann, drífa sig í sturtu og skola burtu stírurnar. Fögur fyrirheit fóru í gegnum hugann. Nú skal sko spýta í lófana. Mæta í ræktina. Sleppa sykri, hveiti og rauðu kjöti, ekkert hálfkák í þetta sinn. Hljómar þetta kannski kunnuglega? Klisja, gömul tugga? Já, það er ekkert nýtt undir sólinni.

Ég horfði sljóum augum á hvítu baðvigtina. Hún hafði ekkert verið notuð í nokkra mánuði. Ég er alveg eins og strúturinn sem stingur höfðinu heimskur í sandinn. En það er nýtt ár og nýtt upphaf og þessi strútur ákvað að reisa aðeins höfuð upp úr sandinum. Kíkja smá. Best að stíga á helvítið áður en ég færi í sturtuna, blautt hár gæti jú kostað einhver grömm, hugsaði ég. Stund sannleikans rann upp og þurfti ég án gríns að stíga tvisvar, hrista hana aðeins á milli og setja upp sterk lesgleraugu. Talan sem blasti við í eldrauðum og illkvittnum stöfum var það há að ég fékk mesta sjokk þessa árs. Hingað til. Skrítið hvað ég var hissa. Miðað við allt sem ég hef leyft mér undanfarna mánuði þá ætti þetta ekkert að koma mér á óvart. En alltaf held ég að á einhvern undraverðan hátt muni líkami minni ekkert vera að spá í þessar auka kaloríur; á einhvern undraverðan hátt mun almættið sjá til þess að ég sé eina manneskjan í heimi sem get troðið í mig kökum og kræsingum og ekki fitnað. Að ég uppskeri ekki eins og ég sái. En enn á ný, var eins og ég fengi kalda vatnsgusu í andlitið. Ég stóð allsnakin á vigtinni og öskraði innra með mér. Fokk fokk fokk.

Ég át bara brokkólí og blómkál í hádeginu. Skrifa veganuppskriftir í næsta blað. Þamba vatn við skrifborðið. Ég sendi skilaboð á einkaþjálfarann sem ég hafði ekki séð í hálft ár og grátbað hana um að gera eitthvað. Komdu í mælingu á föstudaginn, hlakka til, var svarið sem ég fékk. Ég get alveg viðurkennt það, að tilhlökkunin er öll hennar megin.

Af hverju læri ég aldrei af reynslunni? Af hverju byrja öll ár eins? Ég skrifa þetta allt á mannlegan breyskleika. Er það ekki bara fínasta afsökun? Gleðilegt heilsusamlegt ár !

Ásdís Ásgeirsdóttir

Ásdís Ásgeirsdóttir

Ég er blaðamaður og ljósmyndari og skrifa í Sunnudagsblað Morgunblaðsins. 

Meira