c

Pistlar:

5. ágúst 2013 kl. 12:05

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Nagandi eftirsjá ...

Uppáhaldstíminn minn er að fara í hönd – síðsumarið. Í rökkrinu ríkir ákveðin stemning. Eftir tíma bjartra sumarnótta tekur dulúðin völdin og þá getur allt gerst. Síðsumrið og haustið framkallar ógleymanleg augnablik og ævintýri sem húðflúra sálina með góðum minningum.

Eftir mikið neon og bera fótleggi er alltaf eitthvað svo hressandi að hlussast aftur í sokkabuxurnar og leðurstígvélin og vefja hlýrri peysu utan um axlirnar. Í ágúst setjum við á okkur örlítið dekkri varalit (jafnvel í berjalit) og auðvitað þykkari maskara (fyrir þær sem eru ekki háðar augnháralengingum). Dökki varaliturinn og meira farðaða andlitið fer betur við síðsumarið en hásumarið. Ef við værum í síðsumarsskrúðanum um hásumar gætu menn (og konur) haldið að við værum vaktstjórar í kampavínsklúbbi.

Þegar síðsumrið gengur í garð skiptum við um ham og breytum um áherslur. En hvernig er best að bera sig að til að geta tekið á móti síðsumrinu á viðeigandi hátt? Helstu tískupæjur Bretlands segja að við verðum að eiga klofhá stígvél, helst úr rúskinni. Það getur vel verið að það sé rétt, það „lúkkar vel“ á þeim sem eru sirka 179 á hæð og 57 kíló, en ekki alveg jafnvel á okkur smáhestunum. Ég mæli því með rúskinnsstígvélum sem ná upp að hnésbót nú eða slönguskinnsstígvélum. Í hausttískunni eru stríðsáraleg pils áberandi sem ná niður fyrir hné. Við pilsin er fallegt að vera í stígvélum sem ná upp undir pilsin. Það er svolítill Dallas-fílingur í þessu sem undirrituð fær aldrei nóg af.

Þegar ég var í Kaliforníu síðast mátaði ég grá rúskinnsstígvél frá hinni ítölsku Prödu sem ég dauðsé núna eftir að hafa ekki keypt (þau voru á útsölu). Þau voru reyndar ekki klofhá, en náðu alveg upp að hnésbót og voru með fylltum hæl. Vandamálið er að ég var svo sveitt eitthvað þarna í hitanum að það skapaðist glundroði í hausnum á mér sem gerði það að verkum að hann fúnkeraði ekki eðlilega. Það gæti líka verið að hagsýna húsmóðirin hafi talað í gegnum mig – get ekki greint þar á milli. Núna er ég með nagandi eftirsjá að hafa ekki keypt þau því þessi stígvél hefðu aldeilis gert góða hluti í lífi mínu á síðsumarkvöldum.

Ég þekki þessa nagandi eftirsjá vel en hún tengist ávallt dauðum hlutum – ekki tilfinningum (sem ég veit ekki hvort er gott eða slæmt). Nagandi eftirsjáin heltekur mig yfirleitt nokkrum mánuðum eftir að ég kem heim úr ferðalögum án þess að hafa keypt það sem mig dauðlangaði í. Ég gæti talið upp langan lista af fíneríi sem ég keypti ekki en langaði í en tvennt stendur þó upp úr og það eru silfurglimmerskórnir frá Miu Miu sem ég keypti ekki og Gucci-rúmteppið sem ég hnaut um í Outletti á Ítalíu en keypti ekki. Ég á það til að spyrja mig hvort líf mitt hefði orðið öðruvísi ef ég hefði látið þetta eftir mér ... og hvort það hefði orðið meira stuð.

Beittustu hnífarnir í skúffunni segja að þetta séu hreinræktaðar gerviþarfir og stuðið hefði ekki orðið meira. Ég er þó ekki viss. Mér finnst líklegra að kona í glimmerskóm lendi í fleiri ævintýrum en kannski er það bara misskilningur. Því miður mun ég líklega aldrei komast að því þar sem skórnir eru löngu uppseldir enda úr sumarlínunni 2011...