c

Pistlar:

2. apríl 2013 kl. 12:29

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Varstu ekki örugglega edrú?

Eftir að hafa hitt tískuhönnuðinn Marc Jacobs í Lundúnum á dögunum lá leiðin til vesturstrandar Bandaríkjanna. Þótt hitastigið í Kaliforníu sé dálítið hærra en í miðborg Lundúna í mars þá er alls ekki svo mikill munur á sumartískunni á þessum ólíku stöðum. Helstu tískuhönnuðir heims eru alveg á því að kvenpeningurinn eigi að vera sjálflýsandi þetta vorið. Til að byrja með læddist neonið inn í litlum skömmtum en nú er allt flæðandi í þessari litapallettu og ekki úr vegi að vera í neoni við neon - í sama lit - allt í stíl.

Þótt sólin og sumarið hafi togað mest í mig er samt ekki hægt að fara í frí nema að spóka sig aðeins um í „mollunum" (þótt það hljómi hræðilega sjoppulega ...). Það þarf einhver að standa vaktina og athuga hvort saumaskapurinn sé ekki ennþá til fyrirmyndar hjá Bottega Veneta eða hjá tískusystrunum Prödu og miu miu. Það þarf líka að athuga hvort kjólarnir frá Diane Von Furstenberg séu ekki ennþá jafn grennandi, hvort Michael Kors töskurnar séu jafn vandaðar og í Vogue og hvort Gucci hafi bara verið eitthvað góðærisflipp sem er búið að vera.

Eftir ítarlega eftirlitsferð komst ég að því að það þarf ekki að toga mig inn fyrir þröskulda í þessum fínu búðum og það má alveg skoða, koma við, máta og finna lyktina þótt maður renni ekki kortinu í gegn í hvert skipti sem maður hnýtur um eitthvað fallegt. Ég verð reyndar að játa að ég var dálítið fegin þegar ég komst að því að ökklaháu neonappelsínugulu Gucci skórnir (með hærri hælnum) voru ekki til í 39. Þá þurfti ég ekki að spá í því meir ...

Verslanirnar í Fashion Island og South Coast Plaza keyra upp stemninguna og veita innblástur. Svo mikinn innblástur reyndar að þegar heim var komið velti ég því fyrir mér hvort ég hefði ekki örugglega verið edrú í þessum verslunarleiðöngrum mínum. Þegar ég tók upp úr töskunum var hitinn við frostmark í Reykjavík City og allt þetta neon-litaða varð einhvern veginn helmingi skærara en í sólríku Kaliforníu.

Neon-lituðu fötin fara reyndar vel við sólkysstar kinnar og hið afslappaða yfirbragð sem einkennir úthvíldar konur, en það gæti versnað í því þegar sótsvartur raunveruleikinn tekur við ..