c

Pistlar:

13. október 2013 kl. 12:26

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Ekki á röngunni - bara á hvolfi

Mikil ósköp getur verið snúið á köflum að vera alltaf á réttunni – ekki röngunni, lifa í núinu, ýta leiðinlegum hugsunum út af hugsunarbrautinni jafnóðum og þær birtast og hlusta ekki á 8 ára stelpuna (sem býr innra með mér og tekur stundum völdin með tilheyrandi frekjuköstum...).

Það gefur augaleið að 8 ára stelpa getur ekki tekist á við verkefni fullorðinnar tveggja barna móður í miðbænum og hún getur alls ekki stýrt langvinsælasta lífsstílsvef landsins.

Þess vegna skráði ég mig á jóganámskeið í byrjun september til þess að skerpa aðeins á mikilvægustu þáttum tilverunnar – andlegri og líkamlegri heilsu.

Jóganámskeiðið byrjaði vel, ég komst í hundinn án teljandi vandræða, en það sem ég átti alls ekki von á var að ég myndi í lok námskeiðs komast í allskonar undarlegar jógastöður eins og höfuðstöðu sem er víst ein besta stelling sem hægt er að komast í. Samkvæmt nýjustu rannsóknum er höfuðstaða ekki bara styrkjandi fyrir líffæri líkamans heldur keyrir hún upp kynþokkann, eykur ljóma húðarinnar, sléttir úr hrukkum og gerir grátt hár aftur venjulegt á litinn... sem hljómar náttúrlega bara eins og í lygasögu!

Með því að fara í höfuðstöðu örvast blóðflæðið til heilans og heiladingulsins sem stýrir kirtlum líkamans. Sérfræðingar segja að höfuðstaða auki ljóma húðarinnar, bæti kynlífið, hafi áhrif á nýrnahetturnar, auki magn jákvæðra hugsana og minnki þunglyndi. Auk þess minnkar höfuðstaða bjúgsöfnun, eykur líkamshita og styrkir djúpvöðva líkamans.

Það sem er þó albest við þessa stöðu er að hún er eitt besta partítrix sem til er. Síðustu daga hef ég æft höfuðstöður í höfuðstöðvum Smartlands í Hádegismóum 2 í Árbænum við mikla kátínu viðstaddra. Sem gerði það að verkum að áður en ég vissi af var ég komin í höfuðstöðu í afmæli föður míns að viðstöddu fjölmenni – eins og konur á fertugsaldri gera...

Þar sem ég hef aldrei komist í handahlaup, getað brett upp á augnlokin, labbað á höndum eða dregið spotta á milli nasanna get ég ekki annað en glaðst yfir þessum mikla sigri á íþróttasviðinu.

Ég er þó ekki eina kona landsins sem stendur á haus daglega því heilsudrottningin Solla Eiríks getur farið í handstöðu hvar og hvenær sem er. Þegar við handstöðu-systurnar hittumst í boði í vikunni slógum við ekki um okkur með spilagöldrum heldur höfuðstöðum – eins og vandaðar konur gera. Ég er ekki frá því að þessi höfðustöðudella sé að skila árangri því þessi 8 ára hefur nánast látið mig í friði upp á síðkastið og alls ekki verið með neinn derring. Það má gleðjast yfir því!