c

Pistlar:

2. desember 2013 kl. 10:11

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Sósaðu þig í Chanel

Heitasta trendið í desember þetta árið er að eiga „ljóta jólapeysu“ en að því komst ég, mér til mikillar skelfingar, þegar allir og amma þeirra mættu þannig klæddir í vinnuna (nema Haraldur, Davíð og Kolla Bergþórs). Ég myndi ekki slá hendinni á móti „ljótri jólapeysu“ en líf mitt hefur einhvern veginn þróast þannig að aldrei hef ég um ljótu peysuna hnotið. Líklega er það vegna þess að mér finnst einhvern veginn skynsamlegra að eyða aurunum sínum í eitthvað fallegt og dásamlegt – ekki einhvern forljótan andskota.

Fyrir þá sem ætla að vera „all in“ í desember kemur sér reyndar ágætlega að eiga „ljóta jólapeysu“ og ganga í henni daglega. Flestar peysurnar eru með svolítið víðu sniði og fela þannig desembervömdina sem belgist út þegar fólk hakkar í sig öll sætindi sem á vegi þess verða. Svo ekki sé minnst á þá sem fá „bjórjóladagatal“ og neyðast til að drekka einn kaldan hvern einasta dag desembermánaðar. Fyrir þá sem eru dálítið í bjórnum ætla ég að minna á að í einum stórum bjór eru jafn margar hitaeiningar og í tíu brauðsneiðum með smjöri. Þá má alveg spyrja sig að því hvort þú myndir borða tíu brauðsneiðar og fá þér strax aðrar tíu, og aðrar tíu og aðrar tíu...

Í vikunni heyrði ég í konu sem rekur veitingastað. Þegar ég spurði hana hvernig fyrsta helgi „jólahlabbanna“ hefði gengið andvarpaði hún og trúði mér fyrir því að fólk færi dálítið út af veginum á þessum samkomum. „Fólkið sem kemur er með tvennt í huga – að troða sig út af mat og drekka mikið.“ Þegar ég spurði hana nánar út í þetta játaði hún að það hefði þurft að hnippa í nokkrar virðulegar konur því þær hefðu orðið pöddufullar strax í forréttahlaðborðinu og óttuðust menn að þær myndu sofna ofan í brúnu sósuna og kalkúnafyllinguna.

Mikið er þetta vandað og lekkert hugsaði ég með mér. Auðvitað er desembermánuður allt of pakkaður af alls konar uppákomum og við þurfum virkilega að hlaupa hratt ef við ætlum að ná að stimpla okkur inn í allt sem í boði er. Og sundum þarf fólk að drekka til að komast í gegnum alla kaótíkina – þannig er raunveruleikinn hjá sumum. Það er því ekki úr vegi að staldra aðeins við og spyrja okkur sjálf hvernig drauma-desember sé?

Mér finnst skipta máli að draga andann og njóta – smakka á kalkúninum með fyllingunni, ekki vera sjálf fyllti kalkúnninn...

Þótt það sé mikið að gera í samkvæmislífinu megum við ekki hætta því sem heldur okkur inni á veginum í okkar daglega lífi. Við þurfum að hreyfa okkur eitthvað pínulítið á hverjum degi, fá hjartað til að slá og ekki síst gefa okkur tíma til að fara í langar baðferðir.

Jólasveinninn kom snemma í ár og færði mér funheitt Chanel No. 5 freyðibað. Þegar undirrituð er búin að sósa sig í Chanel í 20 mínútur eða svo verður lífið eitthvað svo dásamlegt – allavega mun dásamlegra en að sósa sig á „jólahlabba“ eða drepast fyrir skaup. Fyrir 50 árum var Marilyn Monroe spurð að því í hverju hún svæfi og auðvitað stóð ekki á svarinu: „Í Chanel No. 5.“

Það má alltaf vinna eitthvað smá með það – er það ekki?