c

Pistlar:

24. september 2018 kl. 6:02

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Endurminningar verðbréfagutta - The Manic Millennium - Slæmt ástand verður verra 2

Þetta er framhald af kaflanum Margboðuð endalok. Ef þú hefur ekki lesið fyrsta hlutann þá er best að byrja lesturinn hérna.

Slæmt ástand verður verra

En ástandið á fjármálamörkuðum heldur áfram að versna og í miðri vikunni kemur annað áfall. Fall bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers hefur víðtækari áhrif á fjármálamarkaði en flestum óraði fyrir og eðlilega versnar ástandið enn frekar á millibankamörkuðum.  Ísland fer ekki varhluta af þessari þróun.  Öll skuldsett fyrirtæki eru komin í enn meiri vandræði.  Cash is King (ísl. peningar eru kóngurinn) hljómar allstaðar en hafði ekki skipt svo miklu máli áratugum saman.   Við Hallgerður, sem vann með mér á millibankaborðinu, höfum miklar áhyggjur af þessu og furðum okkur á því að verið væri að framlengja víxla hjá fyrirtækjum aftur og aftur, oft hjá fyrirtækjum sem við töldum einsýnt væru gjaldþrota.  Við áttum bágt með að skilja þetta og vildum vita hvernig var í pottinn búið.  Við biðjum því Markús um að hitta okkur daginn eftir til að ræða þetta mál. 

Eins og vanalega þegar að verið var að halda fundi um viðkvæm mál er farið í herbergið þar sem Chesterfield sófarnir eru.  Hvar annars  staðar er hægt að véla um viðkvæm fjármál!  Það var frábærlega skipulagt, eins og sambland af stofuherbergi og fundarherbergi á vinnustað.  Við komum okkur vel fyrir og við Hallgerður lýsum yfir áhyggjum og furðu yfir því að verið væri að endurlána fyrirtækjum sem virðast hafa litla möguleika á að geta endurgreitt okkur síðar meir.  Væri ekki nær að bjarga hag Icebank og krefjast endurgreiðslu á lánum á kostnað banka sem sannarlega eru í „liði“ þessa skuldara. 

Þetta „lið“ var að okkar mati þeir skuldarar sem tengdust bönkunum. Bæði þessir skuldarar og bankarnir þrír höfðu vart virt sparisjóðina viðlits allt uppgangstímabilið. Segja má að almennt hafi sparisjóðirnir verið í besta falli hækjur til að koma samningum á. Starfsmenn Sparisjóðs Reykjavíkur voru til að mynda orðnir afar þreyttir á því að oftast þegar þeir komu með hugmyndir um að styrkja verðbréfastarfsemi sjóðsins, þá var þeim einfaldlega komið á framfæri við Kaupþing, sem vann úr þeim og nutu ávaxtanna. Verðbréfasjóðir sparisjóðsins voru til dæmis í raun stýrðir í Kaupþingi, með merki sparisjóðsins einfaldlega smellt framan á kynningarefni hans.

Þetta breytist síðla árs 2007. Sumir starfsmenn innan sparisjóðanna voru ánægðir með þá þróun. Skyndilega voru sparisjóðirnir boðnir á kynningarfundi varðandi fjármögnun. Einn slíkur var í sambandi við fjármögnun FL-Group, sem var þá að breyta nafni sínu í Stoði. Eigendur þess fyrirtækis höfðu lengi haft tengsl við Kaupþing banka en höfðu aðallega treyst á Íslandsbanka síðustu ár, enda krosseignatengsl mikil svo vægt sé til orða tekið. Sumir túlkuðu þetta með þeim hætti að sparisjóðirnir væru nú loks hluti af genginu, en ég ásamt nokkrum öðrum innan Icebank (nafn Sparisjóðabanka Íslands á þeim tíma) túlkuðu þetta einfaldlega sem svo að ástandið væri orðið afar alvarlegt, fyrst þeir yfir höfuð nenntu að tala við okkur.

Markús virðist vera sammála okkur í meginatriðum.  Augljóst er þó að tillögur okkar munu aldrei ná fram að ganga. Hann getur illa útskýrt af hverju, nema það þó að slíkt gæti komið keðjuverkun af stað sem yrði til þess að önnur fyrirtæki og jafnvel bankar færu á hausinn.  Hallgerður verður afar pirruð yfir þessari rökleysu og benti á að þessi fyrirtæki séu hvort sem er gjaldþrota og við ættum að einblína á að lágmarka skaðann fyrir Icebank. Hún bendir til dæmis á að nýlega hafi lán verið framlengt og aukið til Baugs sem hafði skömmu áður gjaldfallið á víxlum.  Bankinn ætti nógu erfitt með að fjármagna sig sjálfur og halda úti þessum lánum, enda þurfti að veðsetja hvern einasta kopp og kirnu í lok dags til að halda honum réttum megin við núllið hjá Seðlabankanum. Niðurstaðan er sú að takmarka slíkar framlengingar en miðað við stöðu mála er í raun ákveðið að halda áfram á sömu braut.  Markús hafði hugsanlega, þegar öllu var á botninum hvolft, rétt fyrir sér; betra væri að framlengja lánin með von um að þetta myndi reddast. 

Vangaveltur um að ruðningsáhrifin gætu verið þau að allt kerfið færi í þrot og Icebank yrði þannig gjaldþrota á augabragði, voru ekki fjarstæðar.  Hvort að Markús hafi sett málið í það samhengi á þeim tíma er erfitt að segja. Sumir innan deildarinnar virtust raunar hafa sáralitla hugmynd um þá áhættu sem fylgdi ástarbréfunum né samhengi þess að ef að einn bankinn færi á hausinn þá væri Icebank sjálfkrafa líka orðinn gjaldþrota.  Ég sjálfur vissi hluta af áhættunni tengd þessum háu lánum til bankanna. Þó gerði ég mér ekki grein fyrir því hversu (risa)stórar upphæðirnar (ég áttaði mig á því skömmu eftir hrun) væru né að engin raunveruleg veð væru á bakvið þeim.

Lánalínur eru í enn meiri frystingu eftir því sem að eftirskjálftar af hruni Lehman Brothers verða augsýnilegri og neyðaraðstoð ríkissjóðs Bandaríkjanna verður stöðugt víðfeðmari.  Það er nánast patt staða komin upp í fjármögnun bankans. Litið er gert hvað viðskipti varðar og  allar eigur bankans, sem hægt er að leggja inn sem veð í Seðlabankann eru komnar þangað.  Verið er að biðja um nokkrar krónur hjá Glitni og Byr þegar á þarf að halda en jafnvel Glitnir er farinn að hætta að veita dagslán en Kaupþing og Landsbankinn hafa varla verið til viðræðu um  slíkt svo mánuðum skiptir. 

Ástandið versnar stöðugt. Eftir hádegismat  fimmtudaginn 19. september  lít ég á daglánavaxtastig á alþjóðlegum mörkuðum (það er hversu mikla vexti bankar rukka fyrir lán til eins dags í senn á milli banka).  Mig rekur í rogastans, vextir hafa farið úr um það bil 1% upp í rúmlega 5% síðan að Lehman Brothers féllu og hafa haldist þar.  Bankar taka, með öðrum orðum, um það bil 4% aukaálag í áhættuþóknun til að lána til annara banka í aðeins 24 klukkutíma!  Ég spyr samstarfsfélaga minn á gjaldeyrisborðinu hvort hann viti af þessu.  Hann svarar því að þetta sýni einfaldlega hversu tregir bankar væru að lána pening, allt traust er horfið og hver og einn banki hugsar um að bjarga sjálfum sér.  Hann virðist þó ekki gera sér grein fyrir því hversu mikilvæg þessi tala væri.  Í mínum huga er þetta ekkert annað en merki þess að sumir bankar séu í þann mund að fara á hausinn.  Fáir í kringum mig virtust deila áhyggjum mínum, enda næstum allir á svæðinu með undir 12 mánaða starfsreynslu. Sá sem hafði mesta reynslu, fyrir utan mig, var búinn að starfa þarna í rúmlega tvö ár.  Þó var þessi hópur að stýra fjármagni sem nam hátt í 300 milljörðum króna, sem samsvaraði stórum hluta efnahagi bankans.

