c

Pistlar:

24. júní 2013 kl. 11:52

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Ælt og andað í poka

Líf konunnar getur verið flókið og oft geta komið upp klikkuðustu aðstæður þegar síst er von á og þá er gott að vera alltaf við öllu búin.

Í vikunni frétti ég af einni vandaðri konu sem hafði ákveðið að halda sómasamlega upp á 17. júní - eins og konur gera. Konan vaknaði snemma morguns hinn 17 þrátt fyrir að hafa haldið aðeins of vel upp á fæðingardag Jóns Sigurðssonar hinn 16. Konan reif sig á fætur snemma, fór út að hlaupa, bar á sig bólgueyðandi andlitsmaska og drakk nokkra græna drykki áður en hún smellti sér í spariguggugallann.

Í sínu fínasta pússi mætti hún með börnin í miðbæ Reykjavíkur en hún gleymdi alveg að taka það með í reikninginn að börn vilja helst hanga endalaust í hoppköstulum og tívolítækjum og það getur tekið á mæður sem eru ekki nógu heilsuhraustar.

Þegar börnin heimtuðu að fara í tæki sem snérist í allt of marga hringi, en virtist þó saklaust svona úr fjarlægð, lét hún tilleiðast. Hún var búin að bíða í um það bil 20 mínútur í röð fyrir framan tækið þegar röðin kom loksins að henni. Hún lyfti kjólnum upp og klifraði upp í tækið en grunaði ekki að hún myndi líklega ná lágpunkti tilveru sinnar nokkrum augnablikum síðar.

Þegar tækið var um það bil hálfnað varð konunni svo hryllilega óglatt að hún sá sér ekki annað fært, þegar ælan var komin upp í munninn, en að láta hana gossa út fyrir tækið (svo lítið bæri á). Í örvæntingu leit hún í kringum sig og vonaði heitt og innilega að enginn hefði séð til hennar. Hún var svo ringluð og svo óglatt að hún sá alls ekki skýrt. Hún prísaði sig sæla yfir því að hafa verið með stóran trefil um hálsinn þannig að hún gat þurrkað síðustu æludropana úr andlitinu með treflinum og stungið honum síðan í töskuna sína og haldið áfram gleðinni í bænum.

Sagan af ælandi konunni í tívolítækinu er líklega ekki af fyrsta skipti sem kona ælir við óheppilegar aðstæður. Ég veit um eina sem neyddist einu sinni, eftir að hafa verið allt of glöð kvöldinu áður, að æla ofan í GUCCI-tösku. Þegar hún réð ekki lengur við ógleðina ákvað hún frekar að láta töskuna finna fyrir því en að verða sér til háborinnar skammar í leigubíl í erlendri stórborg. En það var náttúrlega bara vegna þess að hún er vönduð og fín dama.

Önnur kona var í svipuðu ásigkomulagi á dögunum í bílalúguröðinni fyrir utan KFC þegar hún þurfti skyndilega að losa sig við fæðu síðasta sólarhrings. Hún sá ekkert annað í stöðunni, þegar ógleðin náði tökum á henni, en að opna bílhurðina og láta vaða og lét eins og ekkert hefði ískorist þegar röðin kom að henni og vinkonu hennar í lúgunni.

Konurnar í bílnum þökkuðu svo fyrir að keyra um á bíl með skyggðum rúðum svo það hefði ekki sést hvaða glæsikonur þarna væru á ferð. Sá sem hefði séð til þeirra hefði án efa getað náð sér í aukapening með því að hringja inn fréttaskot í DV eða Séð og heyrt.

Sá lærdómur sem draga má af þessu er að vera alltaf með plastpokarúllu í töskunni. Þú veist aldrei hvað gerist næst í lífi þínu. Ef þú þarft ekki að æla í pokann getur vel verið að það komi upp sú staða að þú þurfir að anda í pokann ...og þá bara gerir þú það!