c

Pistlar:

22. desember 2013 kl. 9:43

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Baugahyljari er það eina sem þú þarft

Jólin eru yndislegur tími. Þetta er tími ástarinnar, hamingjunnar og nægjuseminnar og svo má ekki gleyma því hvað allir eru rólegir og yfirvegaðir svona síðustu dagana fyrir jól. Vel úthvíldir og skapgóðir... ARG!

Þrátt fyrir fögur fyrirheit að vera einu sinni svolítið núllstillt og jarðtengd í desember þá klikkaði þetta algerlega í ár. Ég geri því ráð fyrir að vera mun bugaðari en gellan í VR-auglýsingunum þegar klukkan slær sex á aðfangadag. Ég ætla samt ekki að segja ykkur hvers vegna...

Plönin snérust bara örlítið í höndunum á mér og svo er agalegt fyrir alla, sem ekki vinna hefðbundna níu til fimm vinnu, þegar þessir rauðu dagar koma á færibandi. Internetið fer aldrei í neitt jólafrí sko...

Þetta er samt ekkert einsdæmi því ég þekki ekkert annað en að vera dálítið buguð svona síðustu dagana fyrir jól. Þegar ég var unglingur passaði ég mig alltaf á því að ráða mig í nógu mikla vinnu í jólafríinu svo ég fengi smá aur í budduna. Ég lærði það mjög fljótt að næturnar eru drjúgar í desember. Það er alveg ótrúlegt hvað er hægt að framkvæma eftir miðnætti – þegar hinir sofa svefni hinna réttlátu.

Ég hef nú ekki verið mikið að spá í sérstök jólaföt síðustu ár enda er yfirleitt til eitthvert fínerí í fataskápnum sem hægt er að smella sér í. Jólaföt drengjamæðra þurfa að búa yfir sérstökum eiginleikum. Það verður að vera hægt að setja saman heilu Legó-löndin í þeim...

Á aðfangadag í fyrra var ég orðin grá í framan á tímabili því hálft kvöldið fór í að setja saman eitthvert Star Wars Legó. Jóladagur og annar í jólum fóru líka mestmegnis í sömu iðju. Þegar ég var búin að setja saman heilu stæðurnar af Legó-dóti hugsaði ég með mér hvað ég hefði gert af mér í lífinu og hver væri eiginlega að refsa mér.

Svo skulum við ekkert fara út í þá sálma hvað gerist þegar Legóið dettur í gólfið. Vinkona mín fann reyndar ráð við þessu. Hún límir allt Legóið saman með tonnataki – en það tekur hana reyndarhelmingi lengri tíma...en jæja!

Sem sagt, fyrir svona mæður sem eiga drengi með Legó-æði, er mjög mikilvægt að vera íteygjanlegum jólafötum úr góðum efnum. Ef þú ert í buxum skaltu hafa þær úr joggingefni því það er ekki séns að krjúpa á gólfinu í buxum úr elegant dragtarefni eða silkiefni. Ef þú ferð í kjól skaltu annaðhvort hafa hann hólkvíðan eða úr jogging-efni. Þið ykkar sem ætluðuð að vera í níðþröngum aðsniðnum Mad Men-kjólum getið pakkað saman. Það er ekki hægt að Legó-a í þeim.

En af því að jólin eru hátíð barnanna þá er þessi vel siglda drengjamóðir sem hér skrifar löngu búin að átta sig á því að það eina sem hún þarf að eiga fyrir jólin er góður baugahyljari... (og vasapeli...djók)