c

Pistlar:

7. júlí 2013 kl. 13:39

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Minnkaðu "sjoppuganginn"

Ein mest lesna grein Smartlands í síðustu viku var viðtal við Margréti R. Jónasar förðunarmeistara þar sem hún sagði að kvenpeningurinn ætti að gæta þess vel að oflita ekki á sér augabrúnirnar því það gerði okkur svo „ódýrar“. Sumir kalla svona ofmótaðar og oflitaðar augabrúnir „skinku-augabrúnir“ en trendið varð upphaflega til í Bretlandi.

Það hlýtur að liggja í augum uppi að það vill engin kona vera „ódýr“ í útliti en skilin á milli þess sem er „ódýrt“ og „rándýrt“ geta verið óljós. Þar spilar smekkur konunnar líklega inn í en eins og þær vita, sem eru með fulla greind og meðvitund, þá getur hann verið misjafn. Þar fyrir utan gengur konan í gegnum allskonar tímabil í lífi sínu sem getur kallað á allskonar hliðarspor sem hægt er að skammast sín fyrir síðar á lífsleiðinni. Konan er nefnilega allskonar og hefur umhverfi, starf, búseta, aldur, barneignir, fjárhagur og félagsskapur mótandi áhrif á stíl og smekk konunnar – alveg sama hversu fylgin sér hún er.

Ég er alin upp við að konur eigi að vera vandaðar en ekki „sjoppulegar“ en þó geta komið upp „sjoppuleg“ augnablik hjá mjög vönduðum konum. Ég hef til dæmis mætt á frumsýningu í leikhúsinu og áttað mig á því í hléinu að ég er með slef á öxlunum eða hor og matarleifar á miðjum lærum. Þótt synir mínir tveir séu vel upp aldir hafa þeir átt það til í gegnum tíðina að nota fötin mín sem þvottastöð. Þegar þessar aðstæður koma upp verð ég alltaf babú babú yfir því að salerni á opinberum stöðum séu ekki með venjuleg tauhandklæði. Það er vonlaust að ná matarleifum eða hori úr fötum með pappírsþurrkum...

Ég lærði það snemma að maður fer til dæmis með skóna sína til skósmiðs áður en hælarnir á þeim fara að yddast upp eins og blýantar. Einhvern tímann var ég spurð að því hvort ég væri hrifin af skósmiðnum mínum því það gæti ekki talist eðlilegt hvað ég heimsótti manninn oft. Viðkomandi hafði líka orð á því að það hlyti að vera gagnkvæmt því það væri langt frá því að vera eðlilegt hvað ég fengi alltaf góða þjónustu hjá honum. Ég svaraði því að þetta væri viðskiptasamband í sinni hreinustu mynd. Hann „trítaði“ mig, ég tæki upp veskið og allir væru alsælir. Ég kæmi alltaf aftur og aftur og þannig sæi ég til þess að hjól atvinnulífsins snerust af fullum krafti þarna á Grettisgötunni.

Það er mikilvægt fyrir konuna, sérstaklega ef hún er pínulítið óskipulögð, að eiga í góðu sambandi við fagmenn sem minnka „sjoppuganginn“ í tilveru hennar. Góð sambönd eru búin til með því að vera alltaf í viðskiptum við sama aðilann, vera kammó og spjalla, því þá eru meiri líkur á að þú fáir alltaf „VIP“-þjónustu. Þú þarft að eiga í „VIP“-sambandi við hárgreiðslumeistarann þinn því þú verður að geta stólað á að viðkomandi komi þér alltaf að þegar þú ert skyndilega komin með rót. Það er nefnilega fátt „sjoppulegra“ en hár í þannig ástandi og ef konan treystir sér ekki til þess að halda því við er betra að sleppa öllum svona bjútítrixum og vera bara alveg náttúruleg. Músalitur er nefnilega mun fallegri en marglitt hár með rót.

Þær sem ætla að vera vandaðar verða að muna að vel straujuð föt eru vandaðri en óstraujuð og vandaðar konur fara ekki út í hnökruðum fötum, of stuttum pilsum, of flegnum bolum og síðast en ekki síst skiptir máli að ilma alltaf vel. Þegar „sjoppugangurinn“ verður of mikill í lífi okkar getum við huggað okkur við það að þetta er bara „tímabil“ og þeim lýkur yfirleitt fyrr en okkur grunar...