c

Pistlar:

8. desember 2017 kl. 9:04

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

(Raun)fjármagnstekjuskattur

Í nýjum stjórnarsáttmála kemur eftirfarandi fram:

Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður í 22% í upphafi kjörtímabils í því markmiði að gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna. Samhliða verður skattstofn fjármagnstekjuskatts tekinn til endurskoðunar.

Í frétt í tengslum við þetta Morgunblaðsins kemur auk þess eftirfarandi fram:

Þannig kem­ur til greina að raunávöxt­un fjár­magns verði skatt­lögð en ekki nafnávöxt­un eins og verið hef­ur. Þá mun einnig koma til skoðunar hækk­un frí­tekju­marks fjár­magn­stekna. Í dag ligg­ur markið í 125 þúsund krón­um á ári.

Nú er ég ekki nauðsynlega fylgjandi því að fjármagnstekjuskattur hækki. Gangi tillögur um að skattleggja raunávöxtun fjármagns í stað nafnávöxtunar eftir þá er eðlilegt að hækka fjármagnstekjuskatt og væri í raun ekki óeðlilegt að hann hækki meira. Gott dæmi er varðandi einstaklinga sem ávaxta fé sitt með öruggum hætti. Ég miða hér við 30% fjármagnstekjuskatt af raunávöxtun.

Verðtryggðir lágvaxtareikningar

Hér tek ég dæmi um einstakling sem leggur inn á verðtryggðan reikning sem bundin er til fimm ára. Slíkir reikningar veita árlega tæplega 2% raunávöxtun, það er ávöxtun umfram verðbólgu. Sé miðað við 3% árlegri verðbólgu, örlítið hærri verðbólga en flestar greiningardeildir spá fyrir árið 2018, þá fæst 5% nafnávöxtun (2% raunávöxtun umfram 3% verðbólgu).

Sé greiddur 22% skattur af þeirri ávöxtun þá dregst frá 1,1% (22% af 5%) af þeirri ávöxtun. Það er rúmlega helmingurinn af raunávöxtun þess einstaklings og er nettó raunávöxtun því undir einu prósenti.

Sé aftur á móti miðað við 2% raunávöxtun og 30% fjármagnstekjuskattur (af raunávöxtun) hafður til hliðsjónar þá dregst frá 0,6% (30% af 2%), sem þýðir að tæplega þriðjungur af raunávöxtun er greiddur sem fjármagnstekjuskattur. Nettó raunávöxtun í þessu tilviki er því tæplega 1,4%.

Almennt er litið svo á að verðtryggðir reikningar veiti tiltölulega lága ávöxtun en á móti fái þeir sem leggi pening inn á slíka reikninga tryggingu um að fjárfesting þeirra haldi raungildi sínu. Það á ekki nauðsynlega við í núverandi skattaumhverfi ef verðbólga ykist að einhverju marki. Færi árleg verðbólga til dæmis í 8% þá yrði nafnávöxtun slíks reiknings um það bil 10%. Þar sem að greiddur yrði 22% fjármagnsskattur af þeirri ávöxtun þá yrði hann 2,2%, eða meira en raunávöxtunin, sem væri því orðin neikvæð.

Þeim mun minni sem raunávöxtunin er þá vegur fjármagnstekjuskattur þar sem miðað er við nafnávöxtun meira. Hækki verðbólga þá er verið að greiða stærri sneið af ávöxtun sem gerir ekkert annað en að halda í við raunvirði peninga. Sé miðað við raunávöxtun þá er einfaldlega verið að greiða fjármagnstekjur af ávöxtun umfram verðbólgu, óháð því hversu há verðbólgan er.

Hlutabréf

Miðað við 3% verðbólgu og 5% raunávöxtun á hlutabréfum, eða um það bil 8% nafnávöxtun, þá væri fjármagnstekjuskattur af nafnávöxtun 1,76% (22% af 8% ávöxtun). Væri aftur á móti miðað við 30% af raunávöxtun þá væri fjármagnstekjuskattur 1,5% (30% af 5% raunávöxtun). í þessu tilviki væri munurinn afar lítill.

MWM

ps. Börn mín, Alexía, Sól og Mímir sendu lag í jólalagasamkeppni Rásar 2. Lag þeirra komst í hóp 8 laga sem komust í úrslit. Texti viðlagsins er: 

En það má heldur ekki gleyma
Öllum sem eiga hvergi heima
Við þurfum ekki að trúa á það sama
Hættum þessu heimskulega drama

 

og hér er hlekkur að laginu: https://soundcloud.com/ras_2/jolalag-fyrir-alla-alexia-sol

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík (2015-2022).

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta,uppsetningu verðbréfafyrirtækja, og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

https://www.researchgate.net/profile/Mar_Mixa

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira