c

Pistlar:

15. mars 2019 kl. 8:51

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Netbankar og aðrir bankar

Nýr (innan gæsalappa) banki sem nefnist Auður var settur á laggirnar í vikunni. Auður, sem er í eigu Kviku banka, svipar mjög til netbanka Sparisjóðs Hafnarfjarðar, S24, sem starfaði frá árinu 1999 fram að falli sparisjóðsins, sem hafði reyndar á þeim tímapunkti sameinast Sparisjóði vélstjóra undir hinu andlausa heiti Byr sparisjóður. S24 bauð ávallt uppá bestu vaxtakjör sem fáanleg voru á markaði, bæði hvað varðar innláns- og útlánsvexti auk þess sem að bankinn bauð einnig Íslendingum fyrstur val á því að taka óverðtryggð húsnæðislán (sem engin(n) hafði áhuga á, ótrúlegt en satt). Yfirbygging S24 var lítil og í mínum huga markaði starfsfólk þessa netbanka framtíð íslenskrar fjármálaþjónustu á netinu.

Íslandsbanki sýndi lengi vel áhuga á því að kaupa S24 vegna sérstöðu netbankans, en þegar að Byr sparisjóður féll í kjöltu þess í framhaldi af hruninu ákvað Íslandsbanki einhverra hluta vegna að innlima S24 í netbanka sinn og stroka út öll sérkenni bankans, eins og þau frábæru vaxtakjör sem fólk gat gengið að vísu á þeim bænum.

Nú, heilum tíu árum síðar, kemur Kvika banki með netbanka sem er einfaldur í uppbyggingu og veitir fólki í fyrsta sinn síðan S24 var og hét almennileg vaxtakjör á óbundnum innlánsreikningum. Þetta leiðir hugann á því hversu slappir íslenskir bankar hafa verið gagnvart viðskiptavinum sínum, sem eru einnig eigendur tveggja þeirra, varðandi innlánskjör.

Þetta undirstrikar einnig ýmis spurningarmerki varðandi stefnu þeirra. Ólöf Skaptadóttir skrifaði á miðvikudaginn (13.3.2109) pistil í Fréttablaðinu í tilefni þess að Auður var að hefja starfsemi sína. Hún bendir á að uppbygging Auðar sé einföld sem veiti Kviku banka tækifæri til þess að veita innstæðueigendum almennileg vaxtakjör. Ólöf veltir því einnig fyrir sér hver stefna Landsbankans sé. Á meðan að Kvika beinir sjónum sínum á að einfalda þeim hluta af rekstri sínum sem snýr að einfaldri bankastarfsemi þá ætlar Lansbankinn að byggja stórar höfuðstöðvar á dýrasta bletti Reykjavíkurborgar. Ólöf líkir þetta við að reisa 9 milljarða króna DVD-verksmiðju árið 2019; ég verð að taka undir þau orð. Á sama tíma ákvað Íslandsbanki, hinn bankinn í eigu ríkisins, að færa höfuðstöðvar sínar enn fjær miðbæ Reykjavíkur (þær gömlu voru vel að merkja orðnar ónýtar).

Væri ég í bankaráði Landsbankans þá myndi ég leggja til að bankinn myndi, svo lengi sem hann væri í eigu ríkisins, einfalda starfsemi sína. Hann myndi sinna einfaldri bankaþjónustu fyrir almenning og láta öðrum eftir að veita flóknari bankaþjónustu. Í því gæti falist að selja þann hluta bankans sem sinnir flóknari bankaþjónustu (ég hef verið í viðskiptum við bankann og veit að starfsemi þess sem snýr að verðbréfum er verðmæt því þar liggja verðmæti í reynslu og þekkingu starfsmanna). Í því fælist að hætta að bruðla með almannafé og reisa óþarflega dýrar höfuðstöðvar og einblína frekar á þjónustu í anda þess sem S24 var og Auður er nú.

MWM 

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík (2015-2022).

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta,uppsetningu verðbréfafyrirtækja, og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

https://www.researchgate.net/profile/Mar_Mixa

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira