c

Pistlar:

9. janúar 2014 kl. 11:54

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Er þetta dóttir ykkar?

mm_og_sdg.jpgÉg sé að þú hefur haft það gott um jólin,“ sagði kraftlyftingaþjálfarinn minn þegar við hittumst eftir tveggja vikna fjarveru hvort frá öðru. Ég svaraði því játandi og lofaði að ég væri búin að taka síðasta sopann af maltinu og appelsíninu... allavega í bili og ég væri líka komin í ótímasett kampavínsbindindi...

Jólin eru nefnilega tíminn til að njóta og ef maður getur ekki fengið að vera í friði með alla heimsins óhollustu í æð er ekki þess virði að draga andann yfirhöfuð. Þessir hátíðadagar geta þó verið svolítið yfirþyrmandi með öllum sínum kræsingum og í ársbyrjun er það alls ekki það versta sem getur gerst í lífi fólks að skipta jólaölinu út fyrir vatn og Nóa-konfektinu fyrir hafragraut. Eins notalegt og það er að hafa munninn fullan af karamellu og súkkulaði þá fær maður líka leiða á því og ofátið verður svo hversdagslegt þegar það er búið að standa yfir í meira en viku.

Svo má ekki gleyma því að það skiptir meira máli hvernig lífi maður lifir milli nýárs og jóla en milli jóla og nýárs. Þótt þjálfarinn hafi séð það á núlleinni að ég væri pínu feit þá verð ég að viðurkenna að ég fann alls ekkert fyrir þessu þegar ég lá á náttfötunum uppi í sófa með fullan munninn. Náttföt teygjast náttúrlega endalaust. Það var ekki fyrr en á gamlárskvöld sem ég áttaði mig á því að kjóllinn sem ég hafði verið svo ógurlega lekker í fyrir jólin var eiginlega við það að springa á saumunum. Og svo gat ég ekki rennt honum upp ein míns lið heldur þurfti liðsauka. Þegar ég mætti í boðið reyndi ég að standa sem mest svo líffærin yrðu ekki fyrir varanlegu tjóni.

Áramótaheitið verður þó alls ekki að fara í megrun heldur halda áfram eins og frá var horfið fyrir jól. Það felst nefnilega ákveðin list í því að breyta engu og vera ánægð. Og elska „det hele“ sama hvað talan sýnir á vigtinni.

Á þessum árstíma er til siðs að horfa yfir farinn veg og skoða líf sitt frá ýmsum sjónarhornum. Þegar ég skoðaði líf mitt áttaði ég mig á því að 2013 er árið sem ég varð aftur stelpa.

Stelpa sem læsti sig úti og klifraði inn um glugga á annarri hæð á 15 cm hælum, stelpa sem hljóp hálft maraþon, stelpa sem tók skyndiákvarðanir, stelpa sem fór frekar út og hitti vini sína en að vera heima að taka til, stelpa sem fór að ganga í gúmmístígvélum, stelpa sem blés tyggjókúlur, stelpa sem stóð á haus og stelpa sem setti á sig hárkollur í partíi og tók mynd. Stelpa sem ákvað að tíminn væri núna og hans þyrfti að njóta í botn.

Eitt af eftirminnilegustu augnablikum ársins var þegar stelpan hitti Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Svanhildi Hólm Valsdóttur, aðstoðarmann Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, í Hörpu. Þá kom kona upp að okkur og spurði: „Er þetta dóttir ykkar?“ og benti á mig. Ég velti því fyrir mér um stund hvort það þyrfti að senda konuna í sjónmælingu... enda ekki á hverjum degi sem stelpan er spurð að því hvort hún sé dóttir jafnaldra sinna.