Pistlar:

9. desember 2013 kl. 10:55

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Árið 2000 var að hringja

Uppáhaldsmánuðurinn minn er genginn í garð. Mánuðurinn þegar má vera eins og jólatré alla daga án þess að fá skrýtnar athugasemdir frá þeim sem þora ekki að lifa til fulls. Þetta er líka mánuðurinn sem maður á að hitta vini sína meira að kvöldlagi en venjulega. Og þetta er líka mánuðurinn þar sem má drekka eitthvað örlítið sterkara en Malt og Appelsín ... (í hófi – hitt er svo hryllilega sjoppulegt – við vorum búin að fara yfir það).

Líklega er heppilegast að setja allt glimmerið í baðskápunum á augnlokin, dökkan blýant inn í augun og jafnvel rauðan varalit – bara svona svo maður káli sér ekki fyrir hádegi í öllu myrkrinu. Svo er ágætt að vera með bronsgelið við höndina og dassa létt yfir andlitið svo maður líti yfir höfuð út fyrir að vera á lífi. Vandaðar konur eru náttúrlega löngu búnar að ákveða hvað þær ætla að gefa fólkinu sínu í jólagjöf. En stundum eru þessar sömu konur svo ákaflega bissí eitthvað og þegar þær fara í jólagjafaleiðangur sjá þær ekkert nema einhver fínheit sem smellpassa á þær sjálfar.

Átti einmitt svona augnablik í Kringlunni á dögunum þegar ég hnaut um dragt sem ég varð að eignast. Ekki nóg með það heldur varð ég að fá toppinn (sem var á gínunni í búðinni) við og skó. Þótt ég þjáist ekki af sérlegum fataskorti þá gerist það afar sjaldan að ég kaupi heilt dress á einu bretti. Og yfirleitt kaupi ég kjóla – ekki dragtir.

Þetta hefði þó ekki átt að koma á óvart því dragtirnar eru að detta inn og verða ennþá meira áberandi á næsta ári. Victoria Beckham hefur verið að vinna dálítið með þennan tískustraum og hefur hún sýnt dálítið góða spretti, blessunin. Dragtarbuxurnar eru líka örlítið víðari – ekki alveg sleiktar utan um lærlegginn líkt og búið væri að dýfa leggnum í málningardós.

Mér finnst þetta skondið því ég hef ekki farið í dragt síðan um síðustu aldamót. „Millenium-ið“ kallaði dálítið á dragtir og támjóa skó. Þá var ég einmitt ung og töff og vann í 17 þar sem ég bókstaflega mokaði út Claude Zana drögtum í öllum stærðum og gerðum. Skvísurnar sem unnu á saumastofu fyrirtækisins voru reyndar farnar að hárreita hver aðra því ég seldi varla dragt nema láta þrengja strenginn aðeins eða stytta ermarnar. Mér fannst það einhvern veginn klæðilegra og svo ryksugaði ég upp fastakúnna sem leið eins og það hefði verið sérsaumað á þær.

Dragtir eru oft og tíðum stimplaðar sem einkennisfatnaður bankakerfisins og eftir að allt hrundi duttu þær ósjálfrátt úr tísku. Í dag er dragtartískan öðruvísi. Buxurnar eiga að vera svolítið stuttar, eiga að nema við ökklann svo skótauið fái að njóta sín. Jakkarnir eru ekki sleiktir þétt að líkamanum heldur dálítið beinir í sniðum með góðri hreyfivídd. Svo er smart að vera í laus-sniðnum topp innanundir. Dragtir henta við flest tækifæri – nema kannski við heimilisþrif, barnapössun, jólakortaskrif, gardínuþvott, skúringar, eldamennsku, smákökubökun og jólainnpökkun ...

Marta María Jónasdóttir

Marta María Jónasdóttir

Fréttastjóri dægurmála á mbl.is, martamaria@mbl.is Meira