c

Pistlar:

5. maí 2018 kl. 10:55

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

17% 2006 hlutabréfasafnið

Viðskiptablaðið bað mig um að koma með tillögu að erlendu safni hlutabréfa í árslok 2005. Hugmyndin var eitthvað á þá leið að slíkt safn gæfi fjárfestum hugmynd um mengi af hlutabréfum sem ýmsir aðilar á markaðinum teldu vera vænlegt til árangurs að teknu tilliti til ávöxtunar og áhættu.

Ég valdi 12 hlutabréf. Af þeim eru 10 enn skráð á markaði en tvö voru keypt af fjárfestum sem síðan afskráðu þau. Bréfin í safninu voru:

JPM bank

Citigroup bank

Wal-mart

Home Depot

Merck

Pfizer

Microsoft

Nokia

Amazon

Apple

Opera

Dell

Tvö síðasttöldu félögin var kippt af markaði, en sjálfur stofnandi Dell, Michael Dell, leiddi yfirtökuna á Dell. Verðið var á um það bil helming þess verðs sem það var þegar ég valdi það í safnið. Opera var afskráð af markaði en endurskráð sem Otello. Ég finn ekki upplýsingar um hvernig skipahlutföllin voru hjá Opera og get því ekki tjáð mig um það.[i]

Ekki hafði ég efni á því að fjárfesta sjálfur í þessum bréfum enda átti ég á þeim tímapunkti von á tvíburum og framundan var því ærin kostnaður við að stækka heimili mitt. Vona ég að einhver annar hafi þó gert það. Ávöxtun safnsins hefur nefnilega verið ævintýralega góð. Ég undanskil í útreikningum bréfin sem voru afskráð og einnig arðgreiðslur sem safnið hefur veitt árlega, sem ég myndi giska á hefði verið í kringum 1-2% árlega. Ávöxtunin er reiknuð í bandaríkjadollurum.

Hefði verið fjárfest í safninu í jöfnum hlutföllum þá hefði verið að ræða 10 bréf sem hefðu til dæmis verið $100.000 virði hvert, eða samtals $1,0 milljónir. í dag væri virði þessa 10 bréfa safns komið í $6,3 milljónir. Svarar það til um það bil 17% árlegrar ávöxtunar. Árleg ávöxtun S&P 500 hlutabréfavísitölunnar á sama tímabili var 6%, sem í lágu vaxtaumhverfi er ásættanleg ávöxtun.

Af hverju hefur ávöxtunin verið svona góð? Svarið einskorðast að stórum hluta til við tvö félög, Amazon og Apple. Þetta voru tvö félög sem fjárfestar höfðu enn á þessum tímapunkti efasemdir um. Það átti sérstaklega við um Amazon. Ég var undir töluverðum áhrifum af bókinni Good To Great eftir Jim Collins. Hann leggur mikla áherslu á það að fyrirtæki þurfi stöðugt að vera í nýjungarsköpun og taka áhættur. Amazon var á þeim tíma að taka ýmsar áhættur og fjölluðu flestir fjölmiðlar um það sem ekki gekk upp hjá fyrirtækinu en veittu því minni athygli hvaða þættir væru að tryggja fyrirtækinu yfirburði á smásölumarkaði veraldarvefsins. Síðan safnið var birt á síðum Viðskiptablaðsins hefur virði Amazon rúmlega 32-faldast og Apple rúmlega 16-faldast í virði.

Lyfjafyrirtækin Pfizer og Merck hafa veitt þokkalega ávöxtun á tímabilinu. Citigroup var berskjaldað gagnvart fjármálakrísunni árið 2008 og eru bréf þess í dag einungis 15% af því virði sem þau voru þegar að safnið var birt en JPM bankinn var hefur aftur á móti hækkað mikið í virði á tímabilinu, enda er bankinn stýrður af afar góðu teymi. Wal-mart hefur einnig veitt þokkalega ávöxtun en Home Depot hefur aftur á móti meira en þréfaldast í virði á tímabilinu. Ég valdi einnig tvo fyrrum risa í tæknigeiranum í safnið, Microsoft og Nokia, með það í huga að sú neikvæðni sem enn ríkti þá í garð tæknifyrirtækja væri verðlögð í gengi þeirra fyrirtækja og gott betur. Nokia hefur síðan þá nánast horfið af sjónarsviðinu og hefur gengi þess skroppið enn meira saman og er nú einungis um þriðjungur af því sem það var í ársbyjun 2006. Gengi Microsoft hefur aftur á móti meira en þrefaldast á tímabilinu.

Hægt er að draga lærdóm af þessu. Hér eru nokkrir punktar.

Gengi safna (og vísitalna reynda líka) veltur oft á fáum fyrirtækjum. Það sem getur virst vera örugg fjárfesting á einum tímapunkti þarf alls ekki að vera svo, Citigroup er ágætis dæmi um það en bankinn var á þeim tíma sem safnið var sett fram stærsta fjármálafyrirtæki heims. Maður á alltaf að dreifa áhættu. Mótsagnarkennt eins og það má virðast þá felst oft í því fjárfestingar að ákveðnu marki í vaxtarfyrirtækjum, ekki bara það sem „allir“ telja vera öruggar fjárfestingar. Hafandi sagt það, maður á líka að fjárfesta í „leiðinlegum“ fyrirtækjum, eins og til dæmis Wal-mart. Gengi fyrirtækja sem hafa fallið mikið getur enn haldið áfram að falla enn meira eins og sést á gengi Nokia. Stundum rísa risar þó aftur upp á afturlappirnar eins og gengi bréfa Microsoft gefur vitnisburð um. Ekki er nóg að kaupa eitt fyrirtæki í ákveðnum geira, JPM bankinn bjargaði ávöxtun þessa safns þegar kom að fjármálafyrirtækjum. 

Því má við bæta að til að ná svipaðri markaðsáhættu og flestar vísitölur hlutabréfa þá þarf einungis að kaupa 18-20 hlutabréf sem eru vel dreifð hvað varðar atvinnugeirum.

MWM

[i] Ef einhver hefur upplýsingar um þetta þá má sá aðili hafa samband við mig.

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík (2015-2022).

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta,uppsetningu verðbréfafyrirtækja, og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

https://www.researchgate.net/profile/Mar_Mixa

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira