c

Pistlar:

16. janúar 2018 kl. 13:45

Ásdís Ásgeirsdóttir (ljomandidisa.blog.is)

Frekjukast í flugtaki

Sumar auglýsingar vekja athygli, þótt þær hitti alls ekki í mark. Icelandair auglýsti nýlega „heimili þitt í háloftunum“ í krúttlegum sjónvarpsauglýsingum. En sannleikurinn er sá að ef það er einhver staður þar sem mér líður ekki neitt eins og ég sé í sófanum eða rúminu heima hjá mér, þá er það kramin í sæti í röri í háloftunum. Það er fátt þægilegt við flugsæti. Það er með ólíkindum að fólk yfir 1.70 á hæð geti yfirleitt ferðast með flugvélum. Ég er nú með meðalstuttar fætur en þær ná yfirleitt nánast í bakið á næsta sæti. Og ef maður er óheppin er sessunauturinn í yfirstærð og flæðir yfir á manns nokkurra sentimetra yfirráðasvæði. Eða það er grenjandi barn fyrir aftan mann. Olnbogar rekast saman við ókunnuga þegar maður sker kjúklinginn eða fiskinn (yfirleitt sér maður engan mun). Já, heimili þitt í háloftunum er sannarlega ekki það sem 99.9% af fólki hugsar þegar það sest í þröng sætin. Hin 0.01% geta breitt úr sér í einkaþotum. Því miður tilheyri ég ekki þeim hópi!
Öll eigum við sögur um hræðileg flug. Ég flaug einu sinni í tólf tíma frá Kenya til Íslands og öll klósett voru orðin stífluð, enginn matur var til í vélinni og vatnið búið. Tvisvar var millilent en ekki var hægt að ná í vistir, ó nei. Í annað sinn sat ég með eldri konu frá Kambódíu nánast í fanginu. Hún sat í sínu sæti en af einhverjum ástæðum sá hún sig knúna til að halla sér í áttina að mér, fara algjörlega inn á mitt „personal space“ og þar hékk hún bara. Ég þurfti að halla mér svo langt í hina áttina út á gangveginn að ég var í stórhættu á að verða fyrir þjónustuvagninum. Ekki skil ég af hverju hún gat ekki hallað sér í hina áttina, og legið utan í kallinum sínum! Hann var kannski svona leiðinlegur.
Svo var það skiptið sem sessunautur minn hóstaði grænni slímslummu yfir á matarbakkann minn, það var virkilega skemmtilegt! Eða þegar þá tveggja ára sonur minn tók frekjukast í flugtaki af því hann var festur við mig með belti og öskraði svo mikið að hann ældi yfir mig alla. Það var bara eftir millilending og annað flug þann daginn. Og ekki tekur maður með aukaföt í flug fyrir sig. En maður þarf að þola þetta allt búandi á eyju. Ég skal hætta í þessu frekjukasti....og þakka fyrir að geta flogið til útlanda annað slagið. Og svo hefur maður þá alltaf einhverjar góðar sögur, því svona ævintýri gerist bara í flugferðum!


Ásdís Ásgeirsdóttir

Ásdís Ásgeirsdóttir

Ég er blaðamaður og ljósmyndari og skrifa í Sunnudagsblað Morgunblaðsins. 

Meira