Það var farið að fara um mig og ég rauk niður til Garðars og segi honum frá þessu. Honum er ekki skemmt enda veit hann að þetta hefur strax áhrif á íslenskt bankakerfi.  Ég hafði áður viðrað við hann hugmynd um áætlun til að laga lausafjárstöðu sparisjóðakerfisins, aðgerðaráætlun sem ég var þó farinn að hafa áhyggjur um að dugi ekki lengur til að bjarga því.  Hafandi sjálfur haft lengi áhyggjur af ástandinu, án þess að hafa haft erindi sem erfiði, biður hann mig að skrifa í flýti A4 bréf sem lýsir aðstæðum og aðgerðaráætlun mína.  Ég fer upp á skrifstofu og skrifa eftirfarandi með hraði.  Ég kýs viljandi að leiðrétta ekki slanguryrði og villur.

Sparisjóðir - lausnir

Núverandi staða, stóra og smærri myndin

Verið er að loka lánalínum til Íslands þessa daganna og er líklegt að sú neikvæða þróun haldist fram að áramótum.  Þessi þróun kemur til með að hafa dominó áhrif innan fjármálakerfisins, jafnvel verst hjá sparisjóðum.  Millibankamarkaðurinn er óvirkur og er ástandið á þeim bænum að versna. 

Hluti lausnarinnar á núverandi vandamáli er hagræðing í rekstri sparisjóða.  Jafnvel þó að slíkt yrði frágengið strax í næstu viku skila áhrifin sér of seint í kerfið.  Lausafjárstaðan lagast lítt við það og því þarf að leggja fram áætlun sem tekur bæði viðmið af skammtíma áhrifum og langtíma áhrifum. Miðað við stöðu sparisjóðanna í SPÍ verkefninu í dag tel ég ólíklegt að þeir hafi bolmagn til að kaupa bréfin til baka að ári liðnu; án meiriháttar breytinga tel ég að þeir geti það aldrei.

Staðan í dag er sú að fjármálafyrirtæki eru að fara á hausinn víðsvegar í heiminum.  Fyrirspurnir um hvaða fjármálastofnun megi treysta varðandi sparifé er að stigmagnast að því marki að ein óvarleg frétt hjá fjölmiðlum, sem við stýrum engan veginn, gæti hrundið af stað „run“ á fjármálastofnanir.  Þar sem umræðan hefur verið sérstaklega neikvæð í garð sparisjóða er líklegt að þeir verði fyrst og fremst fyrir barðinu á þeirri framvindu; væru sparisjóðir sem í dag eru í „fínum málum“ ekki undanskildir slíkri árás.

Aðgerðaráætlun

Ljóst er að ekki megi mikið útaf bregða að traust almennings gagnvart sparisjóðum bresti og innstæður hverfi.  Slíkt má alls ekki gerast og þarf að bregðast við strax til að hindra þá þróun.  Með þetta í huga legg ég til að eftirfarandi vinna verði sett af stað samhliða sameiningum sparisjóða.

Íbúðabréf sparisjóða verða að hluta til seld til Íbúðalánasjóðs.  Þessi lán eru þung byrði á sjóðina: a) vextir þeirra eru langtum lægri en fjármögnunarkostnaður íslenskra fjármálafyrirtækja, sem þýðir að þessi útlán veita neikvæða ávöxtun. b)  Með stöðugt lækkandi eignahlið þá versnar CAD hlutfallið.

Með þessu fæst aukið fjármagn í kerfið strax í dag sem lagar lausafjárstöðuna.  Þau rök að sparisjóðir fái að kaupa bréfin aftur síðar meir eru hreinlega ekki til staðar og betra er að horfast í augu við það strax.  

Þessi aðferð hefur verið notuð í Bandaríkjunum nú nýverið í mismunandi formum.  Innlán eins banka voru yfirtekin af öðrum stærri banka og ríkið fékk á móti útlánasafn þess.  Í gær voru áætlanir ríkisins í Bandaríkjunum kynntar á þann veg að sérstök stofnun yrði sett á laggirnar með það fyrir augum að flytja vandræðaútlán, fyrst og fremst fasteignalán, úr bókum fjármálafyrirtækja.   Þetta er sjálfssagt gert til að flýta ferlinum í stað þess að glíma við eina fjármálastofnun í einu.

Íbúðalánasjóður gæti verið þessi stofnun hérlendis, sem hreinlega kaupir útlánin og lagar þannig skammtímafjármögnunarþörf fjármálafyrirtækja.  Annar möguleiki væri að lífeyrissjóðir keyptu hluta útlána en gallinn við slíka útfærslu er að slíkt tekur tíma og væri frekar seinni tíma aðgerð.

Verði beðið með þetta gæti sú staða komið upp að „nauðungarsölur“ verði nauðsynlegar og eigið fé horfið.

Tímarammi

ASAP – þetta þarf að gerast nánast á einni nóttu og er spurning hvort ekki eigi að klára þetta næstu helgi.  Best væri að tilkynna þetta nánast samtímis samruna sparisjóða.  Það ætti að tryggja traust almennings hérlendis og erlendra fjármálastofnanna.   Sögulega hafa ofangreindar aðgerðir verið merki um veikleika, í dag eru þetta merki um að verið sé að taka á málunum með fyrirbyggjandi aðgerðum áður en það er of seint.  

Þetta eru ekki góðir kostir.  Af nokkrum slæmum kostum tel ég þessa vera þó besta.

Mér vannst vel enda var ég búinn að vera að velta þessu mikið fyrir mér. Uppkastið var  tilbúið um klukkan fjögur síðdegis.  Á þeim tíma var vinna í gangi varðandi stofnun eignarhaldsfélags á íbúðalánum þriggja  sparisjóða sem lögðu fram veð gegn greiðslu frá Seðlabankanum til að laga lausafjárstöðuna.  Ég hafði haft áhyggjur í nokkra mánuði að slíkt dyggði ekki til og var nú að verða sannfærður um það.  Hugmyndin að því að fá Íbúðalánasjóð til að einfaldlega kaupa lánin er ekki alveg ný af nálinni. Sjóðurinn var búinn að kaupa íbúðalán af sparisjóðum í nokkur ár (svolítið sem ég svo sem aldrei skildi).  Að gera slíkt með flýti er hins vegar uppfærð aðgerð sem Bandaríkjastjórn hafði gert varðandi banka í suður-ríkjum landsins sem heitir Regions Financial og lánar helst til smárra fyrirtækja og húsnæðiseigenda.  Hér er verið að staðfæra þá hugmynd sem hafði raunar farið afar hljótt um.

Í hasti kalla ég Markús og starfsmann millibankaviðskipta á fund til mín.  Þeir virðast ekki hreinlega skilja hvað sé að eiga sér stað og yppta einfaldlega öxlum með svipuð svör um að ástandið væri slæmt.  Hallgerður vill gera eitthvað strax og ítrekar að við séum með slatta af útistandi víxlum sem líklegast verða aldrei endurgreiddir.  Fundur lognast út af án niðurstöðu.  Ég bið Ara um að koma í flýti og segi honum að ég hafi samið þetta í samráði við Garðar, sem telur að kerfið sé í þann mund að hrynja, það þurfi að gera eitthvað strax.  Hann les yfir blaðið, leggur það frá sér og lítur fjarrænt fram fyrir sig í nokkrar sekúndur.  Að lokum  stendur hann upp með sama svip og segir að ég megi svo sem gera það sem mér sýnist í þessu. Það sé í lagi að vinna þetta með Garðari, við hefðum unnið vel saman í fortíðinni og hann óski mér velfarnaðar í  málinu.

Lausn að vandanum er í mínum huga augljóslega ekki við það að fæðast innan Icebank.  Ég hringi í Garðar sem biður mig að hlaupa niður á bílastæði og láta sig hafa eintak af samantektinni, hann sé á leið á fund í Íbúðalánasjóð til að ræða stöðuna og vilji þetta plagg til að fara betur undirbúinn varðandi þessi atriði, gott sé að hafa eitthvað í hendi.  Mér líður eins og verið sé að koma með örvæntingarfulla áætlun í keppnisleik þar sem að ný og djörf hugsun væri nauðsynleg til að bjarga liðinu frá tapi.  Í þessu dæmi er þó ekki að ræða einn leik heldur framtíð sparisjóðakerfisins í heild sinni.  Ég hleyp, í orðsins fyllstu merkingu, niður á bílastæði þar sem að Garðar bíður áfjáður eftir mér og fer hratt yfir helstu atriðin í samantekt minni með honum.  Hann hlustar einbeittur á svip, grípur blaðið og arkar út í bíl með áhyggjur sínar og þetta skjal að vopni til að koma af stað björgunaraðgerðum fyrir sparisjóðina.

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík (2015-2022).

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta,uppsetningu verðbréfafyrirtækja, og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

https://www.researchgate.net/profile/Mar_Mixa

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira