c

Pistlar:

23. júlí 2018 kl. 14:05

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Fjárfestavernd fórnuð fyrir persónuvernd

20 stærstu hluthafar

Seint á árinu 2007 hafði ákveðinn einstaklingur samband við mig varðandi eignarhlut ákveðins einkahlutafélags í tveimur skráðum fyrirtækjum. Félagið hét Stím og félögin sem Stím átti skyndilega stóran hlut í voru FL Group og Íslandsbanki. Á þeim tíma var ekki almennt vitað um tilvist Stíms. Þessum félaga mínum þótti það afar undarlegt að óþekkt félag væri skyndilega orðið einn af 20 stærstu hluthöfum í þessum tveimur fyrirtækjum, sem alþekkt var að höfðu mikil tengsl. Grunsemdir vöknuðu hjá okkur um að ekki væri allt með felldu í þessum fjárfestingum, þó ekki væri hægt að útiloka að eðlileg skýring væri til staðar. Þessar grunsemdir jukust í kjölfar frekari rannsókna okkar á félaginu og var það kristaltært í mínum huga að þetta voru ekki félög sem rétt væri að hafa í fjárfestingarsöfnum fjárfesta.

Síðar kom í ljós að þessi kaup voru í besta falli gerð til þess að koma í veg fyrir söluþrýsting á bréfum FL Group og Íslandsbanka. Það að verið var að handstýra genginu með slíkum kaupum gaf til kynna að almenn markaðsöfl réðu ekki ferðinni varðandi markaðsvirði þessara félaga (FL Group var strax á þessum tímapunkti augljóst dæmi um gróflega ofmetið félag og hafði reyndar verið það lengi).

Upplýsingaþjónusta Kauphallarinnar

Kauphöllin hefur til fjölda ára veitt vikulegar upplýsingar um 20 stærstu hlutahafa skráðra íslenskra félaga. Ofangreint dæmi sýnir að slíkar upplýsingar geta reynst vera gulls ígildi þegar kemur að því að veita aðhald í tengslum við eignarhald fyrirtækja. Fjárfestar geta betur fylgst með þróun stærstu hluthafa með aðgengi að slíkum upplýsingum. Séu til dæmis hópar skyldra fjárfesta skyndilega farnir að mynda stóran hluta af eignarhaldi skráðs hlutafélags þá geta fjárfestar betur myndað sér skoðun um það hvort hag þeirra sé betur varið að vera í þeim hópi hluthafa eða ekki.

Segja má að Kauphöllin hafi með þessu sinnt þjónustu sem almennt fellur undir hlutverki kauphalla. Þær stuðla að því að viðskipti með verðbréf séu með þeim hætti að fjárfestar hafi sömu upplýsingar um fyrirtæki hvort sem þeir eru stórir, smáir eða hafi ítök í félögum. Þetta er til dæmis ein ástæða þess að starfsmenn fyrirtækja eru bundnir takmörkunum varðandi fjárfestingar í þeim félögum sem þeir starfa við, þar sem að þeir hafa oft betri upplýsingar um vænta afkomu vinnustaðar síns en utanaðkomandi aðilar.

Slakari fjárfestavernd

Kauphöllin tilkynnti í síðustu viku að vegna nýrra laga um persónuvernd sé ekki lengur hægt að birta þennan lista reglulega. Fari eign fjárhagslegra tengdra aðila yfir eða undir ákveðin mörk þá verði slíkt þó áfram tilkynnt í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti. Í tilfelli Stíms hefði hins vegar verið erfiðra að sjá slíka þróun og hefði það ekki komið fram fyrr en töluvert löngu síðar. Nú geta hluthafar Arion banka til dæmis ekki fengið upplýsingar um þróun hluthafa bankans, sem nú þegar er afar óljós, í framhaldi af nýlegu útboði bankans þar sem að 2/3 útboðsins fór til erlendra fjárfesta á hagstæðu gengi.

Þetta skerðir eitt af meginhlutverkum kauphalla sem er að tryggja að stórir jafnt sem smáir fjárfestar hafi sama aðgang að upplýsingum. Samkvæmt tilkynningu Kauphallarinnar má leiða að því líkum að verið sé að fórna fjárfestavernd fyrir persónuvernd, sem ég tel vera langsótt mál. Er vit í því að eign á stórum eignarhlut í skráðu félagi á Íslandi flokkist undir persónuvernd? Hér er eitthvað öfugsnúið í gangi.

Breyta þarf þessum nýlegu lögum um persónuvernd hið fyrsta í þá átt að ekki leiki vafi á að Kauphöllin geti áfram veitt upplýsingar um 20 stærstu hluthafa hverju sinni og að fjárfestar fái á nýjan leik eðlilega upplýsingagjöf.

MWM

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík (2015-2022).

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta,uppsetningu verðbréfafyrirtækja, og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

https://www.researchgate.net/profile/Mar_Mixa

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira