Pistlar:

29. ágúst 2013 kl. 16:36

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Smáhestar á hlaupum og fleira

Í dag er stór dagur í lífi smáhestsins. Í rúmlega hálft ár hefur hann hlunkast um götur borgarinnar með það markmið að reyna að komst óskaddaður í mark eftir 21 km hlaup. Á meðan þú, lesandi góður, ert líklega að hafa það notalegt heima hjá þér yfir morgunkaffinu er smáhesturinn án efa móður og másandi, nær dauða en lífi, á hlaupum í rigningu. Ef ske kynni að þetta yrði síðasti pistill smáhestsins ætlar hann að ræða um tvær mikilvægustu flíkurnar í fataskápnum þetta haustið.

Helstu tískuhönnuðir heims vilja hafa okkur í stórum og miklum ullarkápum þennan veturinn. Ullarefnin eru ýmist köflótt eða með tweed-munstri, einlit eða upphleypt. Sniðin minna töluvert á tísku sjöunda áratugarins þegar konur settu grófar krullur í hárið og varalitirnir voru rústrauðir eða brúnir.

Svona „stórar“ kápur eru ferlega flottar á síðum tískublaðanna en það er dálítill vandi að klæðast þeim án þess að við lítum út fyrir að hafa fitnað mjög skyndilega um 20 kíló. Ég veit að það er „turn off“ að tala um kílóafjölda en ég veit bara ekki um neina manneskju sem óskar eftir slíkri þyngdaraukningu. (Meira að segja Guðni Ágústsson er hættur að borða sykur og ég sé ekki betur en Davíð Oddsson haldi í við sig.)

Þess vegna þurfum við að velja okkur „stórar“ kápur sem fita okkur ekki. Þær brjóstamiklu og mittisgrönnu ættu að velja sér kápur með belti þannig að hægt sé að sýna kvenlegar línur. Það skiptir líka máli að kápurnar séu ekki of stífar og úr of þykku efni. Þær sem eru hins vegar magamiklar en með minni brjóst ættu að velja sér kápur sem þrengja alls ekki að mittinu. Og svo skiptir síddin máli. Mér finnst yfirleitt smartast að vera í hnésíðu því það er einhvern veginn alltaf öruggt.

Haustið færir okkur þó nýja sídd og nær hún niður á miðja kálfa. Ég hélt að smáhestar gætu alls ekki unnið með það, en viti menn. Þegar þeir eru komnir í leðurstígvél við sem ná uppundir kjólinn þá gengur það upp og er það smart að amma smáhestsins hafði orð á því hvað þetta væri lekkert...

Það er ljóst að við getum ekki verið í kápum einum fata í vetur og þá kemur kjólatíska haustsins eins og stóri lottóvinningurinn. Kjólar eru guðsgjöf mjög upptekinna kvenna. Ef þær uppteknu eiga réttu kjólana þurfa þær ekkert að hugsa um annað en að hlussast í sokkabuxur og skó við.

Kjólar gera líka mikið fyrir okkur því um leið og við erum komnar í mörg lög af fötum, pils, skyrtu, peysu yfir og jakka, virkum við lágvaxnari. Að sjálfsögðu er smáhesturinn búinn að „mastera“ þetta eftir meira en áratugar tískuskrif. Þegar við erum í heilu stykki (frá brjóstum og niður að hnjám) virkum við hávaxnari. Ég veit að arabískir veðhlaupahestar þurfa ekki að spá í það, en smáhestar þurfa það svo sannarlega.

Þetta hljómar kannski ekki spennandi en það verða eiginlega allar konur að eiga einn svartan, vel sniðinn, ermalausan kjól sem framkallar þessa stemningu (að vera í heilu stykki frá brjóstum og niður að hnjám). Þetta er algerlega klassíska flíkin sem þú þarft að eiga. Á síðustu sjö árum er ég búin að slíta fimm svona kjólum. Það hlýtur að segja okkur eitthvað... eða kannski er konan bara að eldast... (sem ég veit ekki hvort eru góðar eða vondar fréttir).
Marta María Jónasdóttir

Marta María Jónasdóttir

Fréttastjóri dægurmála á mbl.is, martamaria@mbl.is Meira